Vegáætlun 1991--1994

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 15:06:00 (3742)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Með þessari þáltill. er verið að staðfesta ákvarðanir hæstv. ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokkanna um niðurskurð í vegamálum sem er auðvitað búinn að liggja fyrir í langan tíma. Út af fyrir sig sýnist mér aðferðin við staðfestinguna samkvæmt þessu þskj. ekki óeðlileg en ég mótmæli, eins og við höfum reyndar áður gert, þeim niðurskurði sem í þessu felst. Það er ekki skynsamlegt að skera niður framkvæmdafé til vegamála við þær aðstæður sem við búum við núna og reyndar er erfitt að skilja hvernig ríkisstjórn, sem ætlaði út í einhverjar mestu þensluframkvæmdir sem menn hafa nokkurn tímann séð framan í á þessu landi, hefur gjörsamlega skipt um forrit og reynir nú að draga saman á öllum sviðum. Við sjáum að það stefnir í verulegt atvinnuleysi sem er reyndar skollið á sums staðar en mun auðvitað halda áfram að aukast eftir því sem fleira kemur fram af fyrirætlunum um samdrátt frá hendi stjórnvalda því auðvitað er þessi samdráttur ávísun á minni umsvif og færri atvinnutækifæri um allt land. Þetta á eftir að kosta mjög erfitt ástand í ýmsum byggðarlögum í landinu og líka hér á Reykjavíkursvæðinu. Ég held að eðlilegt hefði verið við þessar aðstæður að stjórnvöld hefðu beitt sér fyrir því að halda uppi fullum framkvæmdum í vegamálum og reyna með því að hamla dálítið á móti samdrættinum sem fyrirsjáanlegur er.
    Mig langar til að koma hér að fáeinum öðrum atriðum. Reyndar er búið að ræða þessi mál töluvert og hv. 4. þm. Norðurl. e. fór mjög nákvæmlega yfir þau atriði sem við höfum verið að gagnrýna í haust og vetur þannig að ég ætla að reyna komast hjá að endurtaka mikið af því. Mig langar til að ræða það sem kom fram í máli hæstv. samgrh., að hann er búinn að skipa nefnd sem á að endurskoða vegalög. Í þeirri nefnd eru eingöngu stjórnarliðar. Ég átel það og ég verð að segja að mér finnst þessi ríkisstjórn ganga fram með eindæmum í þeim málum sem hún vill endurskoða. Hún skipar eingöngu stjórnarliða í mjög mikilvægar nefndir sem eiga að fjalla um endurskipulagningu á málum sem eru stór mál í augum þjóðarinnar. Þar má t.d. nefna endurskoðun fiskveiðistefnunnar og mér er kunnugt um að menntmrh. ætlar að fara að skipa nefnd sem á að fara að endurskoða grunnskólalögin og framhaldsskólalögin og

í þeirri nefnd eiga einungis að vera stjórnarliðar og ekki á einu sinni að óska eftir tilnefningum frá aðilunum sem eiga mestra hagsmuna að gæta, skólafólki eða öðrum. Hann ætlar að skipa alla nefndina án tilnefningar. Þannig er allt á sömu bókina lært í sambandi við framgang ríkisstjórnarinnar með þau mál sem hún ætlar að endurskoða. Það er sárt að finna til þess þegar þingið er að byrja að vinna eftir nýju skipulagi þar sem menn höfðu við orð að þingnefndir ættu að verða stærri aðili í mótun mála og þingmenn fengju þar tækifæri til að fjalla um málin og ræða hugmyndir sem væru á ferðinni í stjórnkerfinu. Nei, það er allt dregið út og sett í nefndir út um bæ. Í þær er sjálfsagt valið ágætt fólk en með þeim formerkjum sem ríkisstjórnin setur að það skuli vera einlægir stuðningsmenn flokkanna sem standa að ríkisstjórninni og að ekki skuli heldur hlustað á tillögur þeirra aðila sem eiga hlut að utan úr þjóðfélaginu.
    Mig langar til að beina þeirri spurningu til hæstv. samgrh. hvaða hugmyndir hann hafi í sambandi við mál sem hér er nefnt, þ.e. endurskoðunina á þungaskattskerfinu. Er hann að hugsa um að leggja það kerfi niður? Mér finnst það ekki koma skýrt fram. Ég hef verið einn þeirra sem hafa talið að þetta ætti að endurskoða og að skoða ætti vel hugmyndir um það að leggja gjaldmælana af og finna aðra leið til þess að innheimta þungaskattinn. Það mætti vel gera með álagi á dísilolíu sem ekki legðist þó á þá olíu sem seld er til skipa. Það er mun einfaldara kerfi en það sem nú er í gildi. Það yrðu auðvitað fleiri sem mundu borga með þeim hætti en þá væri hægt að lækka gjaldið sem legðist á dísilolíuna. Mig langar að spyrja um hvaða hugmyndir hæstv. samgrh. hafi í þessu efni.
    Við höfum auðvitað rætt um þennan samdrátt svo oft í vetur og hvernig hann hefur birst í þeim tölum sem hér eru. Ég ætla ekki að fara yfir það aftur nema að benda á að auðvitað kemur þessi samdráttur næstum alfarið niður á almennum vegaframkvæmdum og enn sárara vegna þess að þar er atvinnumálaþátturinn einmitt stærstur í vegamálum og samgöngumálunum. Þess vegna mun hann virka mun þyngra en ef menn hefðu verið að skera niður með öðrum hætti. Ég er svo sem ekki að leggja til að það sé gert heldur eingöngu að benda á að þessi samdráttur hlýtur að hafa mjög veruleg áhrif bæði á það fólk sem hefur unnið að þessum vegaframkvæmdum og ekki síður þau fyrirtæki sem hafa byggt sína tilveru á að starfa við vegagerð allt í kringum landið.
    Ég vil samt ekki láta hjá líða að mótmæla einu sinni enn þeim aðferðum sem voru notaðar í sambandi við jarðgangagerðina á Vestfjörðum. Þau vinnubrögð finnast mér algjörlega forkastanleg. Þar er ákveðið að breyta út frá samningum sem höfðu verið gerðir og samþykktum sem Alþingi hafði gert og án þess að vera búið væri að ná samkomulagi við þá sem eiga hlut að máli og eru verktakar í þessari gerð. Það finnst mér fáránlegt. Ef eitthvert samkomulag hefði legið fyrir og menn vissu hvað þeir væru að tala um og hefðu getað lagt fram hugmyndir um breytingar hefði þetta kannski verið hugsanleg aðferð. En að mínu viti er það fyrsta skilyrði til þess að hægt sé að ákveða svona breytingu að fyrir liggi að þeir aðilar sem eiga hlut að máli séu tilbúnir til þess að semja um aðra tilhögun og það sé nokkurn veginn heilleg tillaga sem liggi borðinu um hvernig eigi að fara að því.
    Ég á sæti í samgn. og þar verður þetta rætt og skoðað og ég vona að það verði eitthvert mark tekið á því sem samgn. segir um þessi mál en í raun og veru er ekki hægt að búast við miklum breytingum. Það er raunverulega búið að ákveða þetta. Þetta er staðfesting á ákvörðunum sem hafa verið ræddar hér í vetur og þess vegna er kannski ekki mikið um það að segja annað en það að ég tel út af fyrir sig að þessi staðfesting sé hvorki verri eða betri en við var að búast.