Heimsókn forsætisráðherra til Ísraels

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 19:24:00 (3766)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leiðrétta það sem kom fram í máli síðasta ræðumanns. Sinn er siður í hverju landi og aðalveisla gestgjafanna var hádegisverður forsætisráðherra. Forsætisráðherrar eru náttúrlega svo góðir með sig. Þeir telja víst að þar sem þeir eru gestgjafar sé aðalveislan og mun það jafnan vera svo ef forsætisráðherrar eru í heimsókn.
    Varðandi forsætisráðherra Suður-Afríku sem var nefndur áðan vil ég taka fram að hann er ekki á þeim lista sem utanrrn. hefur látið mér í té en ég get ekkert um það sagt. Ég nefndi aðeins nokkra af þeim sem þarna hefðu verið á ferðinni á fáum mánuðum. Ég býst við að það sé, eins og ég sagði, ekki nokkurt land sem jafnmikill áhugi er fyrir að sækja heim og Ísrael. Það er vonlegt vegna þeirra viðkvæmu tíma sem nú eru. Af forsætisráðherrum og forsetum nefndi ég forseta Þýskalands, forsætisráðherra Spánar, Walesa, forseta Póllands, og reyndar mætti fleiri telja. Næsti forsætisráðherra sem kemur í aprílmánuði er forsætisráðherra Grikklands. Reyndar sleppti ég að nefna utanríkisráðherra Frakklands sem var þarna í janúar sl. Menn sjá því að gríðarlegur áhugi utanríkisráðherra og þjóðhöfðingja er fyrir að sækja þetta land heim og fá að ræða við þá aðila sem gerst til þekkja á staðnum. Væntanlega hafa flestir haft tök á því eins og ég að ræða jafnframt við Palestínumenn og skynja að þeim finnst áríðandi að þeir komi þarna á staðinn sjálfir og kynni sér mál.