Háskólinn á Akureyri

89. fundur
Miðvikudaginn 26. febrúar 1992, kl. 15:45:00 (3786)

     Svavar Gestsson :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann veitti. Ég vildi aðeins ítreka hér af minni hálfu nokkur atriði og þá fyrst kennaradeildina sérstaklega. Ég held að það sé býsna brýnt mál að það verið kannað rækilega hvort hægt er að koma henni á fót hið fyrsta. Þá er ég auðvitað að tala um alvöru kennaramenntun á háskólastigi. Ég er ekki að tala um að þarna verði um neina fljótaskrift á eins

konar bráðabirgðakennaraleyfum að ræða heldur verði hér um að ræða mynduga kennaramenntun. Þetta nefni ég vegna þess að ég hafði heyrt hitt að það kæmi til greina að húrra í gegn leiðbeinendum með tiltölulega auðveldum hætti í Háskólanum á Akureyri. Ég mundi fyrir fram lýsa andstöðu minni við slíkt vegna þess að ég held að það sé ekki til bóta fyrir kennslu í landinu og uppeldisstéttirnar yfirleitt að höfð sé fljótaskrift á menntun þeirra ef hún á annað borð er skipulögð.
    Það atriði sem rak mig kannski helst upp í stólinn var það að ég gleymdi áðan að Háskólinn á Akureyri er auðvitað stofnun sem hefur m.a. fjallað um þá möguleika að vera með stutt, hagnýtt nám í auknum mæli. Þá er ég að tala um starfsmiðaðar brautir af ýmsum toga, eins eða tveggja ára háskólabrautir sem er auðvitað mjög nauðsynlegt að koma upp vegna þess að það er ekki skynsamlegt frá sjónarmiði þjóðfélagsins eða nemendanna að allir fari í fjögurra eða sjö ára háskólanám eða eitthvað því um líkt. Við höfum í raun og veru ekki þörf fyrir slíkt. Nú mun það hafa gerst fyrir nokkrum mánuðum að stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna undir forustu Gunnars I. Birgissonar hefur tekið ákvörðun um að fella niður námslán handa þeim sem leggja stund á stutt starfsmiðað háskólanám, þ.e. eins eða tveggja ára háskólanám. Satt að segja finnst mér þessi ákvörðun lánasjóðsins vera mjög sérkennileg og algjörlega á skjön við þá almennu menntastefnu sem við höfum í grófum dráttum verið sammála um hér í dag og er að nokkru leyti undirstaðan undir Háskólanum á Akureyri. Og ég hefði viljað inna hæstv. menntmrh. eftir því hvort á þessu máli hafi verið tekið af hans hálfu vegna þess að þetta er náttúrlega afar sérkennilegt ef lánveitingar til þessa náms verða felldar niður. Ég held að við höfum ekkert síður þörf fyrir stutt, starfsmiðað háskólanám en lengra háskólanám sem kannski tekur fimm, sex, sjö, átta ár eða þaðan af lengri tíma.
    Ég vil einnig í sambandi við dreifða og sveigjanlega kennaramenntun sérstaklega taka undir þau sjónarmið sem fram hafa komið í þeim efnum frá hv. þm. Guðrúnu J. Halldórsdóttur og fleirum og bæta því við að þegar ég var að tala um dreifða og sveigjanlega kennaramenntun varðandi Háskólann á Akureyri þá var ég að tala um að miðstöð hennar væri á Akureyri þó hún væri auðvitað í faglegum starfstengslum við Kennaraháskóla Íslands.
    Það er alveg rétt sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði hér áðan að verkaskipting skóla á háskólastigi á Íslandi á stöðugt að vera í endurskoðun og endurmótun. Það er hins vegar flókið, brotamikið, að flytja til, segjum háskóladeildir frá Reykjavík eða öðrum stöðum á einhvern annan stað í öðrum landshluta. Reynslan sýnir að það er mjög erfitt verkefni og menn þekkja dæmi um það frá undanförnum árum. Hins vegar er það að setja nýja starfsemi niður annars staðar, eins og t.d. var gert í sambandi við hagstofu landbúnaðarins, ef ég man rétt, allt annað mál. Þess vegna held ég að það að koma upp miðstöð fyrir dreifða og sveigjanlega kennaramenntun á Akureyri væri skynsamlegt. Ég tel að dreifð og sveigjanleg kennaramenntun eigi að hafa miðstöð úti á landi vegna þess að annars er hætt við að hún fjarlægist þær þarfir sem hún á að þjóna. Ég held að þetta gæti líka verið fyrsta skrefið að því að koma upp fullgildri kennaramenntun á Akureyri. Reynsla mín er líka sú að það sé að mörgu leyti auðveldara, svo dapurlegt sem það kann að virðast, en það er líka heimild í sjálfu sér um jákvætt viðhorf að hinu leytinu til, að það kann að vera auðveldara að fá Alþingi og fjárveitingavaldið til að leggja fjármuni til þess að miðstöð dreifðrar og sveigjanlegrar kennaramenntunar verði á Akureyri, heldur en að hún bætist við það sem fyrir er í Kennaraháskóla Íslands, svo gott sem það starf er sem þar fer fram og er í sjálfu sér engin ástæða til þess að gera lítið úr því.
    Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að það sé ástæða til þess að ítreka þetta sjónarmið hér og fara fram á það við hæstv. menntmrh. að hann hugleiði það sérstaklega hvort ekki sé hægt að taka um það ákvörðun fljótlega að miðstöð hinnar dreifðu og sveigjanlegu kennaramenntunar verði á Akureyri og að sú starfsemi hefjist hið allra fyrsta eða í tengslum við ákvörðun um fjögurra ára kennaramenntun. Ég man satt að segja ekki nákvæmlega hvernig fóru að lokum viðskipti hæstv. menntmrh. við Kennaraháskólann en eins og kunnugt er hafði Kennaraháskólinn tekið um það ákvörðun og það var samþykkt í menntmrn. að hefja svokallað fjögurra ára kennaranám. Fljótlega eftir að hæstv. menntmrh. kom til starfa var hins vegar ákveðið að breyta þessu þannig að í vetur er miðað við þriggja ára kennaranám áfram. Það var sagt að þetta væri m.a. af fjárhagsástæðum en einnig af þeirri ástæðu að fjögurra ára kennaranám mundi þýða væntanlega færri kennara en þriggja ára kennaranám --- og ég ætla í sjálfu sér ekki að fara út í þá umræðu hér vegna þess að um það mætti margt segja og það tekur óþarflega langan tíma --- en um leið og tekin yrði ákvörðun um þetta fjögurra ára kennaranám væri auðvitað eðlilegt að ákveða hvar miðstöðin fyrir dreifða og sveigjanlega kennaramenntun verður. Mín skoðun er sú að sú miðstöð eigi að vera á Akureyri, geti verið á Akureyri í faglegum starfstengslum við Kennaraháskóla Íslands og hún þurfi alla vega að vera utan Reykjavíkursvæðisins. Það liggur í raun og veru í eðli þess starfs sem hér er um að ræða að það þarf að vera utan Reykjavíkursvæðisins.
    Auðvitað væri ástæða til þess, virðulegi forseti, að ræða hér aðeins almennt um stöðu háskólasamfélagsins á Íslandi. Til þess er því miður ekki neinn tími. Það er ekki neinn tími til þess að fara hér yfir það hvernig háskólasamfélagið stendur almennt eftir niðurskurð á fjárveitingum til háskólanna. Það er ekki tími til þess að fara t.d. yfir afleiðingar þess að framlög til rannsókna eru á þessu ári skorin niður um 20%. Og það eru ekki forsendur til þess heldur að ræða það ítarlega hér að t.d. ein ástæðan til þess að Bandaríkjamenn telja að lífskjör þeirra fari versnandi er sú staðreynd að þeir hafa skorið niður í skólakerfinu. Það má kannski rifja það upp að framlög til skólamála á Íslandi eru sem hlutfall af þjóðarframleiðslu þau lægstu á Norðurlöndum. Við erum með framlög til skólamála sem eru milli 3,5 og 4% af þjóðarframleiðslu, en t.d. í heilbrigðismálum erum við með framlög sem eru svipuð og gerist í grannlöndum okkar. En í grannlöndum okkar, t.d. í Svíþjóð eru framlög til skólamála 7% og framlög til skólamála í Danmörku eru á bilinu 6--7%. Þannig að það er auðvitað miklu alvarlegra frá þessum bæjardyrum séð miðað við samkeppni við aðrar þjóðir að skera niður framlög til skóla og mennta og rannsókna heldur en flestra annarra þátta, liggur mér við að segja, í okkar samfélagi. Hættan er auðvitað sú að þessi niðurskurður verði til þess að stofnun eins og Háskólinn á Akureyri, sem er ungbarn á þessu sviði, staðni og nái ekki að þroskast og dafna eins og hún hefur gert á undanförnum árum og hún þarf að gera og hugur mann stendur til eins og kemur fram í áliti þróunarnefndarinnar sem gerir ráð fyrir því að nemendur við Háskólann á Akureyri geti um aldamótin orðið í kringum 1.000.
    En það sem rak mig upp í stólinn núna, virðulegi forseti, var aðallega þetta tvennt. Í fyrsta lagi sú ákvörðun stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna að fella niður lán til stuttra hagnýtra námsbrauta á háskólastigi, eins og tveggja ára brauta. Og í öðru lagi þessi spurning um dreifða og sveigjanlega kennaramenntun og að velja henni miðstöð til frambúðar á Akureyri.