Framleiðsla og sala á búvörum

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 12:45:00 (3819)

     Frsm. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta landbn. um frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46/1985. Það er rétt sem kom fram hjá formanni nefndarinnar, hv. 3. þm. Austurl., að nefndin vann sameiginlega og einum rómi að vinnu við frv. þar til kom að ákvæðinu um frestun á beinum greiðslum til sauðfjárbænda. Ég vil einnig leggja áherslu á að í raun er komið á síðasta dag að afgreiða þetta mál til þess að hægt sé að standa við ákvæði búvörusamningsins um beinar greiðslur til sauðfjárbænda sem áttu samkvæmt samningnum að hefjast 1. mars, þ.e. fyrsta greiðslan. Ég mun því ekki halda langa ræðu til þess m.a. að undirstrika að það er áríðandi að afgreiða málið frá hinu háa Alþingi nú fyrir helgi.
    Meginefni frv. er að breyta búvörulögunum til samræmis við þann búvörusamning sem gerður var á síðasta ári. Minni hlutinn styður þess vegna meginefni frv. og einnig þær brtt. sem meiri hlutinn leggur til, að undanskildu ákvæðinu um heimild landbrh. til þess að fresta hluta af beinu greiðslunum yfir á næsta ár. Þær brtt. sem annars eru lagðar fram eru að mestu leyti tæknilegs eðlis, að vísu eru nokkur efnisatriði. Þau efnisatriði snúa fyrst og fremst að því að auðvelda aðlögun frá fyrri búvörusamningi til þess sem nú hefur tekið gildi
    Kannski eru meiri breytingar og meiri munur á búvörusamningnum frá 1985 til þess samnings sem gerður var á síðasta vori en látið er í veðri vaka. Meginbreytingarnar eru þær að útflutningsbótum er algerlega hætt. Í hnotskurn þýðir samningurinn að sauðfjárbændur fá ákveðnar lagaheimildir til þess að skipta á milli sín þeim innanlandsmarkaði sem er á hverjum tíma. Ríkisábyrgð á magn og í raun á verð líka er aflögð. Þetta þýðir, eða þær breytingar sem þarna eru gerðar m.a. á verðlagsupphæðum, að sauðfjárbændur sitja að verulegu leyti við sama borð og aðrir kjötframleiðendur í baráttunni um innlenda markaðinn.
    Þar er þó eitt veigamikið atriði sem er að brugðið var á það ráð að beina þeim niðurgreiðslum sem hafa verið á kindakjöti yfir í að vera beinar greiðslur til bænda. Þetta er þannig útfært að helmingur verðsins er greiddur beint til bænda og eins og verðlagsgrundvöllur sauðfjárbúsins er samansettur er þarna um að ræða launalið bóndans. Þetta er sú aðstoð sem ríkið veitir sauðfjárframleiðslunni til þess að halda sinni markaðshlutdeild. Það er mjög mikilvægt atriði vegna þess að enn í dag, þrátt fyrir u.þ.b. þriðjungs samdrátt í sauðfjárframleiðslunni á tíu ára tímabili, þá er sauðfjárframleiðslan enn þá grundvallaratvinnuvegur í mörgum af strjálsbýlustu héruðum landsins. Því er afar mikilvægt að ríkið dragi ekki til baka þann stuðning sem hefur á síðustu árum tryggt þá markaðshlutdeild sem sauðfjárframleiðslan heldur enn þá.
    Bændur landsins og þá kannski sérstaklega sauðfjárbændur hafa á síðustu árum gengið í gegnum aðlögun sem oft á tíðum hefur verið mjög sársaukafull. Þeir hafa sýnt þar meiri sveigjanleika og meiri samstarfsvilja við stjórnvöld þessa lands en ég hygg að við munum finna dæmi um í nágrannalöndum okkar. Út frá þessum forsendum er þeim mun sárara að núv. hæstv. ríkisstjórn skyldi hafa gripið til þess ráðs við það að búa til sér þóknanlega niðurstöðu fjárlaga að fresta síðustu beinum greiðslum til bænda á þessu ári yfir áramótin.
    Hv. 3. þm. Austurl. gerði rækilega grein fyrir því áðan í sinni ræðu að hér er ekki um neina efnahagsaðgerð að ræða. Verið er að fresta þessum greiðslum um nokkrar vikur. Sú frestun hefur enga grundvallarþýðingu varðandi stöðu ríkissjóðs eða efnahagsmála en getur hins vegar komið mjög þungt niður á þeim sem áttu að njóta greiðslnanna þegar launaliðnum hjá sauðfjárbændum er kippt út á tveim síðustu mánuðum ársins. Þetta er enn óskiljanlegra þegar tekið er tillit til þess að aðspurðir margítrekuðu hæstv. ráðherrar núv. ríkisstjórnar sem fara með málið, hæstv. landbrh., hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., að staðið yrði við búvörusamninginn.
    Fram kom þegar hæstv. landbrh., að vísu sem hæstv. samgrh., fjallaði um vegáætlun fyrir þetta ár að þar væri veruleg skerðing vegna samnings sem gerður var við Reykjavíkurborg um greiðslu á skuld ríkisins við borgina vegna vegaframkvæmda. Þarna var allt í einu um að ræða samning sem varð að standa við þó svo um sé að ræða samning við einn fjársterkasta aðila í landinu, Reykjavíkurborg. Þegar hins vegar kemur að því að greiða samkvæmt samningi við sauðfjárbændur launalið þeirra með beinum greiðslum þá er allt í lagi að fresta greiðslum og standa ekki við samninginn. Það ætti því ekki að koma nokkrum manni á óvart að minni hluti landbn. gat ekki skrifað undir álit meiri hlutans.
    Ég vil vekja athygli á því í þessu sambandi að hvergi í umfjöllun um málið kom nokkuð það fram um vilja hæstv. ríkisstjórnar að leysa þetta á annan hátt, t.d. með lántöku. Miðað við hvernig samráði ríkisstjórnarinnar við hagsmunaaðila hefur verið háttað, þá gef ég ekki mikið fyrir niðurlagsorðin í frestunartillögunni þar sem rætt er um að hafa samráð við Stéttarsamband bænda. Samráð hæstv. ríkisstjórnar við hagsmunaaðila felst einfaldlega í því að segja þeim frá því að búið sé að taka ákvarðanir eða taka eigi ákvarðanir sem komi við viðkomandi aðila.
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki hafa þessi orð fleiri en ítreka að minni hluti landbn. leggur til að frv. og brtt. verði samþykkt að undanskildu frestunarákvæðinu á beinu greiðslunum.