Háskólinn á Akureyri

89. fundur
Miðvikudaginn 26. febrúar 1992, kl. 14:04:00 (3771)

     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frv. til laga um Háskólann á Akureyri hefur verið lagt hér fram. Hér er um að ræða frv. sem, ef það verður að lögum, kemur til með að styrkja starfsemi háskólans til mikilla muna og kveður mun skýrar á en gildandi lög um hlutverk hans.
    Ég ætla ekki að vera langorður um frv. á þessu stigi málsins. Það er mjög brýnt að það komist sem fyrst til nefndar. Það er mjög brýnt að það verði að lögum á þessu þingi og liggja til þess ýmsar ástæður en þó umfram allt sú að í þessu frv. er kveðið á um rannsóknastofnanir við háskólann sem mjög er brýnt að fái lagagildi sem fyrst.
    Ég held að það sé rétt í þessum inngangsorðum mínum um þetta lagafrv. að líta á frv. í ljósi þeirra meginmarkmiða sem sett voru þegar Háskólinn á Akureyri var stofnaður. Þessi markmið voru nokkuð mörg en meðal þeirra sem stóðu upp úr voru eftirtalin: Með stofnun Háskólans á Akureyri átti að efla menntun og vísindi utan höfuðborgarsvæðisins og þar með að styrkja landsbyggðina, bæði atvinnuvegi, atvinnuþróun og menningarstarf á landsbyggðinni. Það var einnig meiningin með stofnun háskólans að bjóða upp á nýmæli í íslensku menntakerfi og laga það að þörfum atvinnulífsins en laga það einnig almennt að þörfum þjóðfélagsins í heild. Þá var og tilgangurinn með stofnun háskólans að bjóða upp á nýja valkosti í háskólamenntun. Ef við lítum til þessara markmiða, þá held ég að það sé staðreynd að Háskólinn á Akureyri hefur nú þegar náð að þjóna þeim þó að hann eigi eftir að gera það í ríkari mæli í framtíðinni. Ég ætla að drepa hér á nokkur atriði sem benda til þess að þessi háskólastofnun hafi náð þessum markmiðum.
    Meðal þess merkasta sem hefur gerst innan háskólans var stofnun sjávarútvegsbrautar við hann. Það voru nýmælin sem Háskólinn á Akureyri braut upp á. Allt frá því að stofnun háskólans var á undirbúningsstigi var lögð áhersla á það af hálfu heimamanna að boðið yrði upp á sjávarútvegsnám við þessa stofnun. Brautin hefur nú starfað tiltölulega stuttan tíma og það er langt frá því að komin sé reynsla á starfsemi hennar. Hún hefur efnt til mjög árangursríks samstarfs við Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og er í raun og veru að skapa vettvang á sviði rannsókna er tengjast sjávarútvegi með þessu samstarfi við rannsóknastofnanirnar. En sjávarútvegsbrautin við Háskólann á Akureyri hefur líka lagt sig eftir því að tengjast fyrirtækjum með ýmsum hætti. Ég ætla hér að nefna eitt dæmi um slíkt samvinnuverkefni sem skólinn hefur staðið fyrir. Hann hefur sent nemendur til náms vestur á Ísafjörð. Þar er um að ræða nám í veiðitækni og þar hefur háskólinn séð sér fært að nýta þá þekkingu og færni sem er til staðar á Ísafirði á þessu sviði, þ.e. á sviði veiðitækni og sent nemendur sína þangað til náms. Þetta er eitt dæmi um það á hvern hátt sjávarútvegsbrautin hefur efnt til samstarfs við atvinnulífið og það eru fleiri dæmi um þetta innan Háskólans á Akureyri.
    Á sviði hjúkrunarfræðibrautarinnar, sem er eina brautin sem starfar innan heilbrigðisdeildar háskólans, hefur verið imprað á nýjungum. Sú námsbraut hefur verið skipulögð með nokkuð öðrum hætti heldur en hjúkrunarfræðinám við Háskóla Íslands. Má þar nefna að verkleg þjálfun nemenda hefst strax á fyrsta ári og vægi hjúkrunargreina er meira fyrstu tvö árin en í Háskóla Íslands. Mér er kunnugt um það að þessi nýmæli hafa vakið athygli innan Háskóla Íslands og eru að sjálfsögðu af hinu góða.
    Ég vil einnig taka það fram að verklegt nám í hjúkrunarfræði fer fram á mjög mörgum heilbrigðisstofnunum, bæði fyrir norðan og víða um land. Nefni ég þar sérstaklega sjúkrahúsin á Húsavík og Sauðárkróki, heilsugæslustöðina á Dalvík, Reykjalund. Ég held að hjúkrunarfræðinemar við nám þar séu með fyrstu hjúkrunarfræðinemum sem stunda þar nám. En ég ætla líka að geta þess sérstaklega að innan heilbrigðisdeildarinnar er nú lögð síaukin áhersla á að taka sérstakt tillit til þarfa landsbyggðarinnar í skipulagi námsins. Nú er verið að auka þá þætti námsins sem á reynir þegar hjúkrunarfræðingar starfa í mjög fámennum byggðum, t.d. þar sem læknar starfa ekki. Hér er t.d. um að ræða bráðabirgðahjúkrun. Það er verið að ræða þarna um viðbrögð við meiðslum og í undirbúningi er nú innan stofnunarinnar tvískipting á námi í hjúkrunarfræði þannig að þar yrði annars vegar um sjúkrahjúkrun að ræða og heilsugæsluhjúkrun hins vegar og tengjast þessar áætlanir áherslubreytingum sem nú er verið að vinna að innan heilbrigðisdeildar háskólans.
    Þetta er dæmi um það að skólinn telur það vera hlutverk sitt að laga sig að þörfum landsbyggðarinnar og ég ætla þá að láta það vera mín síðustu orð í þessari fyrstu umfjöllun minni um Háskólann á Akureyri að tíunda það sem ég tel hafa verið meginmarkmið með stofnun þessa skóla og hér var komið inn á áðan af hv. 3. þm. Norðurl. e. en hæstv. menntmrh. gerði einnig ítarlega grein fyrir því hlutverki Háskólans á Akureyri.
    Meginmarkmiðið með stofnun þessa háskóla var að sjálfsögðu að hafa veruleg áhrif til breytinga á vísindasamfélagið á Íslandi og þar með á þjóðfélagið allt. Það átti að ýta undir fjölbreytileika í háskólastarfi, það átti að auka þeim víðsýni sem innan háskólanna starfa, það átti að tengja háskóla- og vísindastarf betur þeim viðhorfum og þeim hagsmunum sem einkenna landsbyggðina. Tilgangurinn var sá að skerpa vísindalega innsýn í vandamál og sérstöðu landsbyggðarinnar, styrkja þar með málefnalega umfjöllun um stöðu landsbyggðarinnar og auka skilning á hlutverki hennar í íslensku þjóðlífi. Háskólinn á Akureyri hefur nú þegar blandað sér í umræðu um þjóðlíf og þróun íslensks samfélags. Rödd hans á eftir að verða sterkari og áhrif hans meiri.
    Frv. sem hér er lagt fram styrkir Háskólann á Akureyri í þessu mikilvæga hlutverki og ég vil því vona að um þetta mál náist, eins og hingað til hefur ríkt í málinu, víðtæk og breið pólitísk samstaða og málið fái hér góðan en snöggan framgang.