Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 18:01:00 (3863)

    Virðulegi forseti. Hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson orðaði það svo að sumir hlutar ræðu minnar hefðu verið átakanlegir. Ég verð að segja það að mér finnst átakanlegt heyra þennan þingmann enn einu sinni skrumskæla stefnu síns eigin flokks varðandi veiðigjald. Það er alveg ljóst að tveir flokkar hafa tekið undir hugmyndir um veiðigjald. Annars vegar er það Alþfl. og hins vegar Kvennalistinn. Það er alveg morgunljóst að í stefnuskrá Kvennalistans, sem þessi ágæti þingmaður háði sína kosningabaráttu eftir, er talað um það að fimmtungur allra veiðiheimilda eigi að renna í sérstakan sjóð. Og hvað á að gera við þennan sjóð? Það á að leigja, selja eða ráðstafa þessum heimildum með öðrum hætti þannig að hún getur ekki flúið stefnu síns eigin flokks. Það er einfaldlega staðreynd að Kvennalistinn hefur með vissum hætti tekið undir hugmyndir um veiðigjald.
    Í annan stað vil ég vekja athygli á því að þessi ágæti þingmaður orðaði það svo að ekki hefði verið nógu sniðugt af mér að koma hér fram með hugmyndir um nýja sókn í nýja stofna. Síðan spurði hún: Hvernig á að fjármagna þetta? Ég er viss um það að þessum ágæta þingmanni, sem á sæti í sjútvn. þingsins, er mætavel kunnugt um það hvernig þeir fóru að þegar þeir voru að byrja að nytja úthafskarfann. Það var þannig að tiltekið fyrirtæki lagði fram áhættufjármagn, olíufélög lögðu fram styrk og ríkið einnig. Hvað gerði hið opinbera? Það styrkti þetta með því að veita grálúðukvóta til fyrirtækisins. Ég sé ekki annað en vel sé hægt í framtíðinni að gera eitthvað slíkt og mun auðvitað hvetja til þess með dyggri aðstoð þessa ágæta þingmanns sem í stefnuskrá sinni fylgir veiðigjaldi en af einhverjum undarlegum ástæðum er alltaf

á móti veiðigjaldi hér í þessum sölum.