Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 18:36:00 (3868)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég skil svo sem ágætlega sárindi hv. síðasta ræðumanns þótt þau bitni að hluta til á mér. Hann er í erfiðum félagsskap og á erfitt, eins og kom fram í ræðu hans, í þessari umræðu þar sem ríkisstjórnin virðist ekki ætla að gera margt þótt full ástæða sé til og ég tek undir það með hv. þm. Hann taldi það raunar fáheyrðar röksemdir, sem ég kom með, að benda á að það að mála ástandið svartara en það er í raun í sjávarútvegi væri að taka undir raddir um kjaraskerðingu. Ég stend við mín orð. Þótt það hafi að vísu verið rétt hjá honum að þetta hefur ekki verið mikið rætt á þessum nótum á Alþingi hefur það verið rætt þeim mun meira úti í þjóðfélaginu. Hér er ég í raun að koma með rödd sem er í takt við áhyggjur forsvarsmanna launþega sem standa nú í kjarasamningum.