Vegáætlun 1991--1994

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 15:43:00 (3745)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þær voru margvíslegar skuldirnar sem Sjálfstfl. skildi eftir sig á árunum 1983--1988. Ég hafði það sem verkefni í fjmrn. að reyna að koma skikk á þessi mál sem Sjálfstfl. skildi eftir sig, m.a. kom ég með hér inn í þingið nánast öll fjáraukalagafrv. frá fjármálaráðherratíð Sjálfstfl. á árunum 1983--1987 og fleira mætti nefna þessu til sönnunar.
    Eitt af þessum verkefnum sem biðu mín í fjmrn. var það að fjármálaráðherrar Sjálfstfl. höfðu algjörlega neitað að ganga með skýrum hætti frá uppgjörum við Reykjavíkurborg vegna vegamála. Þessi samskipti voru á þann veg að allt frá tíð Alberts Guðmundssonar, sem varð fjmrh. 1983, öll hans ár, öll ár Þorsteins Pálssonar og fjármálaráðherraár Jóns Baldvins Hannibalssonar, söfnuðust upp slíkar vanskilaskuldir að ekkert sveitarfélag á landinu átti jafnlangan skuldahala inni hjá ríkissjóði og Reykjavíkurborg. Þáverandi borgarstjóri lagði á þetta mjög mikla áherslu. Satt að segja var ekkert mál sem hann lagði eins mikla áherslu á við mig og að frá þessu yrði gengið. Ég gerði það sem fjmrh. og mér er kunnugt um það að Landsbankinn tók síðan þetta bréf og á grundvelli þess strikaði hann út vanskilaskuld Reykjavíkurborgar við Landsbankann af sérstökum vanskilareikningi til þess að láta reikninga Reykjavíkurborgar líta svolítið laglega út þegar Davíð Oddsson núv. forsrh. fór fram sem borgarstjóri. Með því móti kæmi ekki alveg skýrt í ljós hvað Reykjavíkurborg skuldaði mikið en það var auðvitað mál Landsbankans. Ef sjálfstæðismenn á Alþingi vilja nú láta kanna sérstaklega hvort þetta hafi verið löglegur gerningur, hvort beri að ónýta þetta skuldabréf og rífa það í tætlur og borga ekki samkvæmt því þá er það alveg meinalaust af minni hálfu. Ég hvet þá sjálfstæðismenn, sem hafa talað í þessa veru hér á þinginu, til að fylgja þessum orðum sínum eftir vegna þess að ég ætla ekki að sitja undir því hér að þetta hafi verið ólöglegur gerningur. Ég hvet þá hv. þm. Einar K. Guðfinnsson til þess að láta verða af þessum orðum sínum og fjalla um málið í samgn. og fjárln. og öllum þeim nefndum þingsins sem hann vill láta um það fjalla.