Aðgerðir í fiskeldi

90. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 10:38:01 (3791)

     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) :
    Frú forseti. Engum dyljast þær hremmingar sem hafa dunið yfir fiskeldi, þessa ungu atvinnugrein, sem svo miklar vonir voru bundnar við. Þess vegna er það afskaplega mikilvægt að stjórnvöld hlutist til um aðgerðir sem gera það sem hægt er til að vernda þá þekkingu sem hafur skapast í greininni þrátt fyrir allt hér á síðustu árum. Nú er það svo að ýmis teikn eru á lofti sem benda til að betur muni ára á næstu missirum í greininni. Þessar vísbendingar eru til að mynda hækkandi verðlag á fiskeldisafurðum og aukin áhugi kaupenda úti í heimi á íslenskum fiski. Nú er það svo að núv. ríkisstjórn lýsti því yfir skömmu eftir að hún tók til starfa, nánar tiltekið 5. júní sl., að hún hygðist beita sér fyrir tilteknum aðgerðum í fiskeldi. Því hef ég lagt fram fsp. til landbrh.: mig fýsir að vita hvernig þessum aðgerðum miðar áfram.