Þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu 1991

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 13:37:00 (3827)

     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegur forseti. Mig langar til þess að segja nokkur orð í tilefni af þessari skýrslu sem er hér á borðum þingmanna. Ég vil byrja á að þakka meðnefndarfólki mínu sem hefur verið með mér í þessari nefnd og eins ritara nefndarinnar, Þórði Bogasyni, en starfsemin í nefndinni hefur öll verið hin ánægjulegasta og vonandi gagnleg fyrir okkur öll sem höfum tekið þátt í henni.
    Sú breyting varð á nefndinni í kjölfar síðustu alþingiskosninga að í henni var fjölgað. En á 113. löggjafarþingi áttu sæti í henni aðeins tveir þingmenn, þeir Matthías Á. Mathiesen og Jón Sæmundur Sigurjónsson. Jafnframt ber þess að geta að Matthías var jafnframt varaformaður þingmannanefndar EFTA. En á þessu löggjafarþingi var fjölgað úr tveimur í fimm og þar að auki einn áheyrnarfulltrúi kosinn til viðbótar. Í nefndinni eru núna Eyjólfur Konráð Jónsson, Guðrún Helgadóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Páll Pétursson, Villhjálmur Egilsson og Össur Skarphéðinsson, sem eru tilnefnd af þingflokkum til setu í Íslandsdeildinni á yfirstandandi kjörtímabili. Sá sem hér stendur var kosinn formaður deildarinnar.
    Þetta þýðir að allir þingflokkar eiga fulltrúa í Íslandsdeild nefndarinnar og hafa allir þessir fulltrúar farið á fundi nefndarinnar ýmist hér í Reykjavík eða í Genf. Síðan höfum við jafnframt sótt fundi í Strassborg en við skulum koma að því síðar. Starfsemi nefndarinnar hefur verið mjög í tengslum við þær umræður sem hafa átt sér stað um hið Evrópska efnahagssvæði og þær samningaviðræður sem hafa staðið yfir um það.
    Hlutverk nefndarinnar er að vera ráðgefandi aðili innan EFTA. Þetta er annar af tveimur slíkum aðilum en auk þingmanna frá ýmsum löndum er jafnframt starfandi ráðgjafarnefnd fulltrúa atvinnulífs og verkalýðshreyfingar. Þessir tveir ráðgefandi aðilar starfa saman og þeir gefa sitt álit á því sem er að gerast innan EFTA og því starfi sem þar er fyrirhugað að vinna.
    Þingmannanefndin hefur jafnframt haft það hlutverk að hafa samskipti við þingmenn Evrópuþingsins. Meiningin er að í kjölfarið af væntanlegri samþykkt samninga um hið Evrópska efnahagssvæði verði formlegt samstarf milli þingmanna EFTA-ríkjanna og þingmanna Evrópuþingsins. Það hefur töluverð vinna farið í það innan nefndarinnar að móta það samstarf. Eins er að koma inn í myndina í starfi nefndarinnar samstarf við Austur-Evrópuríkin, þ.e. Pólland, Tékkóslóvakíu og Ungverjaland í tengslum við fríverslunarsamninga sem væntanlega verða gerðir við þau ríki af EFTA. Enn fremur hefur verið rætt lítillega um samstarf við önnur ríki sem fríverslunarsamningar verða gerðir við á næstunni.
    Það hafa verið haldnir nokkrir fundir á þessu ári. Tuttugasti fundurinn var haldinn 4.--5. febr. 1991, síðan var 21. fundurinn haldinn í tengslum við þann fund, 23. fundurinn var haldinn hér í Reykjavík 18.--20. júní, 22. fundurinn var haldinn í Vínarborg í maímánuði, 24. fundurinn var haldinn í Genf í október og 25. fundurinn var haldinn í desember í Genf.
    23. fundurinn, sem var haldinn hér í Reykjavík, var aðalfundur nefndarinnar. Þá skipti formennskan yfir til Íslands og það kom í hlut þess sem hér talar að gegna formennsku í þingmannanefndinni. En í júní nk. mun formennskan væntanlega færast yfir til Svíþjóðar í hendur Nic Grönvall sem er þingmaður fyrir sænska Íhaldsflokkinn.
    Jafnframt fundinum sem var haldinn í Reykjavík var fundur með þingmönnum Evrópuþingsins og þar fóru fram miklar umræður um samstarf þessara aðila. Það er óhætt að segja að þar voru nokkrar deilur á milli manna sem síðan leystust og þeir þingmenn Evrópuþingsins sem þar komu hafa haft töluverðan áhuga á þessu samstarfi við þingmenn EFTA-ríkjanna og eru væntanlega í fararbroddi þeirra þingmanna Evrópuþingsins sem hafa áhuga á því að samþykkja samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði.
    Í desember var haldinn annar fundur með þingmönnum á Evrópuþinginu í Strassborg. Þar komu

fram ýmis sjónarmið sem síðan hafa komið meira inn í myndina í kjölfar þess að samningur um hið Evrópska efnahagssvæði er tilbúinn. Þar fengu þingmenn EFTA-ríkjanna þau skilaboð að þingmenn Evrópuþingsins væru ekki alls kostar ánægðir með samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði enda kom á daginn að Evrópuþingið samþykkti kröfu um að honum yrði vísað til Evrópudómstólsins í annað sinn.
    Það er alveg ljóst að helsta verkefni þessarar nefndar nú á næstu mánuðum verður að sannfæra eins marga af þingmönnum Evrópuþingsins og hægt er um að þessi samningur um hið Evrópska efnahagssvæði sé pappírsins virði og hann eigi að samþykkja. En það hefur eins og ég sagði áðan töluverð andstaða verið við hann innan Evrópuþingsins. Enn fremur mun þingmannanefndin þurfa á næstunni að móta afstöðu til samskipta við þing Austur-Evrópu, Tyrklands og jafnvel Ísraels í ljósi væntanlegra fríverslunarsamninga við þau ríki.