Umferðarlög

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 12:56:01 (3909)

     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá meiri hluta hv. allshn. með frv. til laga um breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, á þskj. 446 og brtt. á þskj. 447. Með leyfi forseta mun ég gera grein fyrir þessu áliti. Þar er byrjað að telja upp fjölda gesta sem komu á fund nefndarinnar og allar þær umsagnir og bréf sem bárust nefndinni en síðan segir orðrétt:
    ,,Í frumvarpinu er lagt til að Umferðarráð skuli hafa með höndum umsjón með ökunámi og eftirlit með ökukennslu og annast ökupróf, undir yfirstjórn dómsmálaráðuneytisins. Það samræmist hlutverki stofnunarinnar og þeirri þekkingu á umferðarmálum sem hún hefur yfir að ráða. Þessi tilhögun skapar og tengsl milli stofnunarinnar og ökunema, foreldra og ökukennara og eykur þannig möguleika hennar á að ná árangri í starfi sínu. Í dómsmálaráðuneytinu er nú unnið að setningu reglugerðar um ökuskírteini, ökukennslu, próf ökumanna o.fl. Meiri hluti nefndarinnar telur nauðsynlegt að þar verði kveðið á um þær gæðakröfur sem gera á til ökunámsins, m.a. að því er varðar námsskrár og námsefni og þær kröfur sem þeir aðilar verða að uppfylla sem ætla að annast ökukennslu. Auk faglegra sjónarmiða mæla rekstrarleg sjónarmið með því að færa umsjón ökukennslu frá Bifreiðaprófum ríkisins til Umferðarráðs. Fjárhagslega hagkvæmara er að starfrækja eina stofnun á þessu sviði en tvær.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    1. Lagt er til að Áhugahópur um bætta umferðarmenningu fái sæti í Umferðarráði. Þau samtök hafa auk þess félagsskapar sem getið er í 2. gr. frumvarpsins óskað eftir að eiga fulltrúa í Umferðarráði. Þykja engar ástæður vera í vegi fyrir því. Umferðarráð er fyrst og fremst vettvangur umræðu um umferðarmál og er eftirsóknarvert að sem flestir sem hlut eiga að máli eigi rödd í ráðinu. Eðlilegt er að það verði athugað við almenna endurskoðun á umferðarlögum sem nú stendur yfir.
    2. Lagt er til að síðasti málsliður 3. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins falli brott. Niðurlag þess málsliðar, sem kveður á um að samþykki dómsmálaráðuneytisins þurfi til ráðningar starfsfólks Umferðarráðs, hefur sætt nokkurri gagnrýni. Bent hefur verið á að heppilegra sé að Umferðarráð geti ráðið til sín starfsfólk án samþykkis ráðuneytisins. Nefndin styður það sjónarmið. Ef niðurlagi málsliðarins er sleppt þykir rétt að fella hann allan niður. Í ákvæðinu er þá einungis getið um frávik frá því sem annars mundi vera, þ.e. að skipun framkvæmdastjóra megi vera tímabundin, en um annað fer eftir almennum stjórnsýslureglum.
    3. Lagt er til að lögin taki gildi 1. maí 1992. Ákvæði 5. gr. frumvarpsins um gildistöku á ekki lengur við.``
    Og undir álitið rita Sólveig Pétursdóttir, Björn Bjarnason, Eyjólfur Konráð Jónsson, Ingi Björn Albertsson, Össur Skarphéðinsson og Anna Ólafsdóttir Björnsson, sú síðastnefnda með fyrirvara.
    Virðulegur forseti. Ég mun nú víkja fremur að efni þessa frv. og ekki verður hjá því komist að víkja nokkuð að áliti þeirra þriggja nefndarmanna sem skilað hafa minnihlutaáliti. Fjölmargar umsagnir bárust nefndinni og voru þær í heild sinni mjög jákvæðar í garð þessa frv. Þó komu fram ýmsar ábendingar sem tekið var tillit til, bæði í þeim brtt. sem hér eru gerðar og eins í nál. þar sem meiri hluti nefndarmanna vekur m.a. athygli á nauðsyn þess að í reglugerð verði kveðið á um þær gæðakröfur sem gera þarf

til ökunáms. Þeir sem koma til með að móta og hafa eftirlit með ökukennslu og ökuprófum þurfa vissulega að hafa nokkra sérþekkingu á því sviði. Í þessum málaflokki þarf að vanda vel til verka.
    Í greinargerð með frv. er m.a. vakin athygli á því að fjárhagslega sé hagkvæmara að reka eina stofnun á sviði umferðarfræðslu en tvær og ein stærri stofnun hefur meiri möguleika á að byggja upp þekkingu og fagmennsku en tvær minni stofnanir þannig að fagleg og rekstrarleg rök fari saman í þessu máli. Þó að nú sé reynt að gæta sparnaðar á sem flestum sviðum, enda full ástæða til, þá eru það ekki meginrökin í þessu máli. Það er lögð mest áhersla á hina faglegu hlið þessarar breytingar, þ.e. að efla starfsemi Umferðarráðs því að eins og öllum er kunnugt er forvarnarstarf og fræðsla afar mikilvægur þáttur í ökuámi. Þetta sjónarmið tóku umsagnaraðilar almennt undir. Í nefndinni var samt nokkuð rætt um fjárhagslega hlið þessa máls og hvort nýleg hækkun á prófgjöldum ökumanna ætti að einhverju leyti að standa undir auknum umsvifum Umferðarráðs. Varleg áætlun gerir ráð fyrir því að sú hækkun skili um það bil 8,5 millj. kr. hækkun sértekna til Umferðarráðs sem er nokkuð umfram markmið fjárlaga. Hvernig fjárhagsleg útkoma verður skiptir í sjálfu sér ekki máli fyrir þá skipulagsbreytingu sem frv. gerir ráð fyrir en meiri hluti nefndarmanna vill þó minna á að forvarnir í umferðarslysamálum er fræðsla og eftirlit sem kostar peninga og að því verður að hyggja í svo mikilvægum málaflokki. En varðandi hækkunina á prófgjöldunum er rétt að geta þess að þau hafa staðið óbreytt í tvö ár.
    Ýmsir eru á þeirri skoðun að ekki sé óeðlilegt að ökumenn taki þátt í kostnaði við umferðarfræðslu. Það eru náttúrlega ekki bara 17 ára unglingar enda þótt þeir séu í meiri hluta þeirra sem próf taka. En að halda því fram eins og minni hlutinn gerir í sínu áliti að ætlunin sé að láta 17 ára unglinga borga brúsann við starfsemi Umferðarráðs í stað framlags úr ríkissjóði þykir mér furðulegt. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp setning úr áliti minni hlutans en þar segir m.a.:
    ,,Þessi tekjuöflun ríkisstjórnarinnar er að sjálfsögðu í takt við þau úrræði ríkisstjórnarinnar sem komið hafa fram á mörgum öðrum sviðum, að gott sé að sækja fjármagn sérstaklega til nemenda til að bæta stöðu ríkissjóðs.`` Það er miður ef málaflokkur sem þessi, sem þarf málefnalega umfjöllun, skuli gerður að pólitísku bitbeini vegna ákvarðana sem Alþingi hefur fyrir löngu samþykkt með fjárlögum. Það er líka athyglisvert að engar athugasemdir komu fram við afgreiðslu fjárlaga við lið 301 um umferðarmál sem minni hlutinn gagnrýnir nú í sínu áliti.
    Þá má einnig geta þess að fskj. IV frá lögreglustjóranum í Reykjavík sem minni hlutinn lét fylgja með sínu áliti fjallar ekkert um þetta frv. sem hér er mælt fyrir heldur er þar getið nokkurra atriða sem athuga mætti við heildarendurskoðun umferðarlaga.
    Í nefndinni var rætt um hlutverk Umferðarráðs og nauðsyn þess að sem flestir hagsmunaaðilar ættu þar aðild að. Á þeirri forsendu er m.a. lagt til að Landssamband ísl. akstursíþróttafélaga og Áhugahópur um bætta umferðarmenningu fái sæti í ráðinu. Kemur hugsanlega til álita við síðari lagabreytingar að hverfa frá þeirri skipan að telja upp í lögum þá sem eiga fulltrúa í Umferðarráði. Væri þannig komið til móts við þau sjónarmið sem landlæknir bendir á í umsögn sinni að æskilegt væri að fulltrúar ýmissa hópa fengju aðild að ráðinu. Hér er því ekki verið að bregða fæti fyrir þátttöku áhugafólks heldur þvert á móti verið að efla starfsemi þeirra. Áhugasamtök hafa haft heilmikið að segja en sum þeirra hafa reyndar viljað starfa fyrir utan Umferðarráð og að sjálfsögðu hafa þau fullt frelsi til þess.
    Í þessu sambandi er rétt að ítreka það sem segir í áliti meiri hlutans um 1. brtt. en þar segir:
    ,,Umferðarráð er fyrst og fremst vettvangur umræðu um umferðarmál og er eftirsóknarvert að sem flestir sem hlut eiga að máli eigi rödd í ráðinu. Eðlilegt er að það verði athugað við almenna endurskoðun á umferðarlögum sem nú stendur yfir.``
    Þetta orðalag er skýrt og fer varla á milli mála hvað átt er við. Þar að auki má benda á 112. gr., 2. mgr. umferðarlaga sem hljóðar svo:
    ,,Umferðarráði ber að hafa samvinnu við þá aðila, félög, samtök og stofnanir sem fjalla um umferðarmál í landinu og láta sig umferðaröryggi varða.`` Það er ekki verið að breyta þessari lagagrein.
    Þá þykir mér rétt að víkja nokkuð að umsögn landlæknis sem prentuð er sem fskj. II með áliti minni hlutans og vakið hefur nokkra athygli. Í 2. mgr. 113. gr. umferðarlaga er talið upp hverjir eiga sæti í Umferðarráði. Það eru eftirtaldir aðilar: Bandalag ísl. leigubifreiðastjóra, Bifreiðaeftirlit ríkisins, Bílgreinasambandið, Bindindisfélag ökumanna, dóms- og kirkjumrn., Félag ísl. bifreiðaeigenda, heilbr.- og trmrn., Landssamband vörubifreiðastjóra, landssambönd klúbbanna Öruggur akstur, lögreglustjórinn í Reykjavík, menntmrn., Reykjavíkurborg, Samband ísl sveitarfélaga, Samband ísl. tryggingafélaga, Slysavarnafélag Íslands, Vegagerð ríkisins, Ökukennarafélag Íslands og Öryrkjabandalag Íslands. Þar að auki munu bætast við þeir tveir hópar sem áður hefur verið getið ef frv. verður að lögum.
    Dómsmrh. skipar fulltrúa eftir tilnefningu, þ.e. hóparnir sjálfir velja sína fulltrúa þannig að það er alfarið þeirra mál hvort um er að ræða konu eða karl eða hver aldur þeirra er. Landlæknir ætti því að beina ábendingum sínum til þeirra hópa sem aðild eiga að ráðinu. Þótt hann telji viðbrögð stjórnmálamanna stundum treg, þá er varla við þá að sakast í þessu máli en landlæknir á að ég held sjálfur aðild að Umferðarráði, skipaður af heilbr.- og trmrn. Hitt er annað mál að vafalaust má taka undir orð framkvæmdastjóra Umferðarráðs um þennan málaflokk að gagnrýni sé ávallt til góðs.
    Nú stendur yfir heildarendurskoðun á umferðarlögunum sem hafa verið í gildi í tæp fjögur ár og vænta má að frv. þess efnis verði lagt fyrir Alþingi á þessu vorþingi. Þessari endurskoðun hefur þó ekki

enn verið lokið. Þótt vissulega megi taka undir það sjónarmið að oft fari betur á því að allar breytingar á stórum lagabálkum komi fram í heild sinni, þá eru rök fyrir því að sú skipulagsbreyting sem hér er lögð til sé tekin fyrir nú þegar. Brýnt þykir að breytingin taki gildi svo fljótt sem auðið er því að málefni, sérstaklega Bifreiðaprófa ríkisins, eru í nokkurri óvissu þar til breytingin gengur eftir og Bifreiðapróf sameinast Umferðarráði. Það eru enda engin nýmæli að breytingar séu gerðar á umferðarlögum í einstaka atriðum. Það var gert 1988 þegar heimild var veitt til að fela hlutafélagi að annast verkefni Bifreiðaeftirlits ríkisins og 1990 þegar lögfest var notkun öryggisbeltis í aftursæti bifreiða. Það er því ekki hægt að fallast á þau rök minni hlutans í nefndinni að vísa þurfi málinu til ríkisstjórnarinnar þar til heildarendurskoðun á umferðarlögunum liggi fyrir.
    Þá er rétt að benda á það að umferðarlög þurfa nánast sífellt að vera í endurskoðun þar sem umhverfi okkar er alltaf að breytast, umferðin eykst, bílarnir verða hraðskreiðari og tækninni fleygir fram í þróun margvíslegra ökutækja og öryggisbúnaðar.
    Minni hluti nefndarinnar gagnrýnir það að í 2. gr. frv. sé kveðið á um að Bifreiðaskoðun Íslands hf. skuli tilnefna fulltrúa í Umferðarráð í stað Bifreiðaeftirlits ríkisins. Því er til að svara að það hlýtur að teljast mikilvægt öryggisatriði að fá þá aðila inn í ráðið sem sjá um að bifreiðarnar séu í lagi. Minni hlutinn telur einnig að ákvæði 3. gr. frv. muni breyta Umferðarráði í algera ríkisstofnun. Umferðarráð er stofnun sem kostuð er af ríkinu, m.a. skv. 2. mgr. 115. gr. umferðarlaga, og hlýtur því að teljast ríkisstofnun. Ég veit a.m.k. ekki um aðrar skilgreiningar á þessu orði.
    Eina breytingin sem lögð er til á fimm manna stjórn Umferðarráðs er að dómsmrh. mun nú skipa stjórnina, formann og varaformann eins og hann gerir nú þegar og einn fulltrúa til viðbótar úr ráðinu en ráðið sjálft mun tilnefna tvo fulltrúa. Þessi breyting ætti öllu fremur að gera störf Umferðarráðs markvissari. Þá má heldur ekki gleymast að skrifstofa og starfsfólk Umferðarráðs hefur mjög mikilvægum störfum að gegna þannig að það eru ekki einvörðungu fulltrúar hagsmunahópa í ráðinu sem vinna að umferðarmálum og fræðslu í þeim efnum.
    Frv. þetta felur fyrst og fremst í sér að lögfest verði breyting á hlutverki Umferðarráðs að því er verkþætti varðar og nauðsynlega breytingu á yfirstjórn ráðsins svo að það verði betur fært um taka að sér hið nýja verkefni. Í 3. gr. frv. er því verið að styrkja stöðu og ábyrgð framkvæmdanefndar sem stjórnarstofnunar vegna hinna nýju verkefna Umferðarráðs. Meiri hluta nefndarinnar þótti þó ekki ástæða til þess að kveðið væri sérstaklega á um það að dómsmrn. þyrfti að samþykkja ráðningu starfsfólks en á þetta atriði var einnig bent af hálfu ýmissa umsagnaraðila.
    Virðulegi forseti. Aukið umferðaröryggi er meginmarkmið skipulagsbreytingarinnar sem nú er gerð með þeirri breytingu á umferðarlögunum að færa eftirlit með ökukennslu, ökuprófum og gerð kennsluefnis til Umferðarráðs. Það markmið liggur að baki þeirri hugmynd að þróa framkvæmd þessa málaflokks frekar á vettvangi Umferðarráðs. Umferðarráð gegnir nú þegar því hlutverki að stuðla að öruggari umferð, bættum umferðarháttum og aukinni umferðarmenningu.
    Ökukennsla er einn þáttur umferðarfræðslu og það mun auka möguleika Umferðarráðs á að ná árangri í starfi sínu að geta náð betur til ökunema með sinni fræðslu. Aukin tengsl Umferðarráðs, ökunema, nýrra ökumanna og ökukennara geta líka nýst til að koma upplýsingum og viðhorfum á framfæri og efla þannig umferðarvitund og umferðaröryggi. Með þessu frv. er líka verið að koma til móts við það sjónarmið að í ökufræðslunni eigi umferðin að vera meginviðfangsefnið fremur en bifreiðin sjálf og tæknibúnaður hennar. Aðalatriðið er að með sameiningu þeirrar skyldu starfsemi sem Umferðarráð og Bifreiðapróf hafa haft á hendi sé þessum málum komið fyrir á hagkvæman hátt í faglegu og fjárhagslegu tilliti. Umferðarfræðsla verði markvissari og þjónusta við ökunema batni þannig að markmiðið um aukið umferðaröryggi verði að veruleika en það hlýtur að vera takmark okkar allra.
    Að lokum ítreka ég það álit meiri hluta nefndarmanna sem mælt hefur verið fyrir og vona að hv. þm. veiti þessu frv. brautargengi sem allra fyrst.