Framleiðsla og sala á búvörum

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 10:43:00 (3889)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Með frv. því sem hér er til afgreiðslu er verið að staðfesta búvörusamning sem gerður var á sl. ári. Undirstöðuhugtak í þessum samningi er fullvirðisrétturinn. Fullvirðisrétturinn snertir að sjálfsögðu þá sem búa á jörð og ef ekki er um að ræða að sami maður eigi jörð og búi á henni, þá snertir fullvirðisrétturinn báða aðila, jarðareigendur og ábúendur. Hins vegar hafa ekki fyrr verið tekin í lög nein ákvæði um fullvirðisrétt. Þetta er í fyrsta sinn sem við fjöllum um þann rétt. Og þá verður löggjafinn auðvitað að setja skýr ákvæði sem taka af allan vafa um það hvernig með skuli fara bæði í samskiptum ríkisins og jarðareigenda og ábúenda annars vegar og í samskiptum bænda hins vegar. Þetta er ekki gert í þessu frv. hvað varðar stöðu jarðareigenda og ábúenda. Það hefur láðst að líta á það vandamál. Ég bar hér fram umkvartanir fyrir alllöngu um það að á þetta mál þyrfti að líta og hef rætt það í landbn. Ég kynnti svo hér við 2. umr. málsins brtt. sem var til þess fallin að skera úr um það hver ætti að fá greiðslu vegna fullvirðisréttar ef jörð væri í ábúð annars en jarðareiganda. Því miður hefur þessi tillaga ekki hlotið náð fyrir augum landbn. sem stendur og málið þótti of flókið til að leysa úr því áður en frv. yrði afgreitt.
    Ég verð auðvitað að segja það alveg eins og er að ég tel að þetta sé glöggt dæmi um það þegar löggjafarvaldið sinnir ekki skyldum sínum og sendir frá sér lög með bersýnilega mjög lausum endum sem hugsanlega geta valdið vandræðum á síðara stigi, og reyndar ekki hugsanlega heldur nokkuð örugglega, nema úr verði bætt.
    Löggjafinn hefur sem sagt innleitt ákveðinn rétt sem mældur er í milljörðum kr. án þess að setja skýrar reglur sem taka af skarið um eðli þessa réttar. Ríkisvaldið hefur fallist á það að ábúendur eigi hér meiri hagsmuna að gæta og þegar um er að ræða ríkisjarðir þá skuli ábúendur fá greiðsluna en samt sem áður er fullvirðisrétturinn tengdur jarðareigendunum og því alveg augljóst mál að báðir aðilar geta gert kröfuna. Fulltrúar ráðuneytisins sem komu á fund nefndarinnar játuðu það að ef báðir aðilar gerðu kröfu um þessa greiðslu þá væri ráðuneytið auðvitað í miklum vandræðum statt og gæti ekki borgað út að svo stöddu nema að taka ákvörðun um það að borga öðrum aðilanum en ekki hinum.
    Ég hef því talið miklu eðlilegra að Alþingi kveði hér upp úr um hvernig á þessu skuli tekið þannig að ráðuneytið þurfi ekki að gera það eftir geðþótta sínum, án stoðar í lögum, að taka ákvörðun um það hverjum skuli greitt. Alþingi hefur skyldu til þess í tilviki sem þessu að höggva á hnútinn. Og mér finnast það léleg rök þegar sagt er að menn vilji fá lögfræðilega álitsgerð um það hvernig staða málsins sé án nokkurrar lagareglu. Auðvitað segir það sig sjálft að sú álitsgerð getur orðið býsna flókin og niðurstaðan hlýtur að vera sú að málið sé í hnút vegna þess að Alþingi hefur brugðist í þessu máli og ekki sett neina skýra reglu.
    Það var svo aftur upplýst á þessum fundi, sem var auðvitað það merkilegasta í málinu, að Stéttarsamband bænda mun mælast til þess við ráðuneytið að ábúendur fái greiðsluna ef báðir gera kröfuna, jarðareigandi og ábúandi, og lögfræðingar ráðuneytisins töldu þá líklegast að sú yrði niðurstaðan hvað ráðuneytið varðar. En þá er málið að sjálfsögðu ekki leyst því þá tekur ráðuneytið þá ákvörðun án þess að nokkur heimild sé í lögum, án þess að nokkur regla sé til að styðja sig við og mun nokkuð örugglega fá á sig býsna mörg mál vegna þess að jarðareigendur munu telja að ráðuneytið hafi ekki rétt til þess að greiða ábúandanum greiðsluna án þess að hafa samþykki sitt fyrir því. Þeir munu segja að þeir séu hlunnfarnir og þeir geta hugsanlega farið í skaðabótamál við ríkið ellegar reynt að leita réttar síns á öðrum grundvelli.
    Niðurstaða málsins var sem sagt sú að vegna þess hvað málið var illa undirbúið, vegna þess að við teljum okkur ekki hafa tíma hér í þinginu til þess að hugsa um málið, hvað þá að taka ákvörðun um það, þá neyðumst við til að fresta því. Það var hins vegar fullur skilningur á því meðal nefndarmanna að það þyrfti að setja lagaákvæði um þetta efni og ég held að efni þeirrar brtt. sem ég kynnti í nefndinni hafi átt talsvert miklu fylgi að fagna innan nefndarinnar eftir því sem þar kom fram. En niðurstaðan varð sem sagt sú að af hálfu nefndarinnar yrði því lýst yfir að málið yrði til frekari skoðunar á næstunni og hef ég þá frekar kosið að sætta mig við þá niðurstöðu þó ófullkomin sé heldur en að láta fella brtt. hér við 3. umr. málsins.