Háskólinn á Akureyri

89. fundur
Miðvikudaginn 26. febrúar 1992, kl. 15:21:00 (3781)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það leikur ekki nokkur vafi á því að Háskólinn á Akureyri var á sínum tíma afar mikilvægt nýmæli í skólastarfi og háskólastarfi á Íslandi. Þegar við lítum til baka þá fer það ekkert á milli mála að með stofnun háskólans var stigið rétt skref sem hefur haft ómetanlega þýðingu, ekki bara fyrir Akureyri og nágrannabyggðirnar, heldur líka fyrir skólastarfið sjálft, vísindastarfið, þekkingaröflunina, og hefur auðvitað því til viðbótar verið nauðsynlegur liður í ákveðinni byggðapólitík sem við höfum viljað reka hér á landi. Ég er þó sammála því sem ræðumenn hafa nefnt hér áður að í sjálfu sér eru það ekki þó hin byggðalegu rök sem eru meginrök skólastarfsins á Akureyri. Fyrir þessu skólastarfi eins og öðru eru það vitaskuld almenn vísindaleg og menntaleg rök sem hníga að því að skólinn eigi að vera á Akureyri og með því sniði sem honum var markað í upphafi starfs síns.
    Menn hafa spurt sem svo: Til hvers eru menn að dreifa þessu háskólastarfi út fyrir Reykjavík? Er ekki eðlilegra, hagkvæmara og skynsamlegra að hafa skólann í Reykjavík, helst í sem nánustum tengslum við eða í Háskóla Íslands? Er það ekki óþarfa metnaður og óþarfa lúxus af þjóðinni að standa þannig að málum?
    Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því sem væntanlega hefur ekki farið fram hjá þeim sem hafa hugsað þessi mál, að háskólastarf víðast erlendis fer fram með hvað mestum þrótti í háskólabæjum, í skólabæjum utan höfuðborgarinnar. Og það er varla nein tilviljun að þannig hefur verið staðið að uppbyggingu þessara skóla. Menn hafa talið vera fræðileg rök fyrir því að háskólastarfið færi ekki síst fram úti á landi, í skólabæjum þar sem hægt væri að sinna því starfi sem best.
    Með þessu frv. um Háskólann á Akureyri má segja að sé komið að nokkrum þáttaskilum og þess vegna kannski ekki úr vegi að velta almennt nokkuð vöngum um framtíðarþróun starfsins við Háskólann á Akureyri. Ég tel að ein forsendan fyrir því að efla megi starf skólans sé sú að farið verði í það að skoða mjög gaumgæfilega hvernig megi færa skólastarf sem nú fer fram annars staðar í landinu til Háskólans á Akureyri. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á nokkrum þáttum sem ég held að mætti a.m.k. skoða vel og vil beina því til hæstv. menntmrh. og menntmn. að þessum málum sé gefinn nokkur gaumur.
    Í fyrsta lagi liggur það fyrir að Háskólinn á Akureyri hefur verið byggður upp með það í huga að dreifa ekki kröftum skólans um of. Raunar var það þannig í upphafi, þegar menn reyndu að skoða hvernig æskilegast væri að byggja upp þetta háskólastarf, að þá var það niðurstaðan að skólinn ætti ekki að dreifa kröftum sínum um of heldur sérhæfa sig í vissum greinum og laga sig síðan að þörfum atvinnuvega þjóðarinnar. Það má segja að það sé í anda þessarar stefnu sem skólinn hefur núna byggst utan um þrjár megindeildir, þ.e. heilbrigðisdeild, rekstrardeild og sjávarútvegsdeild. Mér finnst ekkert óeðlilegt að á grunni þessara deilda sé tekið til við að efla starfsemi skólans þó að ég taki vissulega undir það og telji það raunar mjög mikilvægt að hefjast megi handa um kennaranám við Háskólann á Akureyri.
    Ég bendi á það t.d. að menntun á sviði heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsemi fer núna fram m.a. við Háskóla Íslands og mér fyndist ekki úr vegi að skoða það a.m.k. mjög gaumgæfilega á hvern hátt megi færa hluta af því námi til Háskólans á Akureyri í ljósi þess að við teljum nauðsynlegt að skólarnir sérhæfi sig nokkuð, dreifi ekki kröftum sínum. Við erum með hjúkrunarfræðinám, sjúkraþjálfunarnám og fleira í þeim dúr sem er kennt núna við Háskóla Íslands og víðar í skólastofnunum landsins og a.m.k. það nám sem er kennt á háskólastigi á þessu sviði fyndist mér ekki óeðlilegt að væri skoðað að flytja norður til Akureyrar. Ég minni á það jafnframt að uppi hafa verið hugmyndir um það að hefja kennslu í iðjuþjálfun á háskólastigi á Íslandi. Það hefur verið talin ástæða til að hefja slíka kennslu. Mér fyndist ekkert óeðlilegt að það yrði a.m.k. skoðað að slíkt nám færi þá fram við Háskólann á Akureyri.
    Jafnframt hefur verið bent á að sjávarútvegsdeildin við Háskólann á Akureyri sé að vinna sér æ merkari sess og það er auðvitað vel. Í því sambandi vil ég nefna hvort ekki mætti skoða það að auka þetta sjávarútvegsnám. Núna fer t.d. fram sjávarútvegsnám við Tækniskóla Íslands. Nám í matvælaverkfræði fer núna fram, að ég hygg, í Háskóla Íslands. Mætti skoða það að nám af þessu taginu yrði sett upp við Háskólann á Akureyri og Háskólinn á Akureyri yrði þannig raunveruleg miðstöð náms á þessu sviði á Íslandi.
    Ég held nefnilega að það sé komið að því að við skoðum það í mjög mikilli alvöru að viljum við efla nám við Háskólann á Akureyri þá sé skrefið stigið mjög fljótlega í þá átt að efla þennan skóla með því að færa þangað starfsemi. Ýmsir gagnrýnendur þessa skólastarfs á Akureyri hafa bent á það að kostnaðurinn á nemanda við þennan skóla væri verulega hærri en til að mynda við Háskóla Íslands. Það helgast vitaskuld af því að þessi skóli okkar á Akureyri er í uppbyggingu, þetta þróunarstarf og uppbyggingarstarf kostar peninga og þetta er kannski ekki mjög hagkvæm eining frá þessu rekstrarlega sjónarmiði. En eðlilegast að mínu mati til þess að snúa því við væri að efla skólann með þeim hætti að færa til hans starfsemi.
    Ég skal fúslega játa það að ég hef ekki þá þekkingu á skólastarfinu í landinu að ég geti hér og nú fullyrt að eitthvað af því sem ég hef verið hér að velta upp ætti fortakslaust að færast til Háskólans á Akureyri, en ég er að varpa því fram, í ljósi þess að við erum að skipta fjármunum sem eru af skornum skammti og við viljum fara vel með okkar fé, líka í menntamálum, hvort ekki megi líta þannig á að það horfi til hagræðingar og fjárhagslegs ábata að standa þann veg að málum.
    Ég vara hins vegar við því að hugmyndir af þessu tagi séu notaðar til þess að koma höggi á háskólastarf á Akureyri eða til þess að efla úlfúð milli menntastiga. Það fyndist mér alveg út í loftið og alls ekki tilefni til þess. Hér er eingöngu verið að velta upp hugmyndum sem fela það í sér að sýna í orði sem í verki að það er ástæða til þess að efla þetta skólastarf og það verður vitaskuld ekki gert nema færa verkefni til skólans.
    Ég ítreka það, og það eru mín lokaorð, að vitaskuld eru það fyrst og fremst hin menntalegu og vísindalegu rök sem hníga að skólastarfi á Akureyri en um leið eru þetta byggðaleg rök sem alls ekki eru ómerkileg eða ástæða til þess að líta fram hjá. Það hefur stundum verið sagt að virkasta byggðastefnan sé að efla menntunina úti um landið og undir það get ég fúslega tekið. Ég held, eins og hér hefur komið fram í máli mjög margra, að það væri mikið happaskref, ef stigið væri, að efna til kennaramenntunar við Háskólann á Akureyri. Það er staðreynd að skipulag kennaramenntunar í landinu hefur ekki skilað okkur kennurum út um land og á því eru ýmsar skýringar. Ég er sannfærður um það að stofnun kennaradeildar við Háskólann á Akureyri væri mikilvægt skref í þá átt að leysa kennaravandamálið á landsbyggðinni sem ég er ekki í nokkrum vafa um að er eitt mesta byggðavandamál sem við okkur blasir nú um stundir.