Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 19:13:00 (3878)



     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegi forseti. Margt er búið að ræða um efnahagsmálin en það sem mig langaði fyrst til að koma að er að margir hv. þm. hafa talað um efnahagsstærðir, vexti, laun, verðlag og verð á erlendum gjaldmiðlum eins og þetta væri allt saman hlutir sem væri hægt að ákveða alveg án samhengis við hvað er að gerast í efnahagslífinu yfirleitt og að þetta væri bara spurning um hvað mönnum þætti vont og slæmt og svo ættu menn að ákveða hlutina út frá því. En þannig eru hlutirnir ekki heldur er það þannig að ef ein stærð er ákveðin með handafli eða af einhverri óskhyggju þá hefur það venjulega afleiðingar. Ef við lítum á þau vandamál og það sem við höfum við að glíma og lítum í kringum okkur þá skerum við okkur úr miðað við þær viðmiðunarþjóðir sem við höfum alltaf borið okkur saman við, OECD-þjóðirnar, að við verðum á þessu ári eina þjóðin sem verður með yfir 4% viðskiptahalla. Við skerum okkur líka úr með það að hér hefur nánast engin framleiðniaukning átt sér stað síðustu 10 árin meðan framleiðniaukning í ríkjum OECD hefur orðið 1,6% að meðaltali. Þess vegna eru kjörin á Íslandi svipuð eða jafnvel verri en þau voru fyrir 10 árum meðan kjörin hjá okkar viðmiðunarþjóðum hafa batnað.
    En hvað þýðir þessi viðskiptahalli? Hann þýðir að við höfum samsvarandi hallarekstur á skuldasöfnun. Við erum að tala um yfir 15 milljarða króna á þessu ári og þessi hallarekstur og þessi skuldasöfnun kemur einhvers staðar fram. Hún er hjá fyrirtækjunum, hún er hjá heimilunum, hún er hjá ríkinu. Hún er einhvers staðar. Við skulum bera okkur líka saman við eina grannþjóð okkar, Finna. Þeir stóðu frammi fyrir því á síðasta ári að þriggja ára viðskiptahalli hjá þeim var 14--14,5%. Staða okkar er sú að á árunum 1990--1992 stefnir í 12% viðskiptahalla hjá okkur. Ef við skoðum tölur fyrir næsta ár þá stefnir í að viðskiptahalli okkar verði á bilinu 13--14%. Hvernig hugsuðu Finnar sér að bregðast við í fyrrahaust? Jú, þar gekk maður undir manns hönd í allri umræðu um efnahagsmál að reyna að lækka kostnað í finnsku atvinnulífi og sérstaklega að reyna að styrkja samkeppnishæfni finnsks útflutnings. Búið var að ná samningum á vinnumarkaði um 7% lækkun á kaupi í Finnlandi yfir línuna. Síðan gerðist það þar að eitt verkalýðsfélag eða landssamband frestaði að afgreiða samninga. Það var eins og við manninn mælt að það

kom áhlaup á finnska markið og verð á ECU var hækkað um 14%. Við skulum skoða þetta í þessu ljósi að viðskiptahalli gæti hugsanlega gengið ef við værum á sama tíma að sjá fram á það að tekjur okkar væru að aukast og endurgreiðsluhæfni þessara skulda væri að aukast. En því er ekki að heilsa og okkar mikli vandi er sá að tekjur okkar aukast ekki. Ef við hefðum verið að fá álver eða einhverjar aðrar slíkar arðgefandi framkvæmdir væru í gangi þar sem við sæjum fram á aukningu þjóðartekna á næstu árum þá hefði verið hugsanlegt að vera með þennan viðskiptahalla. En það gengur ekki meðan staðan er eins og í dag. Við þurfum að ná þessu jafnvægi og hætta þessum hallarekstri.
    Eitt af því sem liggur fyrir þinginu er stjfrv. um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands. Þar er gert ráð fyrir því að komið verði á virkum gjaldeyrismarkaði og gengi krónunnar ráðist af markaðsaðstæðum. Þetta gæti tekið gildi strax í haust. Ég tel að eitt þýðingarmesta mál þingsins sé að gengi krónunnar fái að ráðast af markaðsaðstæðum vegna þess að gengisstefna og gengi krónunnar er að sjálfsögðu mælikvarði annars vegar á styrk efnahagslífs okkar og hins vegar á efnahagsstefnuna. Gengisstefna er ekki eitthvað sem hægt er að ákveða út í loftið óháð öllu öðru, gengisstefna er efnahagsstefna. Ef fastgengisstefna eða stöðugleiki á að vera í gengismálum þá þarf það að eiga sér einhverja samsvörun í þeirri efnahagsstefnu sem er rekin og besti mælikvarðinn á það hvort efnahagsstefnan og gengisstefnan fari saman er að frjáls markaðsskráning sé á gengi eins og fyrirhugað er að taka upp.
    Við Íslendingar höfum upplifað töluverðan tíma þar sem allmikill stöðugleiki hefur verið í verðlagi. Ég hygg að reyndin sé sú fyrir mörg heimili í landinu að þessi stöðugleiki hafi reynst mesta kjarabót sem völ er á. Nú hafa vextir verið að lækka, sérstaklega nafnvextir, raunvexir aðeins, og þetta hefur komið sér vel fyrir mörg skuldug heimili. En stöðugleikinn gerir líka það að aðstæður á vinnumarkaði hljóta að breytast. Við skulum velta því fyrir okkur hvort þeir heildarsamningar sem eru í gangi á vinnumarkaði séu ekki hálfgerð tímaskekkja við þessar aðstæður, einfaldlega vegna þess að þegar verðlagið er stöðugt með þeim hætti sem er það er í dag getur ekki orðið raunhækkun á launum nema einhver samsvarandi framleiðniaukning verði í atvinnulífinu. Þegar til kastanna kemur er það framleiðniaukingin sem skilar kjarabótunum, nema menn vilji fara að fjármagna kjarabæturnar með enn þá meiri erlendum lánum. Það getur vel verið. En ég tel að aðilar vinnumarkaðarins ættu að bregðast við þeim aðstæðum sem eru komnar upp með þessum stöðugleika og leggja miklu meiri áherslu á sérkjarasamninga þar sem hægt er að taka á mismunandi aðstæðum í mismunandi atvinnugreinum og í mismunandi fyrirtækjum. Ég veit t.d. um að verið var að setja flæðilínu í frystihús norður á Sauðárkróki nýlega. Líkur eru til þess að það leiði til 10% launahækkunar hjá því fólki sem vinnur í því frystihúsi. Ekki vegna þess að gerðir hafa verið einhverjir nýir kjarasamningar, heldur vegna þess að það hefur orðið framleiðniaukning í þessu húsi sem leiðir til þess að fólkið fær hærra kaup. Menn eru oft að velta því fyrir sér að samningarnir séu viðkvæmir og það þurfi að fara í gegnum einhverja mikla erfiðleika og miklar viðræður og verkalýðsforingjarnir séu ekki með á nótunum með þetta allt saman. En ég efast um það vegna þess að verkalýðsforingjarnir, sem leiða verkalýðshreyfinguna hringinn í kringum landið í dag, eru menn sem eru á kafi í vandamálum fyrirtækjanna. Þetta eru menn sem eru stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum sem eru að rukka þessi fyrirtæki um bæði iðgjöld til þeirra og stéttarfélagsgjöld. Þetta eru menn sem eru í sveitarstjórnum sem eru mörg hver að ausa peningum í dauðvona fyrirtæki. Þeir hafa því þessi vandamál fyrir sér og spurningin er sú hvort einhverjir heildarsamningar séu á vinnumarkaðinum þar sem verið er að hækka laun óraunhæft, sem eiga sér ekki stað í verðmætasköpun atvinnulífsins, eiga yfirleitt rétt á sér. Er ekki best að vera án samninga fram á haust?
    Menn hafa mikið talað um sjávarútvegsmálin og þannig er að sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir miklum kröfum af hendi þjóðfélagsins. Menn vilja hafa óbreytt gengi, hækka launin, láta sjávarútveginn greiða fyrir þjónustu og sumir vilja láta hann borga auðlindaskatt þar til viðbótar. Menn verða að átta sig á því að við þær aðstæður sem nú eru getur sjávarútvegurinn ekki risið undir þessum kröfum nema hann fái tækifæri til þess að auka verðmætasköpun sína. Þannig er staðan nú að framlegð fiskvinnslu upp í greiðslu vaxta og afskrifta er á bilinu 0--1%. Framlegð af botnfiski til greiðslu vaxta og afskrifta er 17% og svo á sjávarútvegurinn með þessu að standa undir 100 milljarða skuld. Hvernig í ósköpunum halda menn að þetta gangi upp? Skuldirnar hlaupa ekki í burtu. Þessar skuldir verður að borga. Staðan er sú að sjávarútvegurinn getur ekki borgað skuldirnar og menn verða að horfast í augu við að það. Hvernig fara menn þá að? Ég tel að það þurfi að koma til eins konar uppgjörs þar sem menn fari í gegnum þetta og ákveði hvernig menn ætla sér að borga skuldirnar og það er augljóst mál að þær geta ekki allar fallið á sjávarútveginn. Með þessu er ég ekki að segja að það eigi að gera fyrirtæki gjaldþrota í stórum stíl. Finna þarf einhverja leið til þess að komast út úr þessu án þess að valda einhverjum gífurlegum skaða en þetta eru greinilega skuldir sem sjávarútvegurinn borgar ekki við þessar aðstæður og við verðum að finna leiðina út úr vandanum.
    Þessi mál eru m.a. rædd í þeirri nefnd sem ég sit í og hefur verið margnefnd hér. Ég get fullvissað þá sem hafa áhyggjur af þeirri nefnd og þeim umræðum sem þar eru að þar eru málin rædd á málefnalegum grundvelli og ekkert bendir til annars en að sú nefnd muni skila árangri í störfum sínum og fullt samkomulag hefur þar verið á milli manna.
    Ég vil koma inn á eitt í sambandi við sjávarútveginn og er það að menn samþykktu á síðasta ári lög um fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútveginum. Þau lög eru afar óheppileg. Þau eru á góðri leið með að gera sjávarútveginn að holdsveikrasjúklingi á íslenskum hlutabréfamarkaði. Þau eru svo stíf að fái ég einn

erlendan vin minn til þess að kaupa af mér hlutabréf sem ég get farið og keypt á stundinni í Granda eða Útgerðarfélagi Akureyringa eða einhverjum af þessum opnu félögum og selt honum bréfið og hann neitar síðan að selja bréfið þá á sjútvrh. væntanlega engan annan kost en að rífa kvótann af viðkomandi fyrirtæki. Núna liggur fyrir bréf frá viðskrn. til sjútvrn. þar sem vakin er athygli á því að erlendir aðilar hafi með óbeinum hætti fjárfest í öllum stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og spurningin er sú hvað ætli menn að gera. En lögin eins og þau eru í dag koma beinlínis í veg fyrir að sjávarútvegurinn hafi eðlilegan aðgang að íslenskum hlutabréfamarkaði. Ég tel að afar mikil óheillaþróun sé að eiga sér stað hvað sveitarfélög eru nú að komast inn í sjávarútveginn. Þetta er langt umfram fjárhagslega getu sveitarfélaganna sem í þessu lenda og er alls ekki í samræmi við eðlilegt hlutverk þeirra.
    Það sem við þurfum að hugsa um í sambandi við efnahags- og atvinnumál er að gera okkur grein fyrir þeirri stöðu sem við erum í, en ekkert þýðir að æðrast þótt staðan sé erfið. Taka verður að taka á þeim vanda sem við er að glíma en líka að horfa til framtíðarinnar. Það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn en bjartsýnin verður að vera raunsæ. Það sem menn hafa haft í huga í því sambandi er það að við verðum fyrst og fremst að virkja stærstu auðlind okkar sem er fólkið sjálf. Við höfum treyst allt of mikið á nýtingu náttúruauðlinda, að við sætum á einhverjum auði sem mundi sjálfkrafa færa okkur auknar tekjur, hvort sem það er fiskurinn í sjónum eða orkan í vötnunum. Vel getur verið að það séu vannýttar fiskitegundir, en ekkert þýðir heldur að vaða út í nýtingu þeirra í einhverri fiskeldisbjartsýni. Menn verða að vera raunsæir í sambandi við nýtingu á þeim auðlindum en ekki að fjárfesta og fjárfesta og fá svo ekkert út úr því nema tap.
    Það sem þarf að gera til þess að auka framleiðni í efnahagslífinu er að huga að því að framleiðni í viðskiptum er farin að skipta miklu meira máli en áður. Við lifum í þjónustuþjóðfélagi. Atvinnulíf nútímans er þjónustuatvinnulíf og framleiðni í viðskiptum, þjónustu, verslun skiptir alltaf meira og meira máli fyrir framfarir. Margt er hægt að gera til að auka framleiðni í verslun, margt hægt að gera til að auka framleiðni í bankakerfinu, margt hægt að gera til að auka framleiðni í samgöngum og við getum séð hvernig bætt flutningatækni hefur stóraukið verðmæti á sjávarafurðum með útflutningi á gámafiski og jafnvel ferskum flökum í gámum. Allt þetta þarf að koma inn. Við sjáum líka að margir möguleikar eru fyrir hendi þegar Evrópska efnahagssvæðið verður að veruleika. ( Gripið fram í: Hvenær verður það?) Vonandi um næstu áramót. Þá verður hægt að stórauka markaðssókn okkar inn á Evrópu fyrir verðmætari afurðir íslensks sjávarútvegs. Við skulum líka reyna að huga að því hvernig við getum nýtt hið gífurlega fjármagn sem er í lífeyrissjóðunum til þess að það nýtist íslensku atvinnulífi sem eigið fé.
    Við þurfum að átta okkur á því að við þurfum að gera ýmsar grundvallarbreytingar á hagkerfi okkar, við höfum lifað allt of mikið í skjóli náttúruauðlinda okkar en núna þurfum við að virkja betur stærstu auðlind okkar sem er fólkið í landinu.