Háskólinn á Akureyri

89. fundur
Miðvikudaginn 26. febrúar 1992, kl. 15:31:00 (3782)

     Guðrún J. Halldórsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Vestf. nefndi að það væri hugsanlega rétt að flytja alla hjúkrunarmenntun norður á Akureyri. Einhver ræðumaður í dag nefndi það að nemendur í Kennaraháskóla Íslands væru mikið til giftar konur og þar af leiðandi væri borin von að þær flyttu út á land. Ég vil benda á að þó nokkuð stór hópur af þeim nemendum sem eru í hjúkrunarnámi hér í Reykjavík eru einmitt giftar konur og ef við flyttum alla hjúkrunarmenntun norður í land þá værum við að skerða námsmöguleika þeirra allmikið. Þær mundu ekki hlaupa frá heimilum sínum og börnum norður á Akureyri í nám þó þær langaði mikið til að verða hjúkrunarkonur. Þar af leiðandi held ég að hjúkrunarfræði verði að vera kennd á báðum stöðum.
    Mig langar til viðbótar, af því að ég er að tala um hjúkrunar- og heilsufræði, að benda á það að hitastigið og loftið í þessum sal er ábyggilega mjög andstætt því sem hjúkrunarfræðideild, hvort sem hún væri á Akureyri eða í Reykjavík, ákvæði að væri rétt. Ég hvet til að það verði opnaður gluggi.