Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 17:34:00 (3856)


     Eyjólfur Konráð Jónsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég veit ekki nema ég sé að fara í kringum þingsköp ef ég kalla þetta andsvar. Tilgangur minn með því að koma hér upp í pontuna er að lýsa yfir stuðningi við allt það sem ræðumaðurinn, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sagði og ég fagna hans merkilegu ræðu. Það er nefnilega svo að til eru fiskitegundir hér allt um kring sem við að réttum hafréttarlögum eigum, getum nýtt einir. Við þurfum að fara að nytja þær og það er ekki bara, eins og ræðumaður gat um, Reykjaneshryggur út í 350 mílur, það eru norðurslóðir allar, að sumu leyti í samvinnu við Norðmenn, að öðru leyti í samvinnu við Breta og Íra. Við getum gert þetta allt saman á örskömmum tíma ef við gefum okkur tóm frá dægurþrasi.
    En það góða við að talað er um kreppu --- kannski er allt of mikið talað um hana --- er það að menn fara að hugsa svolítið víðar og um aðra hluti. Hvar er auður Íslands? Hann er auðvitað í hafinu. Hann er þarna alls staðar þar sem ræðumaður taldi upp. Þetta hafa fiskifræðingar verið að rannsaka og segja okkur frá en við höfum daufheyrst. Við gerum ekki nokkurn skapaðan hlut annan en að rífast um einskis verða hluti. Þess vegna fagna ég sérstaklega framtaki hins ágæta þingmanns og því að hann skuli vekja athygli á því að framtíðin er fram undan en ekki aftur undan. Það er mergurinn málsins og við ættum að fara að sameinast um að ná þessum auði. Ekki bara fyrir okkur heldur fyrir mannkynið allt saman.