Aðgerðir í fiskeldi

90. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 10:45:00 (3795)

     Árni M. Mathiesen :
    Virðulegi forseti. Í síðustu viku sótti ég ráðstefnu skoskra fiskeldismanna í Glasgow og fékk þar m.a. tækifæri til að ræða við þarlenda bankamenn um framtíð fiskeldis. Það kom skýrt og greinilega fram hjá þeim að þeir eru bjartsýnir á framtíð þessarar atvinnugreinar til lengri tíma litið þrátt fyrir það að nú um stundir séu þar í landi erfiðleikar sem við eigum einnig við að glíma hér. Okkar erfiðleikar eru að sumu leyti meiri og annars eðlis en í Skotlandi. Þá má kannski helst rekja til vandræða sem við urðum fyrir vegna brests á seiðasölu til Noregs og sérstakrar og dýrrar uppbyggingar fiskeldis í landeldisstöðvum hér á landi en þar liggja mjög miklar fjárfestingar. Til þess að þær fjárfestingar megi nýtast er það grundvallaratriði að orkuverð lækki því þessar stöðvar byggja á mikilli orkunotkun með dælingu vatns úr holum eða úr sjó í kerin sem á landi standa.