Alþjóðaþingmannasambandið 1991

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 13:21:00 (3826)

     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég vil hér í örstuttu máli fylgja úr hlaði skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir sl. ári. Henni hefur verið útbýtt á þskj. 439.
    Skýrslur þessar sem á sínum tíma voru nýmæli hér í þingstörfum hafa komið árlega um nokkurra ára skeið og reyndar liggur sú ánægjulega staðreynd fyrir að allar aðrar alþjóðanefndir í þinginu hafa tekið upp sama hátt og leggja nú fyrir þingið skýrslur um starfsemi sína og verður það að teljast mjög til bóta frá því sem áður var.
    Alþjóðaþingmannasambandið er elst af þeim þingmannasamtökum sem Alþingi tekur þátt í, átti 100 ára afmæli fyrir þremur árum síðan. Það var í upphafi fyrst og fremst frjáls samtök þingmanna en hefur á síðustu árum þróast yfir í að verða meira í líkingu við önnur alþjóðasamtök þar sem þingin sem slík eiga aðild og tilnefna formlega sínar sendinefndir.
    Á sl. ári urðu nokkrar breytingar í störfum sambandsins að því leyti til að allnokkuð fjölgaði þeim þingum sem aðild eiga að sambandinu og nú munu 116 þjóðþing eiga aðild að þessum samtökum. Á síðasta þingi bættust m.a. við þjóðþingin í Eistlandi, Lettlandi og Litáen en þessi ríki áttu fulltrúa í samtökunum á árunum fyrir síðara stríð og var það sérstakt fagnaðarefni að geta boðið þau velkomin í hópinn á nýjan leik á síðasta þingi. Gengust norrænu þjóðdeildirnar sérstaklega fyrir því sín í milli, bæði að kynna Böltunum þessa starfsemi og greiða fyrir því að aðildarumsóknir bærust en jafnframt að þeir gætu tekið þátt í síðasta þingi sem haldið var í Santíagó í Síle á síðasta hausti. Fyrir mig persónulega var það sérstaklega ánægjulegt að geta sem þingforseti á því þingi veitt fulltrúa Eistlands orðið í fyrsta skipti á þessum vettvangi í rúmlega 50 ár.
    Á síðasta ári er óhætt að segja að starfsemi Íslandsdeildar hafi verið í lágmarki fyrri hluta ársins. Það skýrist að sjálfsögðu af þeim þingkosningum sem fram fóru í apríl. Við tókum þátt í norrænum þætti samstarfsins með venjulegum hætti, áttum m.a. aðild að bréfi til forseta sovéska þingsins í janúar á sl. ári þar sem mótmælt var framferði Sovétmanna í Litáen. Það bréf var sent Ivan Laptev þáverandi þingforseta og afhent í sendiráði Sovétríkjanna í Reykjavík. Einnig tók ritari deildarinnar þátt í sérstakri kynningu sem fram fór í Stokkhólmi fyrir fulltrúa baltnesku ríkjanna. Það var í mars á sl. ári en því miður höfðu þingmenn ekki aðstöðu eða tíma til þess að taka þátt í því eins og á stóð.
    Vorþing sambandsins var haldið í Norður-Kóreu í aprílmánuði en vegna kosninganna var ekki um að ræða neina þátttöku af Íslands hálfu í því þingi. Það hefur reyndar áður komið fyrir að sleppt hafi verið þátttöku á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins við þessar aðstæður og ég minnist þess að vorið 1987 þegar þingið var haldið í Nikaragúa var sömuleiðis ekki um að ræða neina þátttöku af hálfu Íslandsdeildar.
    Hins vegar sendi Íslandsdeildin fjóra fulltrúa á sínum vegum á haustþing sambandsins sem haldið var eins og ég áður sagði í Santíagó í Síle og voru þar auk þess sem hér stendur þingmennirnir Gunnlaugur Stefánsson, Margrét Frímannsdóttir og Einar K. Guðfinnsson. Óhætt er að segja að þessi sendinefnd, sem naut góðrar aðstoðar Þorsteins Magnússonar, ritara deildarinnar, hafi tekið virkan þátt í störfum þingsins. Það voru fluttar margar ræður í nafni Íslandsdeildarinnar og virk þátttaka að ýmsu öðru leyti í þessum störfum. M.a. var formanni deildarinnar falið að gegna formannsstörfum í sérstakri undirnefnd sem annaðist drög að ályktun um aukna fríverslun í heiminum og GATT-viðræðurnar sem kenndar eru við Úrúgvæ og var honum jafnframt falið að mæla fyrir tillögu sem síðan var samþykkt einróma á þinginu.
    Á vissan hátt má segja að starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins skeri sig nokkuð úr því sem tíðkast almennt í alþjóðasamstarfi þingsins. Hér er ekki um að ræða nefndastörf milli þinganna heldur fyrst og fremst tvö þing ár hvert, vor og haust, sem þingmenn sækja og nefndastörf sem fram fara eru unnin á þessum þingum. Það er ekki um að ræða nefndafundi milli þinga nema um sé að ræða alveg sérstök málefni, sérstaka þætti sem er kosið eða valið sérstaklega til milli þinga og um þátttöku í slíku hefur ekki verið að ræða af okkar hálfu á þessu ári. En ég vek sérstaklega athygli á því í þessu sambandi að á vegum þessa sambands hefur um langt árabil verið unnið mjög þarft verk að því er varðar mannréttindamál þingmanna og sérstök fastanefnd á vegum sambandsins hefur beitt sér um árabil fyrir því að þingmenn í löndum þar sem lýðræðið hefur verið fótum troðið nái rétti sínum og lýðræðisleg skipan komist á á nýjan leik. Þess eru því miður allt of mörg dæmi að þingmenn séu handteknir víða um lönd án dóms og laga og standa þessi samtök fremst í því að reyna að tryggja að þessir aðilar nái rétti sínum. Þeim hefur orðið verulega ágengt í sumum tilvikum en því miður ekki alls staðar, ekki enn þá.
    Það var mörgum sérstakt ánægjuefni að síðasta þing sambandsins skyldi vera haldið í Santíagó í Síle eftir að þar er komin á nýjan leik lýðræðislega kjörin ríkisstjórn. Þannig stóð á haustið 1973 að þá hafði verið ráðgert að halda reglulegt þing sambandsins í þeirri borg. En vegna atburðanna sem þá urðu þar í landi og stjórnarbyltingarinnar sem þá var gerð var því frestað og landinu reyndar vikið úr sambandinu stuttu síðar og átti Síle ekki aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu um langt árabil eða þar til í fyrra að þeir fengu þar aðild á nýjan leik og beittu sér síðan fyrir því að boða til þingsins á síðasta ári.
    Ég hyggst ekki, virðulegi forseti, fara mjög nákvæmlega í saumana á ályktunum eða öðru því sem á þessum þingum hefur verið samþykkt. Þessar ályktanir liggja fyrir sérstaklega í tveimur útgáfum sem jafnan koma fram að loknum þessum þingum. Annað eru eingöngu ályktanir og niðurstöður atkvæðagreiðslna sem ég hef hér í höndunum og svo hins vegar er sérstök samantekt á öllum ræðum sem fluttar hafa verið og annað sem gerst hefur á þessum þingum rakið mjög nákvæmlega og ítarlega. Þeir sem áhuga hafa á að kynna sér það geta að sjálfsögðu fengið þau gögn hjá Þorsteini Magnússyni, ritara deildarinnar.
    Ég vil jafnframt vekja athygli á því, virðulegi forseti, að á síðasta ári var jafnframt haldin aukaráðstefna, utan við hin venjulegu vor- og haustþing sambandsins. Sú ráðstefna fjallaði um málefni Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu og var bundin við þau 35 ríki sem þá áttu aðild að þeirri samkomu.
    Þessi ráðstefna var haldin í Vínarborg á síðasta sumri. Á hana féll að vísu skuggi átakanna í nágrannaríkinu Júgóslavíu sem þá voru nýhafin og settu vissulega mikinn og leiðan svip á þessi störf. Á þessari ráðstefnu var samþykkt ályktun um málefni héraðanna í þáverandi Júgóslavíu og fram kom í umræðum, m.a. hjá þeim sem hér stendur, áhugi á því að tryggja hinum einstöku lýðveldum í Júgóslavíu fullan rétt sem sjálfstæðum og fullvalda ríkjum ef ekki rættist úr þessum málum. Allir vita síðan hver þróunin hefur orðið í þessum efnum og Íslendingar hafa viðurkennt sjálfstæði Slóveníu og Króatíu og er vonandi að úr þessum deilumálum leysist með friðsamari hætti en virst hefur undanfarið.
    Hv. 3. þm. Reykv. vakti máls á því í framsögu sinni fyrir skýrslu Evrópuráðsins að stofnfundur sérstaks þings þingmanna frá löndunum sem eiga aðild að Ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu verður haldinn í Búdapest í sumar og þar verður komið á laggirnar nýju fjölþjóðaþingi þessara ríkja. Þar með mun væntanlega afskiptum Alþjóðaþingmannasambandsins af þessu verða lokið. Þetta þing mun koma í staðinn auk þess sem það mun væntanlega taka að sér víðtækari verkefni. Ég fagna því að forsætisnefnd hefur ákveðið að taka þátt í þeim störfum í samræmi við tillögur sem fram komu á síðasta ári frá fulltrúum okkar í Evrópuráðinu sem m.a. sóttu undirbúningsfund í Madrid út af þessu máli. Ég lýsi stuðningi við þá ákvörðun að fulltrúar Alþingis í Evrópuráðinu taki þátt í þessum störfum a.m.k. fyrst um sinn.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara ítarlegar í saumana á þessu þskj. eða gera nánari grein fyrir því. Vissulega kunna að vera skiptar skoðanir um það hvað Alþingi eigi að verja miklu ráðstöfunarfé eða þingmenn miklu af sínum tíma í alþjóðlegt samstarf. Ég vildi fjalla nokkrum orðum um það atriði í lokin og leyfa mér að vitna í það sem hv. 18. þm. sagði í umræðu um skýrslu Evrópuráðsins áðan og taka undir það að vissulega er það svo að þessi þáttur í starfsemi Alþingis hefur farið mjög vaxandi en ekki bara Alþingis Íslendinga heldur annarra þjóðþinga samtímis og er orðinn mjög mikilvægur hlekkur í starfi allra þjóðþinga í kringum okkur og víðar um heim sem vilja láta taka sig alvarlega. Vissulega er það svo að þessu fylgir auðvitað einhver kostnaður og þingmenn verða að verja tíma sínum í þetta samstarf. Ég hygg hins vegar að þeim tíma sé yfirleitt vel varið og þeim fjármunum sömuleiðis. Ég held að það sé ekki síst mikilvægt fyrir lítil ríki og lítil þjóðþing sem hafa þó einhverja reisn, eins og við teljum að Alþingi Íslendinga hafi, að sýna sig á þessum vettvangi, hvar sem tækifæri gefst, hafa sig þar í frammi og koma á framfæri íslenskum sjónarmiðum. Að öðrum kosti vofir yfir okkur sú hætta að forpokast og einangrast yfir okkar vandamálum sem eru að vísu oft og tíðum alvarleg en hins vegar gjarnan smámunir í samanburði við það sem ýmsar aðrar þjóðir eiga við að glíma. Þessu mega menn ekki gleyma og þetta mega menn ekki vanrækja að kynna sér og taka þátt í.
    Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta, virðulegi forseti, en ég vil áður en ég lýk máli mínu sérstaklega flytja samstarfsmönnum mínum á síðasta ári í þessari deild þakkir fyrir mjög ánægjulegt samstarf sem engan skugga hefur á borið. Það virðist vera reynslan að flokkspólitísk deilumál hverfi í skuggann þegar fólk sameinast á vettvangi sem þessum og nær að vinna saman á eilítið öðrum grundvelli heldur en gerist í þinginu sjálfu. Það er vissulega ánægjulegt. Einnig vildi ég í lokin þakka Þorsteini Magnússyni, ritara deildarinnar, fyrir hans störf sem öll hafa verið unnin af alveg sérstakri prýði á þessu ári sem endranær.