Staða leiguliða á bújörðum

90. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 10:51:00 (3798)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Spurt er: ,,Hvaða reglur gilda um greiðslur til bænda fyrir niðurfærslu fullvirðisréttar samkvæmt búvörusamningi þegar jörð er í leigu, annars vegar þegar um er að ræða ríkisjarðir og hins vegar aðrar jarðir?``
    Í reglugerð þeirri sem unnið er eftir við uppkaup og niðurfærslu fullvirðisréttar segir um þetta efni:
    ,,Fullvirðisréttur á lögbýli fylgir því og er kaupverð hans greitt til eiganda þess eða eftir tilvísun hans nema sá fullvirðisréttur sem ábúandi hefur keypt eða flutt með sér á leigujörð sem er greiddur ábúanda. Samningi um sölu fullvirðisréttar þarf fylgja samþykki eiganda og ábúanda lögbýlis sem nýtir fullvirðisrétt af lögbýlinu haustið 1991 ef ekki er um sama aðila að ræða. Fullvirðisréttur utan lögbýla er seljanlegur ríkissjóði á tímabilinu á sama hátt og fullvirðisréttur lögbýla en ella fellur hann niður af fullvirðisréttarskrá 31. ágúst 1993.``
    Samkvæmt ákvörðun jarðadeildar landbrn. hafa greiðslur fyrir niðurfærslu fullvirðisréttar runnið til leiguliða ríkisjarða á vegum landbrn. og skulu fyrnast á tíu árum. Þetta er þó háð því skilyrði að ábúendur eigi sjálfir eignir af jörðunum umfram fyrnanlegar greiðslur. Afstaða jarðeignadeildar var kynnt öllum búnaðarsamböndum bréflega 28. apríl 1991. Jafnframt var athygli vakin á því að ábúendur ríkisjarða sem búið höfðu lengur en tíu ár ættu rétt á að fá jarðirnar keyptar. Þá hafa slíkar greiðslur runnið til leiguliða annarra jarða hafi samþykki eigenda legið fyrir. Framkvæmdanefnd búvörusamninga gerði tillögu um framkvæmd þessa sem var staðfest af ráðuneytinu.
    Spurt er: ,,Ef greiðsla til bænda fyrir niðurfærslu fullvirðisréttar gengur til leiguliða getur þá landsdrottinn krafið leiguliða um greiðsluna?``
    Samkvæmt framansögðu er greiðsla fyrir niðurfærslu fullvirðisréttar til leiguliða háð samþykki jarðareiganda og ákvörðun um slíkt samþykki liggur fyrir vegna jarða á vegum landbrn. Líta verður svo á að jarðareigandi geti ekki krafið leiguliða um greiðslu fyrir niðurfærslu hafi hann veitt samþykki sitt án fyrirvara.
    Spurt er: ,,Ef greiðslan gengur til leiguliða er hann þá bótaskyldur vegna rýrnunar fullvirðisréttar þegar hann stendur upp af jörðinni?``
    Samþykki jarðareigandi án fyrirvara að greiðslur fyrir niðurfærslu renni til leiguliða verður ekki séð að jarðareigandi geti haft uppi slíka kröfu síðar við ábúðarlok leiguliða.
    Spurt er: ,,Ef greiðsla gengur til landsdrottins á þá ekki leiguliði rétt á lækkun jarðarleigu?``
    Greiðsla til landsdrottins fyrir niðurfærslu mundi ekki vera innt af hendi án samþykkis leiguliða og þá hefur hann það í hendi sér að áskilja sér hlutfallslega lægri leigu eftir ábýlisjörð sína.
    Spurt er: ,,Er í undirbúningi að setja ákvæði í lög um kaup og sölu fullvirðisréttar og réttarstöðu

ábúenda og leiguliða í því sambandi?``
    Vísa má í þessu sambandi til frv. til laga um breytingu á búvörulögum sem nú hefur verið afgreitt í landbn. Í 6. gr. c-liðar er kveðið á um að greiðslumark sé bundið við lögbýli. Í 6. gr. d-lið kemur fram að aðilaskipti að greiðslumarki geti því aðeins átt sér stað að fyrir liggi samþykki jarðareiganda og leiguliða. Þar af leiðir að jarðareigandi getur ekki upp á sitt eindæmi ráðstafað greiðslumarki án samþykkis leiguliða.
    Þá er í sömu grein kveðið á um að leiguliði geti keypt greiðslumark á ábýlisjörð sína og látið skrá það sérstaklega sem séreign sína. Jarðareiganda er hins vegar tryggður forkaupsréttur að slíku viðbótargreiðslumarki. Þá segir í sömu grein að landbrh. setji nánari reglur um aðilaskipti að greiðslumarki og skráningu þess.