Aðgerðir í fiskeldi

90. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 10:42:00 (3793)


     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) :
    Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. þessi skýru svör. Ég vil sérstaklega gera að umræðuefni orkusölu til fiskeldisfyrirtækja. Það er skemmst frá því að segja að smærri fiskeldisfyrirtæki njóta einskis afsláttar hjá orkuveitum. Ég verð að harma það sérstaklega að ekki hefur tekist betur til í samskiptum hæstv. ráðherra og orkuveitna en hér hefur komið fram. Það er staðreynd að orkukostnaður, einkum hjá smáum fiskeldisstöðvum, til að mynda seiðastöðvum, er þungur baggi á þeim. Ég verð að segja að það er algjörlega nauðsynlegt að fleiri þessara smærri stöðva, sem í dag eru kjarninn í greininni, njóta afsláttar af orkuverði. Njóti þessar stöðvar ekki lægra orkuverðs en nú tíðkast og eigi þær ekki að fá svipaðan afslátt og stærri stöðvarnar tel ég að mjög illa sé komið fyrir þeim Þess vegna vil ég skora á hæstv. landbrh. að taka höndum saman við hæstv. iðnrh., sem hefur lýst því yfir að hann hyggist beita sér fyrir því að selja þá umframorku sem til er í landinu, og koma því svo fyrir að litlar fiskeldisstöðvar muni einnig í framtíðinni njóta þessa afsláttar vegna þess að það er alveg ljóst að þar er um mál að ræða sem mun skera úr um framtíð þeirra.