Framleiðsla og sala á búvörum

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 11:06:00 (3892)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra gerði það að meginatriði máls síns að þetta mál væri ekkert nýtt. Ég sagði það aldrei í minni ræðu hér áðan. Mér er það fullljóst að málið hefur valdið umræðum og vandræðum og áhyggjum á fundum og utan funda um margra mánaða skeið. Og það er einmitt kjarni þessa máls að menn eru búnir að vera að velta þessu á undan sér í langan tíma og þegar svo kemur að því loksins núna í febrúarlok 1992 að afgreiða lög þar sem í fyrsta skipti er kveðið á um fullvirðisrétt, þá er ekki tekið á þessu máli og þar hefur ráðuneytið brugðist.
    Við skulum átta okkur á því að það lögfræðilega álitaefni sem menn eru að tala um að sé hér komið upp stafar af því að Alþingi hefur ekki sett lög um málið til að skera úr um það. Orsökin er sem sagt hjá Alþingi og afleiðingin kemur fram í álitaefninu.
    Formaður Stéttarsambands bænda og lögfræðilegur ráðunautur ráðuneytisins upplýstu það hér áðan að til stæði að leysa úr þessu máli með þeim hætti að greiða greiðslurnar til ábúendanna ef ekki yrði samkomulag milli jarðareigenda og ábúenda. Ég verð að segja það ósköp einfaldlega að það væri miklu betra, miklu hreinlegra að Alþingi setti þá slíka reglu þannig að ráðuneytið hefði heimild til þess að borga út á grundvelli slíkrar reglu því að reglan sem ég hef hér verið að gera tillögu um er nákvæmlega sama reglan og ráðuneytið hyggst byggja á. Munurinn er bara sá að þegar ráðuneytið tekur sína ákvörðun, þá mun það gera það í algeru heimildarleysi og þá munu spretta hér upp málaferli vegna þess að greiðslan á sér stað í heimildarleysi og án þess að nokkur lagagrundvöllur sé fyrir hendi.
    Ráðherrann talaði síðan um það að fullvirðisrétturinn fylgdi gjarnan jörðunum og leiguliðinn hefði yfirleitt ekki skapað þennan rétt. Hann kæmi að jörðunum eins og þær væru og þá væri rétturinn á þeim. Þetta er auðvitað rétt. Þetta er langalgengast svona. En vandinn stafar einmitt af því að í mörgum tilvikum er þetta hins vegar á annan veg. Oft hefur leiguliðinn byggt upp þennan rétt á jörðunum og það er einmitt þess vegna sem ráðuneytið og lögfræðilegir ráðunautar þess og Stéttarsambandið telja sig til knúna að taka þá afstöðu að greiðslan eigi að ganga til ábúendanna.
    Ég vil svo segja það að lokum að ég hef aldrei sagt það að tillagan sem ég hef flutt um þetta mál hljóti að vera hin eina rétta lausn á vandanum. Það getur verið álitamál á hve löngum tíma eigi að fyrna

þennan rétt ábúandans. Ég nefndi tíu ár. Ég viðurkenni vel að þessi fyrningarregla er svona slumparegla eins og fyrningarreglur eru yfirleitt. En tillaga mín var ósköp einfaldlega sú aðferð sem ráðuneytið sjálft hefur valið sér. Ráðuneytið hefur valið nákvæmlega þessa reglu sem ég gerði tillögu um í samskiptum við ábúendur á ríkisjörðum og ég taldi eðlilegast að sú regla yrði látin gilda í öllum viðskiptum af þessu tagi.
    Ég tek það svo fram að ég er á engan hátt að áfellast landbn. fyrir það að vilja hugleiða þetta mál betur. Ég sætti mig alveg við þá niðurstöðu sem fengin er en tek það hins vegar fram, og þess vegna kom ég hér upp, að það er ekkert víst að landbn. ljúki sínu hlutverki fyrir þinglok í vor. Það liggur ekkert fyrir um það að þetta mál verði afgreitt sérstaklega hér í þinginu. En ef svo fer verð ég að segja að þá hefur Alþingi brugðist hlutverki sínu og skilið eftir lausa enda sem eiga eftir að valda talsverðum málarekstrum í framtíðinni.