Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 17:38:00 (3858)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vera kann að ég misskilji hv. þm. Jóhannes Geir en mér fannst eins og hann væri að andmæla þeirri skoðun minni að það ætti að gefa smærri miðlurum aukin tækifæri til að selja sjávarafurðir. Ég hef ekki kannað rækilega hvernig þetta er hjá öðrum þjóðum en ég vil vísa hv. þm. Jóhannesi Geir á leiðara DV í þessari viku þar sem greint var frá því að Norðmenn hefðu gefið saltfisksölu frjálsa. Það leiddi til þess að í staðinn fyrir að kaupendur, til að mynda í Portúgal, væru að versla við stóra heildsala í sínu eigin landi gátu smærri framleiðendur í Noregi verslað beint við hótelkeðjur og verslanakeðjur. Það leiddi til þess að verulega mikill gróði færðist frá Portúgal til framleiðendanna í Noregi eftir því sem sagt var í þessum leiðara í DV sem aftur vísaði til heimilda í blaðinu Dagens Næringsliv, að mig minnir. Þetta olli því að á einu ári jókst útflutningsverðmæti Norðmanna af saltfisksölu aðeins til eins lands, Portúgals, um 450 millj. norskra króna eða röska 4 milljarða íslenskra króna.