Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 15:27:00 (3845)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég sé ástæðu til þess að gera athugasemd við nokkrar setningar í ræðu hæstv. forsrh. Mér fannst hún vera sönnun fyrir því að ekki eigi að gera mikið til þess að rétta af hag sjávarútvegsins. Mér fannst hún vera sönnun fyrir því sem hefur komið fram síðustu dagana að skoðanir þeirra manna, sem vilja að það fari fram svokölluð grisjun í sjávarútveginum, munu vera ofan á í ríkisstjórnarflokkunum. Forsrh. tvítók eina setningu í ræðu sinni, það var að afkastagetan væri of mikil. Hann lýsti ekki nánar hvernig ætti að minnka hana en ég tel að annað sem hann sagði í þessari ræðu bendi til þess að hann líti svo á að gjaldþrotaleiðin muni smám saman losa menn við vandamál í sjávarútvegi. Ég tek fram að ég er ekki að segja að einhver fyrirtæki í sjávarútvegi megi ekki fara á höfuðið og það gerist í hverjum mánuði allt árið. Þar hefur orðið grisjun og það verður ævinlega. Þannig er rekstraraðstaða fyrirtækja í sjávarútvegi að ekki geta allir blómstrað.
    Hæstv. forsrh. virtist undrandi á því að ávöxtunarkrafa spariskírteina væri jafnvel orðin lægri nú en hún var þegar ríkisstjórnin tók við. Ég er ekkert hissa á því þó að ávöxtunarkrafan hafi eitthvað lækkað. Það er ákveðið svikalogn í þjóðfélaginu. Menn búa við það að kjarasamningar hafi ekki komist á. Enginn veit hver niðurstaða þeirra verður. Það er ýmislegt sem bíður í þessu þjóðfélagi. Í allan vetur hafa menn auðvitað beðið eftir einhvers konar efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar sem ekki hafa látið á sér kræla. Hvað mun gerast ef það verður gjaldþrotahrina í sjávarútvegi? Mun það ekki hafa hækkunaráhrif á vexti? Hvar halda menn að bankastofnanir taki til baka það sem þær tapa í gjaldþrotum? Auðvitað með hærri ávöxtunarkröfu, með því að taka meira til sín en áður. Þannig hlýtur það að gerast. Ef bankarnir fá ekki tækifæri til að taka það til baka eru aðrir sem lenda í því. Ég býst við að ríkissjóður muni þurfa að taka á sig verulegar upphæðir ef bankarnir geta ekki staðið af sér þá holskeflu sem yrði ef þessi hugsanlega gjaldþrotaleið, sem menn hafa talað um, verður farin.
    Forsrh. sagði áðan að þær tölur sem hæstv. sjútvrh. viðraði hér --- og það er kannski sérstök ástæða til að vekja sérstaklega athygli á því hvað forsrh. gerir lítið úr málinu í kjölfar þess að hæstv. sjútvrh. kemur eins og hann hafi fundið hinn stóra sannleika og segir okkur að sjávarútvegurinn sé allur að fara á hvolf. Hann talar eins og þetta séu alveg nýjar fréttir og kemur inn í atvinnumálaumræðu með þessum hætti. Í hvaða tilgangi og hvers vegna? Ég tel að hann hafi komið í þeim tilgangi að reyna að efla vígstöðu sína innan ríkisstjórnarinnar og í ríkisstjórnarflokkunum vegna þess að hann hefur orðið undir í átökunum um hvort eitthvað eigi að gera eða ekki fyrir sjávarútveginn. Þannig tel ég að málið liggi, það má sanna einfaldlega með því að skoða hvað hæstv. sjútvrh. sagði við umræður um sjávarútvegsmál hér í haust þar sem hann lýsir afkomuhorfum sjávarútvegsins. Sú lýsing er nánast í samræmi við það sem Þjóðhagsstofnun spáir nú. Þar er ekki mikill munur þar á. Ég skal taka hér einstök dæmi. Núna áætlar Þjóðhagsstofnun að 4% halli verði á tekjum sjávarútvegsins. Það var talað um 5--6% í haust. Það var talað um að 2% hagnaður yrði af veiðunum. Nú er spáð 1--2%. Því var spáð að á vinnslunni yrði 8% halli en í haust var talað um að það stefndi í 9--10%. Þessar tölur segja okkur að í vetur hafa þessar upplýsingar og hugmyndir legið fyrir og í umræðunum um sjávarútvegsmál í haust voru menn sammála um að svona stefndi og menn ræddu fram og til baka um hvort ekki ætti að gera eitthvað í málunum. Hæstv. sjútvrh. lagði sjálfur fram hugmyndir um hvað ætti að gera. Hve mikið af þeim hugmyndum var framkvæmt? Ég tel að útspil hans í umræðunum um atvinnumál í síðustu viku sé að stórum hluta vegna þess að hann hefur ekki haft erindi sem erfiði og það verður fróðlegt að sjá hvert framhaldið verður.
    Ég tel að alþýðuflokksmenn og sá armur ríkisstjórnarinnar, sem virðist standa við hliðina á þeim í afstöðunni til sjávarútvegsmála, hafi unnið þarna aðra lotu. Hin lotan vannst í vetur þegar ákveðið var að leggja þá skatta og gjöld á sjávarútveginn sem ákveðið var í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Núna vannst þessi lota. Nú eftir að þessi vandi hafði verið geymdur í allan vetur er honum vísað til nefndar. Hann er búinn að liggja fyrir og núna er honum loksins vísað til sjávarútvegsnefndar stjórnarflokkanna þar sem á

að taka á málunum. Síðan hefur annar formaður þeirrar nefndar talað og sagt hvernig hann líti á þessi mál og hans skoðanir eru mjög skýrar, það á ekkert að gera. Það á að láta þetta grisjast. Við skoðum þetta fram á haustið, sjáum hvernig þetta lítur út þá. Og í Alþýðublaðinu má fá fróðlega lýsingu á afstöðunni í málinu. Þar er fréttaskýring þar sem farið er yfir það sem formaður sjávarútvegsnefndar ríkisstjórnarflokkanna hefur verið að segja og niðurstaða fréttaskýranda Alþýðublaðsins er skýr og ljós. Hann segir m.a., með leyfi forseta: ,,Þýðir þetta að stefnan felist í því að leyfa fyrirtækjunum að fara á hausinn?`` Þröstur svarar því hvorki játandi né neitandi en segir: ,,Það þarf að grisja, færa saman fyrirtæki, lækka skuldbindingar, stækka kvótann þannig að þeir sem eftir eru hafi einhverjar lífslíkur.``
    Með leyfi forseta, er hér á öðrum stað: ,,Heimildarmönnum sem blaðamaður ræddi við ber saman um að mjög ólíklegt sé að það verði farið út í aðgerðir á næstunni. Ríkisstjórnin mun taka þann kostinn að bíða eftir niðurstöðum nefndarinnar og hugsanlega ýta undir að hún skili af sér fyrr þannig að pólitískt verði hægt að undirbúa málin vel fyrir haustþingið.`` Hv. 1. þm. Austurl. gerði svo grein fyrir því hvað í þessari grein var sagt um veiðileyfagjaldið og það sé enn uppi á borðinu.
    Sem sagt, það er verið að spyrða saman af hendi stjórnarflokkanna niðurstöðu á endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar og fjármál sjávarútvegsins núna. Sem sagt stefnuna bæði í bráð og lengd og þetta þýðir að menn ætla að geyma sér að gera hlutina fram á haustið og jafnvel lengur.
    Fyrirsögnin í þessari umfjöllun blaðsins er: ,,Ólíklegt er að farið verði út í sérstakar aðgerðir. Beðið verður tillagna sjávarútvegsnefndar stjórnarflokkanna sem skilar af sér fyrir haustið.``
    Mér finnst þetta ekki fara á milli mála, en ég tel að þetta sýni okkur líka mjög skýrt og greinilega að það er verulegur ágreiningur í stjórnarflokkunum um þessi mál.
    Hvað er það þá sem ætti að gera í þessum málum núna? Við alþýðubandalagsmenn höfum sagt hvað við viljum að sé gert í þessum málum. Við sögðum það bæði í umræðunum í haust um sjávarútvegsmálin sem við stóðum fyrir og við höfum lagt fram tillögur í þinginu um það hvað við teljum að eigi að gera. Við teljum að það eigi að skipta þessum vanda í tvennt. Grípa eigi til aðgerða til að reyna að gera ástandið bærilegra nú og fram að þeim tíma sem ný sjávarútvegsstefna getur tekið gildi. Og við teljum að það eigi að setjast yfir það að ná breiðu samkomulagi í öllu þjóðfélaginu um nýja sjávarútvegsstefnu. Þessi ríkisstjórn er ekki að vinna þannig að málunum. Þar er hver höndin upp á móti annarri og ríkisstjórnin hefur tekið málið, eins og allir vita, og sett í nefnd þar sem einungis tveir stjórnarflokkar eiga aðild. Við teljum að það verði að skrúfa niður vextina til að sjávarútvegurinn og annað atvinnulíf í landinu geti lifað áfram. Það hefur ekki þolað þessa vexti og þegar til lengdar lætur getur það ekki verið hagstætt, hvorki bönkum eða sparifjáreigendum að atvinnulífið í landinu beri þá vaxtakröfu sem nú er gerð. Það getur það ekki til lengdar.
    Við viljum að raungengi krónunnar sé haldið stöðugu. Við förum ekki fram á að hér séu gengisfellingar sí og æ, en það vita allir hvað gerðist á þeim tíma sem menn bjuggu við svokallað fastgengi. Þá var gengið bara fast í annan endann og ástandið er í raun svolítið líkt því núna og hefur verið það undanfarin missiri. Það er engu líkara en gengið sé fast í annan endann og það hefur hækkað. Menn hefðu þurft að horfast í augu við það og sjá til þess að gengið væri stöðugt en hækkaði ekki því öllum var ljóst að sjávarútvegurinn þoldi ekki raungengishækkun og reyndar ekki aðrar atvinnugreinar í þjóðfélaginu heldur.
    Við vorum á móti þessum nýju álögum á sjávarútveginn í haust og við börðumst gegn þeim. Það voru mjög óskynsamlegar ráðstafanir og ég tel víst að þær muni verða ríkisstjórninni erfiður biti í framhaldinu þegar þarf að fara að taka á málefnum sjávarútvegsins. Við teljum líka að það megi margt gera til að létta rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, t.d. má skoða lækkun á raforkuverði og öðrum útgjöldum vinnslunnar þannig að t.d. vinnslan í landi verði samkeppnisfærari við vinnsluna úti á hafi. Það er ekkert eðlilegt að fyrirtækin í landi borgi töluvert hærri gjöld af ýmsu tagi en sú vinnsla sem fram fer úti á hafi. Það verður að skoða þetta og reyna að finna leiðir út úr því. Ég tek líka undir það sem kom fram áðan að það á að skoða það af alvöru að reyna að losna við aðstöðugjaldið en hvernig menn lenda svo í öðrum sköttum í staðinn er eftir að sjá en það gæti komið inn í þessa hugsanlegu leiðréttingu á stöðu sjávarútvegsins í landinu.
    Við höfum lagt fram tillögu um að létta fiskvinnslunni í landi og byggðalögunum sem á henni lifa þessa erfiðu tíma. Við teljum ábyrgðarleysi að gera ekki allt sem er mögulegt til að skapa stöðugleika í þessum efnum og í þessum mikilvægasta atvinnuvegi þjóðarinnar og að koma í veg fyrir að atvinnutækifærin glatist. Ég er ansi hræddur um menn eigi eftir að sjá útgjöld sem muni koma á hið opinbera vegna byggðalaganna sem verða verst úti ef ætlunin er að bíða eftir að það brenni ofan af þessum fyrirtækjum allt í kringum landið. Við teljum að margar tímabundnar ráðstafanir af ýmsu tagi sem við höfum gert grein fyrir hér í þinginu muni skila árangri og mér finnst það ámælisvert að hafa ekki undirbúið þetta tímabil, þ.e. fram að þeim tíma sem ný fiskveiðistefna tekur gildi með ráðstöfunum sem gilda þangað til.
    Virðulegi forseti. Hæstv. ríkisstjórn hefur vitað af öllum þeim vandamálum, sem hér eru til umræðu, alveg frá því í haust en hún hefur lítið gert til að koma til móts við hagsmuni sjávarútvegsins. Þvert á móti hefur hún lagt nýjar álögur á greinina. Í ríkisstjórnarflokkunum er ekkert samkomulag um að leysa málefni mikilvægasta atvinnuvegar þjóðarinnar, hvorki í bráð né lengd. Þessu fjöreggi hafa þeir nú kastað á milli sín í allan vetur og nú í nefnd úti í bæ. Formaður þeirrar nefndar segir: Það er best að bíða átekta,

við segjum kannski eitthvað í haust.
    Það er mín skoðun að ríkisstjórnarflokkarnir séu gjörsamlega klofnir í afstöðu til sjávarútvegsmálanna og þess vegna eigi hæstv. ríkisstjórn að segja af sér. Ef hæstv. ríkisstjórn gerir það ekki sé ég ekki betur en hæstv. sjútvrh., sem hefur hvað eftir annað lýst vanda sjávarútvegsins og síðast með þeim áhrifaríka hætti sem hann gerði í síðustu viku og talaði um nauðsyn aðgerða, verði að taka pokann sinn.