Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 17:03:00 (3853)

     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki almennilega á orðum hæstv. sjútvrh. þar sem hann segir að ekki eigi að fara í hnútukast og skæklatog að mér skildist af því að hér er hafin umræða um atvinnumál og þá fyrst og fremst um vanda sjávarútvegsins. Hv. 1. þm. Austurl. bar fram margar spurningar um það hvað ríkisstjórnin ætlar að gera en vissulega gagnrýndi hann ríkisstjórnina. Við framsóknarmenn höfum gagnrýnt álögur ríkisstjórnarinnar á sjávarútveginn við þessar aðstæður og við höfum líka gagnrýnt hæstv. forsrh. fyrir það að hann hefur talið óþarfa að fara eftir tillögum hæstv. sjútvrh. um aðgerðir í sjávarútvegi eins og við minnumst frá því í byrjun desember eða í nóvemberlok. Við erum sem sagt fyrst og fremst að ýta á það að tekið sé tillit til tillagna hæstv. sjútvrh. því að hann hefur lært af hinni dýrkeyptu reynslu frá 1988. Í september var spáð 10% taprekstri á næsta ári samkvæmt fyrirsögn í Morgunblaðinu og enn er spáð miklu tapi, a.m.k. 8% tapi á fiskvinnslu. Við teljum að hver vika sem líður við þessar aðstæður án þess að ríkisstjórnin fari eftir tillögum hæstv. sjútvrh. um að gera eitthverjar breytingar sé svo dýr að við það verði ekki unað. Vissulega gagnrýnum við hæstv. sjútvrh. fyrir það að una því að sitja undir þessu aðgerðarleysi hæstv. ríkisstjórnar.