Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 19:57:00 (3883)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. spurðist sérstaklega fyrir um ummæli hv. 5. þm. Norðurl. v. sem sagði að hugsanlega væri best að samningar yrðu lausir til haustsins þar sem hann sá annmarka á því að hægt væri að ná samningum á einu borði nú. Hann lýsti því með hvaða hætti kjör manna gætu batnað án þess að samningar kæmu til og nefndi dæmi um það frá sinni heimabyggð. Ég tel ekkert athugavert við það að þingmenn lýsi skoðunum sínum. Mínar skoðanir hafa hins vegar komið fram áður í tíma óundirbúinna fyrirspurna. Sl. þriðjudag svaraði ég því til að ég teldi afskaplega mikilvægt að samningar næðust og þá helst ekki til skemmri tíma en eins árs vegna þess að það hafa verið óvissutímar og ég er sannfærður um að það er mjög mikilvægt fyrir atvinnulífið og fyrir launþega að menn hafi fast land undir fótum til ekki skemmri tíma en eins árs. En ég sé ekkert á móti því að þingmenn velti hlutum fyrir sér með þessum hætti eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. gerði sem hefur mikla þekkingu á þessum málum. En ég held engu að síður að það sé mjög áríðandi, og það er mín skoðun, að samningar megi takast. Á morgun er boðaður fundur að beiðni Alþýðusambands Íslands með fjórum ráðherrum til þess að fjalla um þau sjónarmið sem þeir hafa fram að færa þar og ég vona að ekki líði á löngu þar til nokkur skriður kemst á samningaviðræðurnar. Ég tel það mjög mikilvægt eins og ég segi, bæði fyrir aðila vinnumarkaðarins og

þjóðina í heild, að menn hafi fast land undir fótum í þeim efnum.