Vegáætlun 1991--1994

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 15:15:00 (3743)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. 2. þm. Suðurl. að þetta er ekki í fyrsta skipti sem við stöndum andspænis því að framlög til vegamála eru skert. Það hefur margoft gerst áður við ýmsar aðstæður og við stöndum frammi fyrir þeim veruleika líka nú. Þrátt fyrir það er rétt að vekja sérstaka athygli á að framlög til vegamála nema nú rúmum 5,5 milljörðum kr. Einu sinni áður hafa framlög til vegamála verið hærri að raungildi en það var árið 1984. Þrátt fyrir skerðingu er nemur 250 millj. samkvæmt fjárlögum, þá erum við samt að stíga spor fram á við þótt um skerðingu sé að ræða.
    Aðstæður í þjóðfélaginu eru þannig að talið hefur verið nauðsynlegt að taka af mörkuðum tekjustofnum til vegamála um 265 millj. kr. Ástandið í ríkisfjármálum er þess eðlis að það hefur verið talið nauðsynlegt þótt sárt sé fyrir okkur landsbyggðarfólk að horfa á eftir afmörkuðum tekjustofnum inn í almennan ríkissjóð.
    Það er líka hárrétt sem hér hefur komið fram að framkvæmdir í vegamálum stuðla mjög að atvinnulífi í sveitum og byggðum landsins. Auðvitað er það átak til atvinnusköpunar á landsbyggðinni að gera sérstakt framkvæmdaátak í vegamálum og það er þekkt að sú leið hefur verið farin. Ég tel að þessa leið eigi sérstaklega að kanna núna þegar við horfum fram á vaxandi atvinnuleysi í landinu. Það er eitt stærsta byggðamálið að treysta samgöngurnar í landinu. Það hefur verið gert mikið átak í vegamálum á síðustu árum og gjörbylting hefur orðið hvað alla vegagerð snertir. Því ber að fagna. Þrátt fyrir að fjárveitingum til jarðgangagerðar á Vestfjörðum sé breytt, þá eru fyrirheit gefin um að framkvæmdum þar eigi að ljúka á áætluðum og tilsettum tíma. Ég vil minna á það í þessari umræðu að þegar framkvæmdum við jarðgangagerð verður lokið á Vestfjörðum, þá verður undirbúningi jarðgangagerðar fyrir Austurland lokið þannig að það verður hægt að snúa sér að framkvæmdum þar í framhaldi af framkvæmdalokum á Vestfjörðum. Það er mjög stórt og brýnt byggðamál fyrir mannlíf og atvinnulíf á Austurlandi að hægt verði að ráðast

þar í jarðgangagerð og þess vegna vil ég ítreka það hér að þegar verði hafist handa við raunhæfan undirbúning að jarðgangagerðinni á Austurlandi þannig að ekki standi á því að allar nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar þegar framkvæmdum lýkur á Vestfjörðum. Ég vil enn og aftur ítreka þetta.
    Það er sárt að þurfa að standa andspænis þessum veruleika að sjá af fjármunum úr Vegasjóði inn í almennan ríkissjóð sem líta má á sem framlag til þess að brúa þann ríkissjóðshalla sem við höfum búið við allt of lengi. Þrátt fyrir það er meiri fjármunum varið til vegamála en oft áður. Það er líka sárt að þurfa að sjá af svo miklum fjármunum renna hingað til höfuðborgarsvæðisins í sambandi við samning sem gerður var á síðasta ári, er nemur 1 milljarði kr., um að greiða uppsafnaðan kostnað við framkvæmdir sem spurning er um hvort hafi verið innan marka gildandi vegáætlunar. Það renna á ári um 370 millj. kr. af framkvæmdafé vegamála til Reykjavíkurborgar upp í þennan samning og þetta fé skerðir náttúrlega það sem til umráða er. Hér er því um hærri tölu að ræða en nemur skerðingu á vegafé og rennur í almennan ríkissjóð.
    Þrátt fyrir að svona sé staðið að málum að þessu sinni vænti ég þess að horft verði til framtíðar og út frá því megi ganga að ríkisstjórnin ætli sér að gera átak í vegamálum og að framkvæmdir í vegamálum á kjörtímabilinu verði eitt af forgangsverkefnum þessarar ríkisstjórnar.