Skaðabótalög

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 12:28:00 (3903)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Hv. 10. þm. Reykv. hefur komið í ágætri ræðu sinni inn á mörg þau atriði sem ég ætlaði að gera athugasemd við svo ég skal til að spara tíma ekki vera að endurtaka þau. Vissulega var tími til kominn að Alþingi fengi til meðferðar frv. til laga um skaðabótalög og ber svo sannarlega að fagna því. En auðvitað er um mjög flókna löggjöf að ræða sem verður svo sannarlega að vanda vel til eins og hæstv. ráðherra gat um hér áðan. Þar sem ég á ekki sæti í hv. allshn. ætla ég aðeins að minnast á örfá atriði.
    Það sem kemur strax fram í greinargerð með frv. og stingur í augu er þar sem talað er um hver séu meginmarkmið frv. en þar segir svo með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Meginmarkmið frv. eru þessi:
    1. Að endurbæta reglur um ákvörðun bóta fyrir tjón á mönnum, þar á meðal tjón vegna missis framfæranda.
    2. Að færa til nútímahorfs reglur um tengsl skaðabótaréttar og annarra bótaúrræða.
    3. Að setja lagaákvæði sem gera dómstólum kleift að taka eðlilegt tillit til hagsmuna þeirra sem valda tjóni eða bera af öðrum ástæðum skaðabótaábyrgð.``
    Einhvern veginn hljómar þetta þannig, eins og hv. 3. þm. Reykv. kom raunar inn á, að áherslan sé ekki í nógu miklum mæli á tjónþolann því að vissulega hljóta lög sem þessi fyrst og fremst að vera til þess gerð að tryggja réttindi þess sem verður fyrir tjóninu.
    Ég ætla ekki að endurtaka hér þau atriði sem hv. 10. þm. Reykv. minntist á um útreikning bótanna sjálfra og taflna um örorkustig. Það er auðvitað ljóst að þau geta aldrei verið einhlít. Ég vil taka undir það, bæði með hv. þm. og Jóni Erlingi Þorlákssyni, sem skrifaði greinina sem hv. þm. las, að ég held að nauðsynlegt sé að hafa lægstu bætur meira staðlaðar en þær hæstu. Þó er það heldur ekki einhlítt því að það gefur auga leið að miklu máli skiptir við hvað maður starfar sem t.d. missir framan af fingri --- það hljómar í fljótu bragði ekki sem mikil örorka og flestir komast vel áfram í lífinu þrátt fyrir það. En hafi svo illa viljað til að þar sé um að ræða hljómlistarmann, t.d. píanóleikara eða fiðluleikara, gerist málið alvarlegra. Það er því óhjákvæmilegt að sveigjanlegt mat sé á því hver áhrif örorkan hefur á alla framtíð mannsins miðað við það sem hann hefði annars gert. Ég hlýt að fagna því að hér er tekið meira tillit til möguleika á tekjum við örorkumat en áður hefur verið gert.
    Við höfum barist fyrir því alþýðubandalagsmenn allar götur síðan ég kom inn á hið háa Alþingi að örorkumat hjá Tryggingastofnun ríkisins gæti ekki verið og ætti ekki að vera og væri ekki samkvæmt lögum einungis læknisfræðilegt. Tryggingayfirlæknir í þeirri stofnun hefur barið hausnum við steininn, svo að það sé nú bara orðað eins og það er, og metið örorku á þann veg að einungis sé tekið tillit til hinnar læknifræðilegu örorku. Það er auðvitað fráleitt vegna þess að margur maðurinn sem situr í hjólastól og er mikið fatlaður hefur full tök á því að afla verulegra tekna. Þá er auðvitað engin ástæða til þess að hann njóti örorkubóta þó að honum beri auðvitað að fá einhvern kostnað greiddan vegna sérstöðu sinnar.
    Ég vil taka undir það að ég held að það sé ákaflega hæpið að lækka örorkubætur fólks á miðjum aldri. Ég er hrædd um að það sé dálítil fornaldarhyggja þar sem fjölmargir Íslendingar vinna langt fram yfir miðjan aldur og allflestir til sjötugs. Ég held að það geti varla verið bærilegra á nokkurn hátt fyrir manneskju á miðjum aldri að verða fyrir slysum og líkamstjóni en aðra. Ég held því að það sé atriði sem þyrfti að skoða og jafnframt, eins og hv. 10. þm. sagði, að fyrst og fremst sé tryggt jafnrétti allra Íslendinga, hvort sem það eru karlar eða konur, til bóta fyrir líkamstjón. Annað væri gersamlega fráleitt. Þess

vegna held ég að skoða verði 6. gr. mjög vel vegna þess að einhvern veginn á ég erfitt með að sætta mig við að unnt sé að miða við sexföld árslaun upp á 4,5 millj. kr. en síðan sé miðað við sexföld árslaun sem kannski eru langt undir 1 millj. kr. Ég held að þarna verði að reyna að finna einhverja vitrænni viðmiðun. Hitt er svo annað að í okkar landi er ákaflega erfitt að komast fram hjá því að skoða fleira en tekjur. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að líta líka til þess hvaða kvaðir hvíla á hinum slasaða og fjölskyldu hans þegar slysið verður. Það skiptir ekki litlu máli hvort hinn slasaði á skuldlaust húsnæði eða hvort hann hefur kannski verið nýlega byrjaður á að koma sér þaki yfir höfuðið. Ég held að grípa þurfi til einhverra ráða til að koma til móts við slíkt ef meiningin með þessum lögum er að tryggja það að fólk eigi kost á því að lifa svo sómasamlegu lífi sem unnt er þrátt fyrir slæma fötlun.
    Ég tek eftir því í 17. gr. þar sem talað er um endurkröfur --- ég tek fram að það kann að vera misskilningur minn og verður þá kannski leiðrétt --- að þar er talað um að endurkrafa vegna greiðslu bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar verði ekki gerð á hendur þeim sem er skaðabótaskyldur og sama eigi við um bótagreiðslur lífeyrissjóða eða vátrygginga. Hins vegar á vinnuveitandi sem greitt hefur þeim slasaða, eða þeim sem misst hefur framfæranda, laun eða aðrar launatengdar greiðslur vegna líkamstjóns, rétt á að krefja hinn skaðabótaskylda um endurgreiðslu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna þessi mismunun er gerð. Ég sé ekki af hverju hinn almenni skattborgari á ekki alveg eins að eiga endurkröfurétt eins og vinnuveitendur. Nú kann að vera að ég sé eitthvað að misskilja en þó varla því að ég sé það að í almennum ákvæðum er gert ráð fyrir að 59. gr. almannatryggingalaga falli úr gildi.
    Ég held þó að hér sé vissulega hið merkasta frv. á ferðinni. Ég tel líka að það hljóti að eiga hér allnokkra framtíð í hv. allshn. því að ég er ekki í vafa um að leggja þarf fram mikla vinnu til að við fáum vönduð og góð lög um skaðabótarétt sem svo lengi hefur vantað í okkar landi. Ég vil því vona að þetta mál fái vandaða meðferð og við þingmenn Alþb. munum svo sannarlega greiða því götu ef við getum sætt okkur við þá afgreiðslu sem það hlýtur í hv. allshn.