Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 18:03:00 (3864)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér er alltaf mjög ljúft að útskýra sjávarútvegsstefnu Kvennalistans fyrir hv. 17. þm. Reykv. en því miður er það alltaf til einskis. Sem betur fer eru aðrir þingmenn hér í salnum sem skilja hana mætavel og það dugar mér nú orðið. Ég ítreka að sjávarútvegsstefna Kvennalistans felst í því að koma á byggðakvóta sem deilist milli byggða landsins. Það er grundvöllurinn og það er rétt að einhver sveigjanleiki verður að vera í þessu kerfi. Þetta höfum við kosið að útfæra með þeim hætti að hafa 20% veiðiheimilda til ráðstöfunar, leigu eða sölu eftir því hvað á við á hverjum tíma. Þetta er stefna sem byggir á sanngjarnri úthlutun en ekki á því að setja á veiðileyfagjald sem er allt annar handleggur.