Umferðarlög

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 13:16:00 (3911)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil hér gera grein fyrir fyrirvara mínum við það nál. sem meiri hluti allshn. lagði fram. Ég lít svo á að þetta mál sé tvíþætt. Annars vegar er verið að gera ákveðnar skipulagsbreytingar og þær tel ég vera til bóta. Hins vegar gagnrýni ég harðlega þá útfærslu sem stjórnvöld hafa valið nú. Hún varðar fjármögnun Umferðarráðs eftir skipulagsbreytinguna. Ég tel að það sé mjög háskalegt ef farið verður út í að skerða framlög ríkisins til Umferðarráðs í kjölfar þessarar skipulagsbreytingar. Hins vegar er ekkert í frv. sjálfu sem festir það að sá háttur verði hafður á þannig að ég get ómögulega verið á móti máli sem ég er efnislega sammála. En ég ítreka það að ég gat ekki skrifað undir nál. nema með fyrirvara vegna þessarar framkvæmdar sem ég tel til háborinnar skammar. Mér þykir ekki verjanlegt undir nokkrum kringumstæðum að hækka sérstaklega gjöld vegna ökuprófs og þar með skattleggja hóp sem er að mestum hluta samsettur af unglingum eins og komið hefur fram hér. Ég tel ekki að neinar málsbætur séu fyrir slíkri ákvörðun og ég get ekki tekið undir slíkt.
    Hins vegar er ég afskaplega sammála þeirri kerfisbreytingu sem hér er verið að gera og ég tel hana ekki síst mikilvæga vegna þess að með henni er verið að setja samfellu á milli umferðarfræðslu og umferðaráróðurs á öllum aldursstigum vegna þess að það er ekkert launungarmál að einn af bestu og árangursríkustu þáttunum í starfsemi Umferðarráðs er fræðsla, t.d. til ungra vegfarenda. Þetta skiptir verulegu máli. Ég tel að það sé mikilvægt að sami aðili hafi umsjón með umferðarfræðslu allt frá því að ung börn fá að njóta hennar og þar til komið er að því stigi að fólk fer út í umferðina sem ökumenn. Ég get ekki séð annað en það hljóti að vera til góðs. Ég get vissulega tekið undir þá gagnrýni að áreiðanlega megi bæta eitthvað liðsskipan í Umferðarráði en það er ekkert sem kemur í veg fyrir það í þessu frv., síður en svo.
    Ég er ekki ein um það álit að þarna sé um jákvæða kerfisbreytingu að ræða. Ég fór lauslega í gegnum umsagnir áður en ég kom hér í pontu. Það hefur þegar komið fram hverjar athugasemdir landlæknis eru efnislega og ég geri ráð fyrir að það sé mjög auðvelt að sjá það í nál. hv. minni hluta allshn. En ég vil vekja athygli á því að Félag ísl. bifreiðaeigenda telur þessa kerfisbreytingu framfaraspor. Öryrkjabandalagið lýsir sig jákvætt og telur Umferðarráð vel fært um að taka við þessu hlutverki. Stjórn Bandalags ísl. leigubílstjóra fagnar þessum breytingum. Ökukennarafélagið sendi mjög jákvæða umsögn en gerir athugasemdir við ákveðin efnisatriði sem fyllilega er ástæða til að líta á þar sem endurskoðun á umferðarlögum fer fram. Bílgreinasambandið lýsir sig fylgjandi þessari breytingu, Samband ísl. sveitarfélaga mælir með frv., Vegagerðin tekur fram að hún gerir ekki athugasemdir við það. Námsstjóri í umferðarfræðslu styður það að Umferðarráð sjái um ökupróf og telur það vera til góðs. Samband ísl. tryggingafélaga lýsir eindregnum stuðningi við að færa ökupróf og umsjón ökunáms til Umferðarráðs. Landssamband ísl. akstursíþrótta er sammála efni frv. og Slysavarnafélagið lýsir sig samþykkt efni frv. Ég stikla hér í gegnum þær umsagnir sem ég greip með mér. Það kom líka fram í nefndinni að engir mæltu gegn þessari tilteknu kerfisbreytingu en mjög margir voru meðmæltir henni. Athugasemdir voru gerðar við 3. mgr. 3. gr. í mjög mörgum ef ekki öllum umsögnum sem á annað borð fjölluðu eitthvað um 3. gr. Sú athugasemd var tekin til greina. Ákvæði sem kvað á um það að dómsmrn. hefði þarna óeðlilegan íhlutunarrétt varðandi ráðningar starfsfólks Umferðarráðs var gagnrýnt. Alveg þótti óþarfi að það þyrfti samþykki dómsmrn. til ráðningar starfsfólks Umferðarráðs enda hefur hér verið gerð grein fyrir því að ríkisvaldið hefur möguleika á því að stýra þessari ríkisstofnun.
    Varðandi breytt hlutverk Umferðarráðs sem margir hafa talað um að væri e.t.v. til hins verra, að hlutverk ráðsins væri of stofnanagert þar sem það hefði þetta mikilvæga hlutverk með höndum, þá er alls ekki sjálfgefið með þessu frv. að dregið verði úr virkni Umferðarráðs í umferðarfræðslu. Þvert á móti held ég að Umferðarráð hafi betri aðstöðu til að koma sinni fræðslu á framfæri og það hlýtur óhjákvæmilega að vera mjög heppilegt að umferðarfræðsla og umferðaráróður séu í fleiri en einum farvegi á hverjum tíma. Ég vil sérstaklega taka það fram að við hliðina á þessari kerfisbundnu fræðslu sem Umferðarráð hefur sinnt með miklum sóma að mínu mati, þá hafa áhugasamtök ævinlega sprottið upp, oft vegna sérstakra tíðinda í umferðinni og ég tel það mjög jákvætt. Þess vegna held ég að það sé mjög gott ef af verður að opna Umferðarráð fyrir slíkum hópum eins og raunar hefur verið gert formlega núna með því að Áhugahópur um bætta umferðarmenningu mun eiga aðild að Umferðarráði eftir þessa breytingu. En ég sé heldur ekkert óeðlilegt við það og tel það reyndar mjög heppilegt að óháðir hópar starfi utan við Umferðarráð, veiti því aðhald og veki sérstaklega athygli á þeim þáttum sem betur mættu fara. Ævinlega þarf í svona viðkvæmum málaflokki að hafa mjög ríka möguleika á því að benda á það sem miður fer og það er betur gert ef menn eru ekki inni í þeirri stofnun sem sér um hina formlegu fræðslu sem fer fram á vegum ríkisins. Þetta finnst mér nauðsynlegt að komi fram og ekki síst vegna fyrirvara míns.
    Ég legg ríka áherslu á að því aðeins verður hlutverk Umferðarráðs rækt af einhverri reisn og einhverjum myndarskap að fjárveitingar til áróðurs og fræðslu verði ekki skertar og að ekki verði skapað neikvætt andrúmsloft gagnvart Umferðarráði, t.d. með því að fólk fari að líta á þetta sem peningahít sem þurfi að greiða ógnarupphæðir í bara til þess að fá nauðsynlegt ökupróf. Því aðeins nær þessi jákvæða breyting sínum tilgangi að farið verði myndarlega með fjárveitingar af hálfu ríkisins til Umferðarráðs og ekki

farið út á þá háskalegu braut að láta ökupróf fara að standa undir nauðsynlegri umferðarfræðslu hér í landinu.