Heimsókn forsætisráðherra til Ísraels

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 18:53:00 (3761)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Það var alveg rétt athugað hjá hv. þm. Reykv., hinum 3. og hinum 10., að kjarnann í stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum Ísraels og deilnanna við nágranna þeirra er að finna í þál. um deilu Ísraels og Pelestínumanna sem var samþykkt af Alþingi samhljóða þann 18. maí 1989. Hún geymir kjarnann í þessari stefnu þar sem Alþingi leggur ríka áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis. Mér þótti þess vegna nokkuð furðulegt að hv. 15. þm. Reykv. sem hér talaði, sem var einn af flm. þeirrar tillögu sem endanlega var samþykkt sem nefndarmaður í utanrmn., fór hér þeim orðum um þá stefnu, sem ég hef lýst í minni ræðu, að hún ylli þingmanninum vonbrigðum. Þetta er nákvæmlega sú stefna sem flutt var fram á þinginu vorið 1989 og sem hefur verið leiðarljós fyrir stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar í þessu máli.
    Síðan var spurt eðlilega: Hvernig hefur íslenska ríkisstjórnin unnið að framgangi þessarar stefnu? Svarið er fyrst og fremst fólgið í því að Íslendingar hafa sem góðir heimsins borgarar tekið þátt í þeim friðarviðræðum sem hafnar eru milli aðilanna á svæðinu með því að taka þátt í því að beita sér fyrir samningsbundnum, friðsamlegum lausnum á þessum djúpstæðu, illvígu deilum. Við höfum tekið þátt í Madrid-samningaferlinu m.a., eins og fram kom hér í minni fyrri ræðu, með þátttöku Jóns Baldvins Hannibalssonar utanrrh. á sérstökum undirbúningsfundum í Moskvu nýlega og með því höfum við stutt að Palestínumenn fái að taka þátt í þeim samningaviðræðum. Þeir gera það nú í samninganefnd Jórdaníu. Það er vafalaust hægt að hugsa sér þar aðrar leiðir og við viljum vinna að framgangi þess máls en það þýðir alls ekki að við slítum sambandi við Ísrael. Það gamla samband munum við halda áfram að rækta þótt ég telji, eins og fram hefur komið og hæstv. utanrrh. hefur bent á, að atburðir sem tengdust heimsókn forsrh. hafi varpað nokkrum skugga á þau um sinn. Það er hins vegar algerlega óskylt mál og hefur ekkert að gera með heimsókn forsrh. til Ísraels sem var nauðsynleg til þess að kynna ráðamönnum þar í landi persónulega einmitt þessa stefnu sem ég hef hér lýst, einkum í minni fyrri ræðu og til þess að kynnast viðhorfum þeirra. Því neiti menn að tala við menn sem eiga í deilum verða deilurnar aldrei niður settar.