Vegáætlun 1991--1994

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 14:50:00 (3741)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Sú þáltill. sem liggur frammi um breytingu á þál. um vegáætlun fyrir árið 1991--1994 gerir ráð fyrir því að framlag til vegagerðar skuli skert um 750--760 millj. kr. og tel ég að ekki sé hægt að fá minni tölu út úr því. Að vísu hefur verið rætt um að það væri allt að einn milljarður en fyrsta vegáætlun sem samþykkt var fyrir þetta ár gerði ráð fyrir 6 milljörðum 318 millj. og í dag er gert

ráð fyrir 5 milljörðum 566 millj. Skerðingin er því umtalsverð eins og ég hef sagt.
    Þá er spurningin hvar allur þessi niðurskurður kemur niður á framkvæmdum í vegamálum og ræðumenn á undan mér hafa nú lýst því nokkuð. Við höfum einnig í samgn. og fjárln. fengið að heyra að markmið muni verða að auka viðhald og skerðingin muni ekki koma niður á viðhaldsfé. Þó er staðreyndin sú ef tölur síðustu ára eru skoðaðar að viðhald hefur verið mjög í lágmarki. Það hefur sífellt farið minnkandi á síðustu árum en aðeins verið aukning í nýframkvæmdum, m.a. bundnu slitlagi. Ég á því eftir að sjá að að viðhaldið muni ekki skerðast því eins og ég sagði hefur það verið mjög af skornum skammti, a.m.k. víða út um landið á undanförnum árum.
    Þá má einnig geta þess að sá sparnaður sem þarna er fyrirhugaður hlýtur að koma mjög mikið niður á þeirri atvinnu sem þetta hefur skapað heima fyrir --- virðulegi forseti, mér þykir nokkur hávaði hér í hliðarsölum. ( Forseti: Forseti biður þá sem eru í hliðarsölum að hafa hljótt um sig svo að það trufli ekki hv. þm. sem er í ræðustóli.) Ég þakka virðulegum forseta fyrir þessa athugasemd og bendi einnig á að hæstv. samgrh., sem þingmenn ætlast til að hlusti á mál þeirra, er einmitt rétt við þennan hliðarsal þannig að ég er að hugsa um að hann heyri líka það sem hér er sagt. Ég var að ræða um það að sá sparnaður sem hér er fyrirhugaður í vegamálum mun koma mikið niður á atvinnu heima fyrir. Ég get nefnt jarðgangagerð á Vestfjörðum sem er fyrirhugað að draga úr á þann veg að hún standi yfir einu ári lengur en ætlað hafði verið samkvæmt þeirri þál. sem hér var samþykkt í fyrra. Vegna þessarar ákvörðunar mun verða dregið úr þeirri framkvæmd sem heimaaðilar gætu sinnt, en verður þó reynt að standa eftir því sem hægt er við það samkomulag og þá samninga sem búið er að gera við verktaka um jarðgöng. Þar sem búið er að gera útboð og samþykkja mun samdráttur koma niður á vinnu heimaaðila. Ekki bætir það atvinnuástandið þegar þessi skerðing í samgöngumálum kemur til viðbótar.
    Heildarútgjöld til vegamála hafa verið að minnka sem hlutfall af þjóðarframleiðslu undanfarin ár. Á árinu 1972 voru þau 2,35% af þjóðarframleiðslunni en voru árið 1990 1,46%. Mismunur milli nýbygginga og viðhalds er sá að nýbyggingar vega og brúa hafa þó staðið í stað en hlutfall vegna viðhalds hefur minnkað.
    Ég vil líka benda á að fjárfesting í samgöngubótum hefur alltaf verið talin arðbær. Menn ættu að athuga það þegar ákvörðun er tekin, eins og í þessu tilfelli, að hætta við lántökur sem fyrirhugaðar voru til þess að standa straum af vegáætlun eins og hún upphaflega var, þá tel ég að það hefði einmitt réttlætt lántöku til slíkra framkvæmda að þessi fjárfesting er arðbær, það fer ekkert á milli mála.
    Að öðru leyti hefur ekki enn þá verið fjallað í þingmannahópum um þann niðurskurð sem hér mun koma fram og það er því lítið vitað um það hvar hann kemur endanlega niður.
    Þá er einnig eftir að skoða það, eins og hæstv. samgrh. upplýsti áðan, að hægt mundi verða á framkvæmdum við jarðgöng. Hver verður kostnaðurinn af því að hægja á þessum framkvæmdum? Er ekki með því verið að brjóta samninga og hvaða tugi milljóna er þá verið að tala um að þurfi að greiða þegar ekki er staðið við þá samninga sem búið er að gera?
    Að öðru leyti í sambandi við jarðgöng, sem ég gæti flutt langt mál um en hef þó ekki hugsað mér að gera, þá vil ég taka það fram að þegar Alþingi samþykkti það í fyrra að flýta gerð jarðganga í gegnum Breiðadals- og Botnsheiðar um eitt ár þá fóru menn á Vestfjörðum að sjá fram á að sá langþráði draumur yrði að veruleika því þessi jarðgöng eru ekki bara venjuleg vegaframkvæmd heldur marka þau tímamót í tengingu þeirra byggða sem hér er um að ræða. Við höfum séð fram á að þarna yrði eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Með því átti byggðin að eflast, fólkið að færast nær hvert öðru og samvinna og samstaða aukast. Þannig yrði hagræðing í samnýtingu ýmissa annarra mannvirkja sem yrði þá til sparnaðar fyrir ríkissjóð líka. Það var meira að segja sett á stofn nefnd sem átti að hafa það verkefni að sjá til þess að ekki yrði ráðist í óþarfa fjárfestingar sem ekki nýttust eftir tilkomu jarðganga. Nú þegar búið er að ákveða að hægja á þessu og fresta því að framkvæmdum ljúki er samt sem áður búið að bjóða út fyrsta áfanga verksins. Þetta er ákvörðun sem mun hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir byggðaþróun á Vestfjörðum. En það er slæmt þegar fólk getur ekki treyst því að ákvörðun sem búið er að taka standi. Það brýtur enn meira niður trú manna á það að orð stjórnmálamanna séu marktæk og það dregur úr þeirri bjartsýni sem ég hef fundið að hefur aukist eftir að ákvörðun var tekin um jarðgöngin. Sú framtíðarsýn sem fólkið sá fyrir sér er ekki sú sama.
    Ég held að þessi ákvörðun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, sem er e.t.v. stefnumarkandi um það hvernig hún hyggst taka á málefnum hinna dreifðu byggða, verði mjög afdrifarík.
    Mig langar til að spyrja hæstv. samgrh. um nokkur atriði sem tengjast þessari þáltill. Í sambandi við Ó-vegaframkvæmdir, sem hér voru ákveðnar fyrir nokkrum árum, voru fyrirhugaðir fjórir vegskálar á Óshlíð. Í dag er búið að byggja tvo þeirra. Allir vita hversu hættulegur sá vegur getur verið og hve mikil nauðsyn er þá á því að byggja þessa vegskála. Það hefur ekkert heyrst um það núna hvenær þeir muni vera byggðir en aftur á móti hefur það gengið mjög milli manna fyrir vestan að byggingu þeirra verði frestað. Þá hefði átt að byggja í sumar samkvæmt loforði en því muni enn verða frestað. Ég vil því spyrja hæstv. samgrh. hvað sé fyrirhugað í þeim málum. Einnig hvort ekki sé fyrirhugað að gera frekari ráðstafanir gegn snjóflóðum og skriðuföllum á Óshlíð. Menn hafa þar uppi hugmyndir um að það sé hægt að gera ýmsar ráðstafanir sem ekki muni þurfa að kosta svo mjög mikið. Vegskálarnir eru nokkuð dýrir og ef vel ætti að vera þyrftu auðvitað að vera vegskálar við miklu fleiri gil en aðrar leiðir eru til. Ég veit að heimamenn og Vegagerð ríkisins á Ísafirði vita um þær leiðir og þær hugmyndir sem eru í gangi. Því langar mig að heyra hjá samgrh. hvort uppi eru einhverjar hugmyndir um að gera frekari úrbætur í öryggismálum á Óshlíð.
    Snjómokstursreglur eru alltaf í endurskoðun og eftir því sem Vegagerð ríkisins segir okkur er það yfirleitt frekar til að fjölga mokstursdögum heldur en hitt þegar þær eru endurskoðaðar og er það vel. En eitt er það atriði sem oft hefur komið upp þegar rætt er um snjómokstursreglur, þ.e. hversu vegagerðarmenn virðast vera fastbundnir á daga sem fyrir fram eru ákveðnir og hefur það oft valdið erfiðleikum og óþægindum fyrir fólk að komast leiðar sinnar. Þessi fastheldni vegagerðarmanna kemur þannig fram að ef mokstursdagar eru t.d. þriðjudagar og það hefur ekkert snjóað á mánudag og þriðjudag en svo snjóar á miðvikudag og fólk þarf að komast leiðar sinnar þá er ekki mokað vegna þess að mokstursdagurinn var á þriðjudegi. Sjálf hef ég lent í þessu og ætla ég að segja eina sögu til gamans. Einu sinni í vetur þegar ég var á leiðinni heim til mín, og ætlaði að sjálfsögðu að lenda á Ísafirði, var okkur sagt að þar væri ekki lendandi en hægt væri að lenda á Þingeyri og keyra síðan yfir Breiðadalsheiði því vegurinn væri fær. En sem flugvélin er lent á Þingeyri kemur tilkynning um það frá Vegagerðinni að farið sé að skafa uppi á heiði og nú sé ófært yfir, það sé ekki mokstursdagur í dag, hann hafi verið í gær og þar með sátum við kyrr á Þingeyri og urðum að fara aftur til Reykjavíkur. Þetta er eitt dæmi um hvernig þetta getur verið.
    Eitt vil ég líka minnast á í sambandi við mitt kjördæmi en það er vegurinn yfir Hálfdán sem hér hefur verið minnst á í ýmsum umræðum. Eftir þá ákvörðun að leggja Skipaútgerð ríkisins niður er enn nauðsynlegra en áður að flýta framkvæmdum yfir Hálfdán en mér sýnist á þessari vegáætlun að það sé ekki ætlunin heldur sé frekar um samdrátt að ræða en flýtingu og vil ég einnig spyrja hæstv. samgrh. hvort hann hefur hugsað sér eitthvað annað í þeim efnum en hér kemur fram eða hvort ekkert á að gera til að bæta samgöngur við Bíldudal.
    Það kom fram hjá hæstv. samgrh. að nokkur ágreiningur hefði orðið um það hvort ætti að vísa þessari þáltill. til samgn. eða fjárln. Venjan hefur verið sú undanfarin ár að henni hefur verið vísað til fjárln. eða fjárveitinganefndar, eins og hún hét, en ég tel að sú ákvörðun sé rétt að vísa henni til samgn. vegna þess að með nýjum þingsköpum er ætlunin að fara inn á þá braut að fagnefndir hafi meira um málin að segja og þá minnki e.t.v. eitthvað vinna fjárln., sem reyndar er tímabundin að miklu leyti. Sú vinna er mest að haustinu, en ég tel það rétta stefnu að vísa þessu máli til samgn. fyrst og fremst, þó að fjárln. fari yfir málið eftir hennar umferð.
    Ég gleymdi því áðan í sambandi við þá vegáætlun sem hér liggur frammi að talsverð skerðing á framkvæmdum úti um land kemur líka fram vegna þess að verið er að gera upp gamla skuld úr þéttbýlisvegasjóði til höfuðborgarsvæðis. Ákveðið hefur verið að á næstu þremur árum skuli greiða 370 millj. kr. úr vegasjóði til höfuðborgarsvæðis vegna þjóðvega í þéttbýli. Þar mun skuldin vera um einn milljarður og ekki er þó enn búið að ákveða hvernig hinar 700 millj. greiðist. Ég tel líka að það sé a.m.k. mjög athugaverð ákvörðun hvort rétt hafi verið á sama tíma og verið er að skerða annað framkvæmdafé til vegagerðar.