Framleiðsla og sala á búvörum

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 11:14:00 (3894)

     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að það geti verið mikið álitamál hvort fullvirðisréttur flokkast undir eignarrétt eða afnotarétt og mér þykir harla ólíklegt að fullvirðisréttur verði nokkurn tímann talinn eignarréttur í skilningi stjórnarskrárinnar á þeim rétti. Þetta er réttur sem ríkisvaldið hefur skapað núna á allra seinustu árum, réttur sem ekki var til en ríkisvaldið hefur skapað. Það var auðvitað fullkomlega eðlilegt, sjálfsagt og reyndar nauðsynlegt fyrir löngu að ríkisvaldið sjálft setji þá fastar reglur um meðferð þess réttar sem það sjálft skapar. En að eiga að lúta skilningi ráðherrans í þessum efnum, að það sé eðlilegast að ríkið búi til rétt og sendi svo bara ágreiningsefni til dómstólanna til þess að láta menn rífast um það þar hver eigi réttinn í raun og veru vegna þess að ríkisvaldið tók ekki sjálft af skarið þegar það veitti þennan rétt, er auðvitað hin mesta fjarstæða og einmitt dæmi um vinnubrögð sem ég get ekki fellt mig við. Þess vegna hef ég kvatt mér hljóðs út af þessu máli.