Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 19:44:00 (3880)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vildi svara strax spurningu hv. 4. þm. Norðurl. v. um orkuverð til sjávarútvegs og fiskiðnaðar. Ég hef nýlega átt viðræður við orkuvinnslufyrirtæki og orkuveitur og samtök þeirra um samstarf þessara aðila ásamt iðnrn. til þess að finna leiðir til að auka hlut raforkunnar í orkubúskapnum. Ef hægt er að finna leiðir til að færa orkunotkun sjávarútvegsins frá innfluttum orkugjöfum til innlendra kemur m.a. til greina að greiða sérstaklega fyrir því, m.a. til þess að nýta 610 gígavattstundirnar frá Blöndu. Þetta er nú í virkri athugun en að sjálfsögðu er ekki um það að ræða að lækka tekjurnar til fyrirtækja eins og til Rafmagnsveitna ríkisins af þeirri raforkusölu sem þegar er heldur er unnið að því að reyna að fá þarna viðbótarsölu, bæði hvað varðar landrafmagn til bátanna sem ég held að sé mögulegt og e.t.v. í fiskvinnslunni. Það er einmitt málið sem nú er athugað.