Heimsókn forsætisráðherra til Ísraels

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 16:14:00 (3751)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til þess að beina ýmsum spurningum til hæstv. forsrh. í tilefni af heimsókn hans til Ísraels og tengslum þeirrar heimsóknar við utanríkisstefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Ekki þarf að rekja í löngu máli útlínur þeirra atburða sem urðu í heimsókn forsrh. til Ísraels en eins og fram hefur komið var ærið margt sem þar gerðist, bæði í málefnum Ísraels og Miðausturlanda og eins í samskiptum Ísraels og Íslands.
    Ég vil í upphafi geta þess að á fundi í utanrmn. 10. febr. sl. óskaði ég eftir því að fjallað yrði um ferð forsrh. til Ísraels á vettvangi utanrmn. Á þeim fundi kom fram hjá hæstv. utanrrh. að heimsókn forsrh. Davíðs Oddssonar til Ísraels hefði ekki verið rædd í ríkisstjórninni áður en hún var ákveðin og tilkynnt opinberlega. Það vakti undrun mína og æðimargra að ekki skyldi hafa verið fjallað um svo viðkvæmt mál í ríkisstjórninni áður en ákvörðun var tekin um heimsóknina þar eð öllum mátti vera ljóst að það gæti orðið afar viðkvæmt og erfitt bæði fyrir forsrh. Íslands persónulega og samskipti Íslands og Ísraels að halda þangað í heimsókn einmitt á þessum tímum.
    Í umræðu á Alþingi 12. febr. komu fram eindregnar viðvaranir frá talsmönnum allra stjórnarandstöðuflokkanna og hæstv. forsrh. var bent á að ástand mála væri með þeim hætti í Miðausturlöndum og framganga Ísraelsstjórnar sérstaklega í mannréttindamálum og í hernaðarmálum gagnvart nágrönnum sínum að afar óheppilegt væri að forsrh. Íslands færi sérstaklega á þessum tíma í slíka för. Engu að síður kaus forsrh. að halda sínu striki og fara til Ísraels.
    Í þeirri viku sem heimsóknin stóð urðu örlagaríkir atburðir í samskiptum Ísraels og Sameinuðu

þjóðanna og nágranna Ísraelsríkis. Þrír ísraelskir hermenn voru myrtir af samtökum sem börðust fyrir sjálfstæði Palestínumanna og er það hörmulegur atburður sem vissulega ber að telja miður að hafi átt sér stað. Svör Ísraelsstjórnar við þessum atburði voru hins vegar á þann veg að Ísraelsher ákvað að myrða leiðtoga Hizbollah-samtakanna, Abbas Musawi, í þrautskipulegri aðgerð sem hefur komið fram að var ákveðin með margra mánaða fyrirvara og eingöngu beðið eftir ,,hentugu tækifæri`` til þess að myrða hann. Það sem meira var að Ísraelsher hikaði ekki við að framkvæma morðið á þann hátt að skjóta á bifreið leiðtogans þannig að bæði kona hans og ungur sonur létust í árásinni. Ísraelskar þyrlur og árásarflugvélar voru notaðar til þess að skjóta á bílalestina og ekkert hirt um það hvort óbreyttir borgarar, konur og börn, yrðu fyrir árásinni. Eins og fram hefur komið í fréttum var slíkt ekki nóg fyrir Ísraelsher heldur skutu þeir eftir árásina á Volvo-bifreið sem flutti særða og látna á sjúkrahús.
    Nokkrum dögum síðar ákvað ríkisstjórn Ísraels að ráðast með her Ísraels á líbönsku þorpin Kafra og Yater og í þeirri árás var engu skeytt um það að öryggissveitir Sameinuðu þjóðanna höfðu það verkefni að vernda þetta svæði. Ísraelsher réðst með skriðdrekum sínum á friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna og beindi skotvopnum sínum að friðargæslumönnunum og skaut á þá án nokkurs hiks. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Boutros-Ghali, hefur eindregið fordæmt þessa árás Ísraelshers á friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna og tilraunir Ísraelshers til þess að myrða þá friðargæslumenn sem hið alþjóðlega samfélag hefur falið að vernda líf óbreyttra borgara. Engu að síður hefur Ísraelsstjórn ákveðið að hirða ekkert um vilja Sameinuðu þjóðanna í þessum efnum og ráðast ekki bara á konur og börn á þessu svæði heldur líka á þá fulltrúa sem hið alþjóðlega samfélag hefur falið að varðveita friðinn.
    Það ber auðvitað að harma að á þeim tímum þegar stjórnvöld í Ísrael framkvæma ákvarðanir af þessu tagi, framkvæma margra mánaða áætlun um að myrða úr launsátri leiðtoga Hizbollah-samtakanna, konu hans og ungan son og ráðast síðan með öflugum herafla að tveimur varnarlausum þorpum og skeyta ekkert um hvort friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna verði í vegi þeirra sem árásina gera.
    Í umræðunni á Alþingi var eðlilega spurt um afstöðu ríkisstjórnar Íslands. Þegar slíkir atburðir gerast um leið og opinber heimsókn forsrh. Íslands á sér stað er óhjákvæmilegt að þjóðþingið leiti svara við því hver er afstaða ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar til þessara ákvarðana, árásaraðgerða og morða sem Ísraelsstjórn lét framkvæma í sömu vikunni og forsrh. Íslands var gestur þeirra.
    Einnig kom fram í umræðunni á Alþingi að margvísleg mannréttindabrot eru framkvæmd í Ísrael. Í skýrslu Amnesty International hefur komið fram að 25 þúsund Palestínumenn eru í fangelsum og hafa verið handteknir af stjórnvöldum í Ísrael. Þeirra á meðal eru fjölmargir samviskufangar. Um 4.000 manns hafa á rannsóknartímabili Amnesty International verið hafðir í fangelsum af yfirvöldum í Ísrael án ákæru og um 13 þúsund manns er haldið í fangelsi án þess að málefni þeirra séu tekin fyrir dómstóla. Ísraelsríki hagar sér ótvírætt eins og ríki æðri kynþáttar gagnvart íbúum Palestínu sem þar hafa búið um árhundruð og árþúsundir, eiga það land sem sitt land ekkert síður en þeir íbúar í Ísrael sem hlotið hafa land sitt að gjöf.
    Í umræðum á Alþingi var spurt að því hvort hæstv. forsrh. hyggðist ræða skýrslu Amnesty International um mannréttindabrot Ísraelsstjórnar og framgöngu gagnvart íbúum Palestínu í heimsókn sinni. Spurt var vegna þess að Íslendingar, bæði Alþingi og þessi ríkisstjórn og fráfarandi ríkisstjórn hafa kappkostað það á alþjóðavettvangi á síðari árum að vera málsvarar fyrir sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna, verið málsvarar baráttunnar fyrir mannréttindum, hafa verið í fararbroddi gagnrýninnar á það að menn væru fangelsaðir og líflátnir fyrir skoðanir sínar. Þess vegna væri óhjákvæmilegt að beint væri sams konar gagnrýni gagnvart Ísraelsstjórn og við höfum sameinast að beita gagnvart yfirráðum Rússa í Eystrasaltsríkjum og í málefnum þjóðanna sem áður byggðu Júgóslavíu.
    Það sem ég hef hér rakið er auðvitað ærið tilefni til þess að ríkisstjórn Íslands fordæmi með skýrum hætti þær árásaraðgerðir sem ríkisstjórn Ísraels lét framkvæma meðan á heimsókn forsrh. Íslands stóð, bæði morðið á leiðtoga Hizbollah-samtakanna og fjölskyldu hans og árásina á hin varnarlausu þorp og friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna.
    Þessu til viðbótar gerðist svo í þessari heimsókn sá einstæði atburður að með atbeina yfirvalda í Ísrael afhenti Wiesenthal-stofnunin forsrh. Íslands bréf þar sem lagðar voru fram ákærur á hendur íslenskum ríkisborgara. Sá verknaður hefur orðið tilefni til margvíslegra ummæla á Íslandi meðan forsrh. hefur verið fjarverandi. Hefur þar verið í fararbroddi hæstv. utanrrh. sem talað hefur skýrt og greinilega og einnig gripið til þeirrar ákvörðunar að afþakka formlega heimboð til Ísraels til að mótmæla framkomu yfirvalda í Ísrael við hæstv. forsrh. Í umfjöllun fjölmiðla á Íslandi um þessa atburði hefur margt komið fram. Ég vil aðeins vitna í tvö útbreiddustu dagblöð landsins en í leiðara Morgunblaðsins 20. febr. 1992 segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sú framkoma stjórnvalda í Ísrael að hafa milligöngu um afhendingu á bréfi um meintan stríðsglæpamann á Íslandi er auðvitað óafsakanleg með öllu. Hafi ísraelsk stjórnvöld ætlað að efla tengsl ríkjanna tveggja með boðinu til forsætisráðherra, hefur þeim tekist það þveröfuga. Almenn reiði ríkir á Íslandi vegna framkomu Ísraela í þessu máli.``
    Í leiðara Morgunblaðsins er einnig vitnað í eftirfarandi ummæli hæstv. utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í mínum huga má líkja þessu við það að leiða mann í gildru. Hafi það vakað fyrir Ísraelum að

eyðileggja þessa opinberu heimsókn forsætisráðherra Íslands þá gátu þeir ekki fundið til þess betra ráð.``
    Ályktunarorð leiðara Morgunblaðsins eru svo á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það liggur beint við að Ísraelsstjórn biðji hann og íslensku þjóðina afsökunar á því frumhlaupi sem hér hefur átt sér stað. Á meðan það er ekki gert mun þetta mál valda vandkvæðum í samskiptum Íslands og Ísraels.``
    Í leiðara DV sama dag, fimmtudaginn 20. febr., einnig vikið að heimsókninni og þar er sagt m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Davíð Oddsson forsætisráðherra var eindregið varaður við að fara í opinbera heimsókn til ofbeldisríkis á borð við Ísrael.`` Í leiðaranum er einnig sagt að stjórnvöld í Ísrael hafi haft forsætisráðherra okkar að fífli, eins og þar stendur orðrétt, og er ferðin til Ísraels orðin hin mesta sneypuför. Í leiðaranum segir einnig: ,,Ísraelsfararnir Davíð Oddsson forsætisráðherra og Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra, verða nú að opna að nýju mál sem klýfur Sjálfstfl. í stuðningi hans við Ísraelsríki annars vegar og Eðvald Hinriksson hins vegar. Þetta er vond staða sem ekki verður flúin. . . .  Gegn góðra manna ráði álpaðist forsætisráðherra til Ísraels og lét sprengja mál þetta í andlit sér.``
    Ég ætla í sjálfu sér ekki að taka afstöðu til þessara ummæla en þetta var dómur tveggja víðlesnustu dagblaða landsins um atburðina sem gerðust í Ísrael og för forsrh. Vegna þessa sem ég hef rakið hef ég leyft mér að kveðja mér hljóðs og bera fram eftirfarandi tólf spurningar til hæstv. forsrh. sem ég afhenti honum einnig í upphafi umræðunnar.
    1. Hvers vegna var heimsókn forsrh. til Ísraels ekki rædd í ríkisstjórninni áður en heimsóknin var ákveðin?
    2. Hver er afstaða forsrh. og ríkisstjórnarinnar til morðsins á Abbas Musawi, eiginkonu hans og ungum syni sem Ísraelsher myrti eftir að hafa skipulagt morðið mánuðum saman?
    Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar og forsrh. til árásar Ísraelshers á þorpin Kafra og Yater, en í þeirri aðgerð réðst Ísraelsher á friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna og skutu á friðargæslumenn Sameinuðu þjóðanna?
    3. Er forsrh. og ríkisstjórnin sammála fordæmingu Boutros-Ghali, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, á framgöngu og árás Ísraelshers á þorpin Kafra og Yater og árás Ísraelshers á friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna?
    4. Ræddi forsrh. skýrslu Amnesty International um mannréttindabrot í Ísrael við forsrh. Ísraels eða aðra forustumenn ríkisstjórnarinnar í Ísrael?
    5. Hvers vegna heimsótti forsrh. Íslands herteknu svæðin og lagði þar með blessun sína yfir hernám Ísraels á landsvæðum Palestínumanna?
    6. Er forsrh. sammála þeirri niðurstöðu sem fram kemur í leiðara Morgunblaðsins 20. febr. 1992 en þar er sagt að Ísraelsstjórn eigi að biðja forsrh. og íslensku þjóðina afsökunar á því frumhlaupi sem átti sér stað í heimsókn forsrh. til Ísraels og einnig að á meðan það er ekki gert muni þetta mál valda vandkvæðum í samskiptum Íslands og Ísraels?
    7. Fela ummæli utanrrh. í sér að forsrh. hafi verið leiddur í gildru í heimsókninni í Ísrael? Hafi það vakað fyrir Ísraelum að eyðileggja þessa opinberu heimsókn forsætisráðherra Íslands þá gátu þeir ekki fundið til þess betra ráð. Fela ummæli utanrrh. í sér afstöðu ríkisstjórnar Íslands og er forsrh. sammála þessum dómi utanrrh.?
    8. Túlkar sú afstaða utanrrh. að afþakka heimboð til Ísraels dóm ríkisstjórnarinnar yfir framkomu stjórnvalda í Ísrael við forsrh. Íslands? Hvers vegna var ákvörðun utanrrh. um að afþakka heimboð til Ísraels tekin án þess að ræða við forsrh.?
    9. Er forsrh. nú að lokinni heimsókn til Ísraels ekki sammála þeim viðvörunarorðum sem mælt voru til hans á Alþingi áður en hann fór til Ísraels? Er ekki ljóst í ljósi þess að utanrrh. telur að yfirvöld í Ísrael hafi eyðilagt heimsókn forsrh. til Íslands að betur hefði verið að forsrh. hefði hlýtt ráðum okkar á Alþingi og ekki farið í heimsóknina?
  10. Forsrh. hefur hafnað þeirri skoðun utanrrh. að forsrh. hefði átt að hætta við heimsókn sína til Ísraels þegar stjórnvöld í Ísrael stuðluðu að því að Wiesenthal-stofnunin gæti afhent honum bréf um Eðvald Hinriksson en utanrrh. sagði að forsrh. hefði átt að taka leigubíl út á flugvöll, svo að notað sé óbreytt orðalag hæstv. utanrrh. Hvers vegna telur forsrh. þessa afstöðu utanrrh. vera ranga þótt ljóst sé að margt bendir til að hún njóti víðtæks stuðnings meðal almennings á Íslandi?
  11. Mun ríkisstjórn Davíðs Oddssonar endurskoða afstöðu sína til stefnu Ísraelsstjórnar og málefna Miðausturlanda í ljósi þess sem gerst hefur og rakið hefur verið í upphafsræðu minni? En eins og kunnugt er hefur afstaða ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar verið mjög hliðholl og jákvæð gagnvart ríkisstjórn Ísraels.
  12. Hver verða viðbrögð ríkisstjórnar Íslands við bréfi Wiesenthal-stofnunarinnar sem afhent var forsrh. í Ísrael?
    Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka fyrir það tækifæri að geta vakið máls á þessu hér á Alþingi og óskað svara á vettvangi þingsins við spurningum sem brunnið hafa á vörum fjölmargra í okkar landi á síðustu dögum, síðustu rúmri viku, vil ég harma það að veikindi hindra hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson að vera við þessa umræðu. Ég vona að hann öðlist fljótt heilsu og geti komið hér vaskur og hress til starfa á Alþingi á ný. Þótt vissulega hefði verði æskilegt að hafa hann hér með okkur í þessari umræðu þá verður því miður ekki að því gert. En ég vil nota þetta tækifæri til að óska honum góðs bata í veikindunum.
    Ég vona svo, virðulegur forseti, að hæstv. forsrh. geti greitt úr þessum spurningum og starfandi utanrrh. komi síðan inn í umræðuna eftir því sem honum finnst ástæða vera til.