Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 17:36:00 (3857)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 17. þm. Reykv. góða ræðu. Það er mjög ánægjulegt að heyra svona tón úr stjórnarherbúðunum. Ég verð að segja að ég held kannski að vandamál núverandi stjórnarflokka séu að einhverju leyti þau að ekki hafi tekist að skipa rétt í ráðherrastóla.
    Ég ætla að nefna atriði við hv. þm. sem hann kom að en það var að leysa þyrfti upp sölusamtök okkar til þess að ná betri árangri í útflutningi. Ég ætla ekki að deila við hann um það hvort æskilegt geti verið að fleiri aðilar komi þar að. En ég bendi á að þegar kemur að málflutningi þess flokks, sem viðkomandi þingmaður hefur kosið að starfa innan, varðandi innlenda búvöruframleiðslu, þá eru alltaf höfð uppi stór orð um það að öflug samtök framleiðenda um vinnslu og sölu séu fyrst og fremst til að vernda hagsmuni framleiðenda og halda uppi verði framleiðsluvörunnar. Þegar aftur kemur að því að sami stjórnmálaflokkur ræðir um útflutninginn þá er rökunum snúið við. Þá er það allt í einu orðið lausnarorðið að margir aðilar berjist og keppi innbyrðis um söluna. Ég vil ekki fara í neina hugmyndafræðilega úttekt á þessu við hv. þingmenn því ég veit að þetta er ekki einfalt mál og á sér margar hliðar. En ég bendi einfaldlega á þessa þverstæðu í málflutningi Alþfl.