Tilkynning um atkvæðagreiðslu

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 12:11:00 (3816)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að hafa brugðist við í þessu máli og úrskurðað þessa atkvæðagreiðslu ógilda. Hins vegar hlýtur það að leiða hugann að því að hér er ekki fullnægt þeim skilyrðum að atkvæðagreiðsla fari fram í heyranda hljóði. Þingmenn geta vissulega óskað eftir skráningu og jafnframt geta þeir óskað eftir að fá afrit eftir hverja atkvæðagreiðslu. Það er nú svo að fæstir þingmenn standa í því að staðaldri að leita eftir því hvort löglega hafi verið staðið að atkvæðagreiðslunni eða ekki. Ég lít svo á að þetta sé mjög alvarlegt áfall fyrir það atkvæðagreiðslukerfi sem hér er. Vissulega var hér aðeins verið að greiða atkvæði um það hvort máli yrði vísað til nefndar. Það sem eftir situr er það að hinn almenni þingmaður hefur ekki hugmynd um hvort þetta er einstakt atvik eða hvort þetta hefur verið ástundað af og til í vetur. Ég tel að þetta kalli á það alveg skilyrðislaust að forsetar þingsins ræði það hvort hægt sé að standa þannig að atkvæðagreiðslunni að nöfn þingmanna sjáist hér á vegg þegar atkvæðagreiðslan fer fram eins og þar sem atkvæðagreiðsla í ljósabekk eða með ljósaskiltum er framkvæmd mjög víða þar sem ég hef setið á þingum erlendis. Ég tel að þetta sé því miður mjög alvarlegur hlutur og get ekki litið á þetta sem einhver einstök mistök. Ég hef einfaldlega ekki hugmynd um hvort svo er.