Heimsókn forsætisráðherra til Ísraels

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 18:56:00 (3762)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Frú forseti. Eins og hv. 3. þm. Reykv. benti á þá hefur þessi umræða farið nokkuð út um víðan völl eins og verða vill en engu að síður held ég að hún hafi verið að mörgu leyti gagnleg. Ég nefndi í lok minnar fyrri ræðu að ég teldi að heimsókn mín til Ísraels hefði verið mjög vel heppnuð ef undan væri skilið það atriði sem ég sérstaklega nefndi, það bréf sem mér var afhent í upphafi ferðarinnar og það sem því fylgdi. Allt annað var vel heppnað, vel heppnuð ferð sem gekk upp eins og til var stofnað og ekkert öðruvísi en til var stofnað. Ég átti viðræður við þá aðila í Ísrael sem best þekkja til mála og mestu ráða þar um þessar mundir, ítarlegar og gagnlegar viðræður, og ég tel að með þeim hætti hafi íslenskum forsrh. á alla lund verið sýndur sómi ef þetta atriði sem ég nefndi í upphafi er fráskilið. Það er áríðandi þegar menn fjalla um orð mín um þetta efni að þeir hafi alla myndina með.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. og reyndar fleiri hygg ég vildu fá að vita hvers konar menn það hefðu verið sem hefðu verið að sækja heim Ísraelsríki. Eins og menn vita þá er það að jafnaði svo að opinberar heimsóknir til ríkja eru svona tvær til þrjár á ári hverju og kannski eru utanríkisráðherrar viðkomandi ríkja sem koma álíka margir. En á níu mánuðum kom fjöldinn allur af utanríkisráðherrum til Ísraels og þá er ég auðvitað ekki að telja margar ferðir sama manns sem á reyndar aðallega við bandaríska utanríkisráðherrann. En það eru tugir ferða á örfáum mánuðum og ég skal nefna lönd utanríkisráðherrana á níu mánaða tímabili: Þýskaland, Ítalía, Lúxemborg, Holland, Kanada, Spánn, Danmörk, Grikkland, Bretland, Portúgal, Japan, Kenýa, Belgía og Ítalía. Á örfáum mánuðum. Og hvað er svo merkilegt við okkur hér og okkar afstöðu til Ísraelsríkis að allir þessir utanríkisráðherrar geti sótt þetta ríki heim, án þess endilega að fara til annarra ríkja um leið, án þess að menn standi upp í þjóðþinginu með þeim hætti sem þeir gera hér? Hvaða forpokunarháttur er þetta í þessu þingi? (Gripið fram í.) Hvaða forpokunarháttur er þetta hjá tilteknum þingmönnum hér og undarlegheit? ( Gripið fram í: Ertu viss um að það hafi ekki verið rætt í hinum þingunum?)
    Tökum forsætisráðherra og leiðtoga á sjö mánaða tímabili og nefnum nokkur nöfn. Það er Walesa, forseti Póllands, það er forsætisráðherra Spánar, það er forseti Þýskalands og næstur er forsætisráðherra Grikklands. Á sjö mánaða tímabili. Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið gert veður út af þessum málum með þeim hætti sem gert hefur verið hér. Hvað er það sem gerir það að verkum í sambandi Íslands og Ísraels að forsætisráðherra héðan geti ekki farið til þessa ríkis en allir þessir menn, þjóðhöfðingjar og forustumenn þessara ríkja, geta gert það? Hvað er það sem veldur því? Þetta sýnir að þessar fullyrðingar eru náttúrlega afskaplega sérkennilegar og allur þessi málatilbúnaður afskaplega sérkennilegur svo ekki sé meira sagt.
    Hv. 8. þm. Reykn. gerði mikið mál úr því að utanrrh. hefði ákveðið að fara ekki til Ísraelsríkis um sinn. Starfandi utanrrh. hefur gert grein fyrir ástæðum þess og er í sjálfu sér engu við það að bæta. En það er algerlega ljóst að það er ekki neinn meginágreiningur milli okkar um sambandið við Ísraelsríki.

Þannig vill til að hæstv. utanrrh. flutti ræðu í Moskvu. Utanríkisráðherra Ísraels, David Levy, hlustaði á þá ræðu og hafði orð á því við mig á sérstökum fundi sem við áttum hvað sér hefði líkað vel ræðan, tónninn, innihaldið, boðskapurinn. Forsætisráðherra Ísraels hafði ekki heyrt þá ræðu en hann hafði lesið hana og að fyrra bragði tók það upp við mig að sér hefði líkað vel framganga íslenska utanrrh. Það getur því varla verið svo að það sé mikill munur á stefnu minni og stefnu íslenska utanrrh. hvað þetta snertir. Þó er það svo að ef ræða utanrrh. er lesin þá fer því fjarri að þar sé öllu fram haldið sem Ísraelsmönnum hentar eða þóknast. En það er málefnalega á þeim málum tekið.
    Menn tala hér á víxl um að það sé nauðsynlegt að ræða við báða deiluaðila, eins og það er orðað, eða jafnvel sækja heim báða deiluaðila, eins og það er orðað. Og þegar maður hlustar á ræðurnar kemur í ljós að menn eru þar að tala á víxl, sumir um Palestínumenn en sumir um Arabaríkin í kring. Reyndar er það kannski von að menn tali með þeim hætti, því ef við tökum þær styrjaldir sem þarna hafa átt sér stað, 1948, 1967 og 1973, þá hafa þær ekki verið við Palestínumenn. Þær hafa verið við Arabaríkin í kring. Það hafa verið hinir raunverulegu deiluaðilar. Má segja að Palestínumenn hafi að sumu leyti verið fórnarlömbin í þeim deilum en hinir raunverulegu deiluaðilar, stríðsaðilar, hafa verið löndin í kringum Ísrael.
    Ég sótti heim Freij, borgarstjóra í Betlehem, sem á sæti í friðarviðræðunefnd Palestínumanna. Það kom glöggt fram hjá honum að hann taldi nauðsynlegt að fulltrúar vestrænna ríkja sæktu heim þetta svæði, afskaplega nauðsynlegt. En hann taldi að vísu nauðsynlegt að þeir heimsæktu bæði Palestínumenn og ræddu við þá og Ísraelsmenn. Hann taldi það afskaplega mikilvægt að menn reyndu að koma og kynnast sjónarmiðum þessara manna á staðnum en þættust ekki geta áttað sig á öllum staðháttum og hlutum úr fjarlægð. Hann sagði og það kom glöggt fram hjá honum að hann trúði á þessar friðarviðræður, sagðist hafa þráð þær í áraraðir. Hann sagði hins vegar að krafa Ísraels um að halda hernumdu svæðunum á meðan á friðarviðræðum stæði stæðist ekki. Í raun væri það óhaldbær krafa og hann tók jafnframt fram að byggð á hernumdu svæðunum væri ögrun við friðarviðræðurnar. Og hann orðaði það svo að það væri misskilningur hjá Ísraelsmönnum að halda að þeir kæmu á friði í gegnum byssukjaftinn. Það var afskaplega fróðlegt að ræða við þennan talsmann sem var harður og ötull fyrir sína menn. En hann lagði mikla áherslu á það að menn kæmu á þetta svæði og ræddu við menn og kynntu sér málin og sýndu vilja sinn og ekki afskiptaleysi sitt til málsins.
    Hv. 10. þm. Reykv. reyndi að gera lítið úr því að hv. 3. þm. Reykv. hefði sagt að þessi för hefði þó orðið til þess að umræður hefðu orðið um þetta mál, en það er reyndar staðreynd og er ekki hægt að gera lítið úr því. En við þurfum slík tilefni til að ræða slík mál. Við höfum ekki verið mikið að ræða ástandið í Sýrlandi, er það? Og mannréttindabrotin þar? Tugir þúsunda manna hafa verið líflátnir þar. Við höfum ekki rætt um það af einhverjum ástæðum þó að við séum svo burðug að við þorum að fara í pontuna eins og nefnt var. Ekki heldur um málefni í Írak eða önnur slík annars staðar um veröldina. Það þarf nefnilega tilefni til. Og það var auðvitað útúrsnúningur þegar þingmaðurinn nefndi að það væri ekkert sérstakt við það að ályktað væri að tryggja þyrfti tilveru Ísraelsríkis. Það segir einmitt mikla sögu að Alþingi Íslendinga skuli telja að þegar ríki hafi verið til í 45 ár eða svo að þá þurfi enn að álykta um að tryggja þurfi tilveru þess ríkis. Við erum ekki að álykta um að tryggja tilveru Ítalíu, Danmerkur eða annarra slíkra ríkja en eftir næstum hálfa öld þurfum við enn að álykta um að tryggja þurfi tilverurétt ríkis sem við stóðum að að stofna. Auðvitað segir það heilmikla sögu um stöðu mála, heilmikla sögu sem menn geta ekki annað en litið til.
    Hv. 10. þm. Reykv. spurði með hvaða hætti við ætluðum að tryggja það sem við töluðum um, sjálfsákvörðunarrétt Palestínuríkisins. Við erum ekki dómarar eða örlagavaldar í þeim leik í sjálfu sér þó við getum lagt okkar lóð á vogarskál. Við höfum sagt að í þeim friðarviðræðum sem yfir standa verði að tryggja sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna. Þessu höfum við lýst yfir og það er áríðandi að komast á vettvang og koma sjálfir okkar sjónarmiðum á framfæri.
    Ég get tekið undir með hv. þm. Steingrími Hermannssyni í viðtali við Morgunblaðið 9. maí eftir ferð sína til Mubaraks, þar segir hann, með leyfi forseta: ,,Ég lýsti því yfir að við Íslendingar legðum mikla áherslu á að tilveruréttur Ísraels verði viðurkenndur en það hafa Egyptar gert framar flestum. Ég sagði honum einnig að við treystum okkur ekki til að viðurkenna Palestínuríki þar sem því hefur ekki verið markað landsvæði og hann sagðist skilja það vel.`` Þetta er vandinn. Og þetta verður ekki leyst nema í friðarviðræðunum sem sem betur fer eru hafnar. Og það er í tengslum við það sem við setjum fram þessa kröfu okkar og óskir að sjálfsákvörðunarréttur Palestínumanna verði tryggður. Og það er algerlega ljóst í okkar huga að það gengur aldrei saman í friðarviðræðunum nema þetta tvennt gangi saman að öryggi Ísraelsríkis sé tryggt og sjálfsákvörðunarréttur Palestínumanna sé tryggður.
    Það er rangt sem hér var gefið í skyn að ég hefði eingöngu flutt sjónarmið Ísraelsríkis. Ég sagði frá nokkrum þeim sjónarmiðum sem voru svör við athugasemdum mínum og það var bæði nauðsynlegt og fróðlegt þó að mjög lesnir menn þættust náttúrlega þekkja það allt saman fyrr og ég geri ekki lítið úr því, þá hefur mér þótt umræðan vera slík að ekki veitti af að öll þessi sjónarmið heyrðust. Þegar Ísraelsmenn segja það að deilur um landnám þeirra á herteknu svæðunum muni leysast þegar friðarsamningur hefur verið gerður þá er ekki þar með sagt að ég sé að taka undir það, fjarri því. Ég var einmitt að segja og sagði við forsætisráðherra Ísraelsríkis að ég teldi að þjóðir heims hlytu að telja að áframhaldandi landnám þeirra á herteknu svæðunum sýndi eða væri a.m.k. mjög sterk vísbending um það að friðarvilji þeirra væri

bara í orði en ekki á borði. Ég sagði hins vegar frá rökum þeirra að þetta mál mundi leysast og þá er hugsunin væntanlega sú að þegar sjálfsstjórnarréttur Palestínumanna á þessu svæði hefur verið ákveðinn þá geti einhverjar byggðir Ísraelsmanna verið þar og einhverjar byggðir Palestínumanna inni á því landi sem ekki er umdeilt út af fyrir sig að það sé land Ísraelsmanna. Ég er ekki að segja að ég sjái fyrir mér þessa lausn. En þetta atriði þarf að leysa í samningum. Og meginatriðið nú er að stöðva frekari uppbyggingu, frekara landnám á þessu svæði. Og einmitt Bandaríkjamenn hafa sett skilyrði fyrir ábyrgðum, að þær verði ekki veittar ef þessu landnámi verður haldið áfram. Bandaríkjamenn geta sett slík skilyrði. Við getum ekki sett slík skilyrði. Við getum aðeins komið okkar sjónarmiðum hart á framfæri og það höfum við gert og það er mjög áríðandi að við gerum og hvikum aldrei frá því í neinu.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. spurði hvar ég hefði setið veislur. Sú opinbera veisla sem forsætisráðherra Ísraelsríkis hélt var hádegisverðarveisla á Hótel King David. Síðan var opinber veisla ríkisstjórnarinnar um kvöldið í Hótel Jerúsalem Plaza og kveðjuboð mitt var síðan í Hótel King David þar sem mættu forsætisráðherra, utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra og fimm af tólf hæstaréttardómurum Ísraelsríkis og fleiri aðilar. Það boð var því afskaplega vel sótt þrátt fyrir að um þessar mundir væru miklar annir því báðir stærstu flokkarnir voru með landsfundi, það er svolítið öðruvísi kerfi hjá þeim, frambjóðendakjör einmitt þessa sömu daga. Ég var síðan í vel á annan klukkutíma í viðræðum við ísraelska forsetann. Sá fundur varð reyndar til þess að ég missti af fundi með Peres þar sem hann beið eftir mér á þessu sama hóteli, King David, en gat ekki beðið lengi. Hann var þá að berjast fyrir pólitísku lífi sínu sem hann reyndar tapaði daginn eftir en vegna þess að fundurinn hjá forsetanum dróst á langinn þá missti ég af honum. Ég hef reyndar hitt hann áður þegar hann var forsætisráðherra Ísraels.
    Ég var síðan í morgunverðarboði með gömlum kollega mínum, Teddy Kollek, sem hefur verið borgarstjóri þar í Jerúsalemborg töluvert á þriðja áratug. Svo að maður geri grein fyrir þeim þættinum fyrir utan alla þá fundi sem haldnir voru. Prógrammið var afskaplega strangt og tíminn afskaplega vel nýttur svo ekki sé meira sagt.
    Ég ítreka það að ég tel að í öllum meginatriðum hafi þessi ferð verið vel heppnuð en þá undanskil ég þann þáttinn sem ég hef áður nefnt og því verða menn að taka vel eftir og átta sig á.
    Ég tel að þessi umræða, virðulegi forseti, hafi á marga lund verið gagnleg og fróðleg og þakka þeim aðilum sem hafa tekið þátt í henni.