Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 20:17:00 (3886)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tala langt mál nú. Þetta hafa verið langar og ítarlegar umræður og gagnlegar fyrir margra hluta sakir hygg ég. Vegna þess sem kom fram síðast hjá hv. 1. þm. Austurl. um þá greinargerð sem vitnað hafði verið til um stöðuna 1990, að rétt tæpur helmingur fyrirtækja í sjávarútvegi hafi átt í verulegum greiðsluerfiðleikum, þá sagði ég hér nokkurn veginn orðrétt: Auðvitað er það rétt hjá málshefjanda að ekki má draga of víðtækar ályktanir af greinargerð af þessu tagi. Og ég bætti við að auðvitað hlytu skuldareigendur að skoða sameiginlega hagsmuni skuldara og kröfuhafa og leitast við að skapa þeim fyrirtækjum sem lífsvon eiga skilyrði til þess að greiða skuldir sínar þótt á lengri tíma væri

en skilmálar skuldabréfanna kvæðu nú á um. Ég hygg að ég hafi sagt þetta nokkurn veginn svona í fyrri ræðu minni þegar ég var að koma inn á þá hluti úr ræðum hv. þm. sem ég tók að mér að víkja að. Aðrir ráðherrar tóku síðan að sér að víkja að öðrum þáttum.
    Talsmenn stjórnarandstöðunnar segja að ekki hafi komið mörg svör frá ráðherrum. Ég er ekki alveg sammála því. Það hafa komið svör frá ráðherrum en auðvitað koma ekki þau svör sem stjórnarandstaðan vildi fá. Það er út af fyrir sig eðli máls. Menn greinir á um með hvaða hætti eigi að taka á málum. Ég get sagt, án þess að ég sé að víkjast undan ábyrgð ríkisstjórnarinnar, að ég hef ekki heyrt í þessum ágætu ræðum stjórnarandstæðinga miklar leiðbeiningar um það með hvaða hætti þeir telja rétt að taka á málum. Ég hef ekki beinlínis heyrt kröfur um gengisfellingu. Ég hef ekki heyrt kröfur um það að menn slái nú stórtæk erlend lán og spýti inn í fyrirtækin, ekki til þess að breyta grundvellinum heldur til þess, eins og hæstv. sjútvrh. segir, að koma deyfilyfjum inn í reksturinn. Ég hef ekki heyrt neitt þess háttar og er út af fyrir sig ánægður með það. Ég hef ekki heldur heyrt neitt sérstakt sem ég gæti sagt að væri svar fyrir mig. Kannski byggist það á því að við erum í stjórn og stjórnarandstöðu og aðilarnir eru ekki sammála um það með hvaða hætti er rétt að standa að málum. En umræðan hefur verið mjög gagnleg. Hún hefur skýrt stöðuna. Ég hygg að það hafi verið búið að mála stöðuna kannski óþægilega og óþarflega dökka, eins og okkur hættir dálítið til hér á landi, að draga upp stöðuna í skörpum litum. Það er ekkert að því þótt hæstv. sjútvrh., sem ber ábyrgð á málaflokknum, hafi aðeins meiri áhyggjur af honum en við hinir ráðherrarnir. Ég er ekki að finna að því en ég tel að myndin hafi skýrst við þessar umræður allar og því finnst mér sérstök ástæða til að lýsa ánægju með það að umræðan fór fram.