Staða leiguliða á bújörðum

90. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 10:47:00 (3797)

     Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :
    Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er var fullvirðisréttur í sauðfjárbúskap frá öndverðu miðaður við fjölda fjár á hverri jörð á ákveðnum viðmiðunarárum. Þessi réttur var ákveðinn með reglugerð og hann var aldrei skilgreindur með lögum. Fljótlega kom upp spurningin hver væri réttur leiguliða gagnvart jarðeigendum. Samkvæmt úrskurðum landbrn. var fullvirðisréttur talinn réttur jarðarinnar og eiganda hennar og óviðkomandi ábúendum jarðarinnar. Þetta var frá öndverðu nokkuð ósanngjarnt þegar haft er í huga að í fjöldamörgum tilvikum er það einmitt ábúandinn, leiguliðinn, sem hefur skapað þennan rétt en alls ekki jarðeigandinn, ef jarðeigandinn hefur ekki búið á jörðinni.
    Mörg dæmi eru um það að ábúandi jarðar hafi stórlega aukið fullvirðisrétt jarðar án nokkurs tilverknaðar jarðeiganda, jafnvel unnið upp verulegan rétt úr engu ef jörðin var fjárlaus fyrir viðmiðunarárin þegar ábúandi tók jörðina á leigu. En það hefur sem sagt verið jarðeigandinn sem að forminu til á fullvirðisréttinn. Samt er þetta svo bersýnilega ósanngjarnt að þeir sem hugleiða málið sjá strax að ekki verður við unað.
    Þegar ríkisvaldið byrjar nú uppkaup á fullvirðisrétti í stórum stíl er sérlega brýnt að fundin sé niðurstaða í þetta mál sem viðunandi sé. Ríkisvaldið hefur þegar viðurkennt fyrir sitt leyti að eðlilegt sé að ábúendur ríkisjarða njóti að nokkru góðs af þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað á ríkisjörðum og gengur því greiðsla vegna kaupa fullvirðisréttar af ríkisjörðum til ábúenda eftir sérstökum reglum. Ríkið hefur þannig viðurkennt að reglan um jarðeigandann, sem eina rétthafa fullvirðisréttar þótt hann búi ekki á jörðinni, standist ekki í reynd. Með svari sínu við fyrsta lið fsp. minnar vænti ég þess að hæstv. ráðherra geri nánari grein fyrir þessari reglu ríkisins hvað varðar ríkisjarðirnar. En þegar um er að ræða aðra eigendur en ríkið sjálft vantar skýrar og ótvíræðar reglur. Við greiðslu fyrir niðurfærslu fullvirðisréttar hefur því verið farin sú leið að leitað hefur verið til leiguliða og landsdrottna og spurst fyrir um, áður en greiðsla er innt af hendi, hvort þeir hafi útkljáð það sín í milli hvor taki við greiðslunni. Virðist greiðslan hafa gengið til ábúanda ef eigandi hefur samþykkt það skriflega. Af þessu tilefni eru fyrirspurnirnar bornar fram:
    ,,1. Hvaða reglur gilda um greiðslur til bænda fyrir niðurfærslu fullvirðisréttar samkvæmt búvörusamningi þegar jörð er í leigu, annars vegar þegar um er að ræða ríkisjarðir og hins vegar aðrar jarðir?``
    Aðrar fsp. eru á þskj. 419 og les ég þær ekki þar sem tími vinnst ekki til þess.