Vegáætlun 1991--1994

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 15:13:00 (3927)

     Sturla Böðvarsson :
    Frú forseti. Tillaga til breytinga á vegáætlun fyrir árin 1991--1994 er til umræðu og vil ég nota tækifærið og ræða okkur atriði sem lúta að vegamálum og hljóta að koma til umræðu þegar vegáætlun er til endurskoðunar.
    Á 113. löggjafarþingi var samþykkt þáltill. sem lagt er til að verði gerðar breytingar á. Á því sama þingi var til umfjöllunar svokölluð langtímaáætlun í vegagerð sem ekki hlaut afgreiðslu þá en var samt sem áður fjallað nokkuð ítarlega um, bæði í þinginu og í þingnefnd, þ.e. hv. fjárveitinganefnd, sem þá var. Í

tengslum við brtt. á vegáætlun vil ég gera þætti, sem fram komu í umræðum um langtímaáætlun, örlítið að umtalsefni. En að sjálfsögðu náði langtímaáætlun um vegagerð til þessa tímabils, áranna 1991--1994. Áður vil ég segja að í sjálfu sér er það ekki sérstakt áhugamál mitt að fjalla um miklar breytingar á vegáætluninni í þá veru að lækka útgjöld til vegamála. Engu að síður hljótum við að takast á við þau verkefni sem við höfum fyrir okkur í dag í ljósi staðreynda um þjóðarhag og ástands í ríkisfjármálum með minnkandi þjóðartekjum. Samt er ástæða til þess að vekja athygli á því sem fram kom fyrr í umræðunum að oft er litið til þess hversu mikið fjármagn fer til vegagerðar hverju sinni miðað við þjóðartekjur og það kom fram hjá einum hv. þm. að árið 1990 var 1,46% af þjóðartekjum varið til vegamála og árið 1991 var áætlað 1,44%. Miðað við áætlaðar þjóðartekjur, miðað við þjóðhagsspá í desember, er þetta hlutfall 1,57%. Auðvitað vitum við að um lækkun í krónutölu er að ræða á föstu verðlagi en engu að síður hljótum við að verða að taka tillit til þjóðartekna þegar við ræðum um útgjöld til vegamála eins og þegar við fjöllum um alla aðra þætti í útgjöldum ríkisins.
    Fyrr í ræðu minni nefndi ég það sem fjallað var um í langtímaáætlun til vegagerðar en vegáætlun er mjög mikilvægur þáttur í okkar þjóðmálum. Vegamál lúta auðvitað að uppbyggingu atvinnulífsins um allt land. Miklu máli skiptir fyrir atvinnuvegina hvernig samgöngur eru. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það. Einnig skiptir mjög miklu máli hvernig uppbygging vegakerfisins er þegar við gerum áætlanir til lengri tíma um þróun byggðar í landinu. Nefna má mörg dæmi um það, t.d. þá miklu samgöngubót sem varð með Ólafsfjarðargöngum. Ég trúi því að það hafi haft afgerandi þýðingu fyrir byggðirnar við Eyjafjörð þegar Ólafsfjarðargöngin opnuðust. Ég er viss um að það mundi hafa mjög afgerandi þýðingu fyrir atvinnumál á norðanverðu Snæfellsnesi ef samgöngur væru betri en þær eru á milli sjávarbyggðanna, þar sem þær eiga nú, eins og margar sjávarbyggðir, mjög undir högg að sækja í atvinnulegu tilliti. Þess vegna hljótum við alþingismenn að líta mjög til uppbyggingar í vegakerfinu þegar við fjöllum um atvinnumál. Um það þarf ekki að fara mjög mörgum orðum.
    Þegar litið er til þess og reynt að meta ástand vegakerfisins er í dag þá verðum við því miður að viðurkenna, þrátt fyrir að mjög mikilvægir áfangar hafi náðst, að vegakerfið á Íslandi er um margt mjög á eftir og í rauninni vanþróað miðað við marga aðra þætti þjóðfélagsins þar sem hafa orðið miklar framfarir á undanförnum áratugum. Mjög víða er því verk að vinna í samgöngumálum, ekki síst í vegamálum. Og sérstaklega má líta til þess þegar við horfum til ferðaþjónustu sem atvinnugreinar. Talað er um að ferðaþjónusta sé einn af mikilvægustu kostum okkar til atvinnuuppbyggingar í landinu. En það er deginum ljósara að við getum ekki búist við miklum árangri í því að efla ferðaþjónustu og ekki búist við því að draga mikið af erlendum ferðamönnum til landsins á næstu árum ef ekki verður gert verulegt átak í því að bæta vegasamgöngur í Íslandi. Ég held að allir séu á einu máli um það og að ekki þurfi að hafa mörg orð um það.
    Þegar fjallað var um langtímaáætlun í vegagerð hafði nefnd, sem hæstv. þáv. samgrh. skipaði og í voru fulltrúar úr öllum stjórnmálaflokkum, starfað um nokkurn tíma. Nefndin lagði fram tillögur og mótaði þau markmið sem gert var ráð fyrir að vinna eftir við uppbyggingu vegakerfisins þau 12 ár sem gert var ráð fyrir að áætlunin næði til. Í þessum markmiðum sem fram koma í till. til þál. um langtímaáætlun í vegagerð segir, með leyfi forseta:
    ,,Við gerð áætlunarinnar er miðað við, að atvinnu- og skólasvæði verði tengd saman í samgöngusvæði eftir því sem unnt er. Skil milli samgöngusvæða markast af fjallvegum, víðáttumiklu strjálbýli eða eyjasundum. Samgöngusvæði skal almennt ekki vera stærra en svo, að fjarlægð innan þess að þjónustumiðstöð sé ekki meiri en 70 km á norðanverðu landinu og 100 km á sunnanverðu landinu. Er þá verið að taka tillit til snjóþyngsla og veðráttu.
    Vetrarþjónusta taki mið af samgöngusvæðum. Þannig er þjónustan best innan samgöngusvæða og stefnt að því á áætlunartímanum að halda stofnbrautum þar opnum alla virka daga, og alla daga þar sem umferð er mikil. Á milli nágrannasvæða verði opnað 3--5 sinnum í viku, þar sem tiltækilegt þykir. Sama opnunartíðni verði á hringveginum og helstu stofnbrautum út frá honum.
    Að öðru leyti skal stefnt að eftirtöldum jafngildum markmiðum:
    1. Stofnbrautir hafi fullt burðarþol (10 t) allt árið, svo og þýðingarmeiri þjóðbrautir. Við nýbyggingar vega og brúa á þessum leiðum skal miða við 11,5 t öxulþunga. Aðrir opinberir vegir hafi að lágmarki 7 t burðarþol.
    2. Vegir séu byggðir upp úr snjó eftir því, sem unnt er, og með tilliti til vetrarþjónustu, sem veita á skv. því, sem rakið er hér á undan.
    3. Bundið slitlag sé lagt á allar stofnbrautir svo og þær þjóðbrautir, þar sem gera má ráð fyrir að umferð verði meiri en 100 bílar á dag.
    4. Á umferðarmestu þjóðvegum séu byggð umferðarmannvirki, sem tryggi greiða umferð bifreiða og öðrum vegfarendum öryggi.
    5. Tekið sé tillit til umferðaröryggis við byggingu og viðhald vega. Vegagerð ríkisins skal vinna að því að draga úr umferðarslysum, og sé leitað samvinnu við aðra aðila sem fást við þau mál. Stefnt verði að því að umferðarslys með meiðslum verði færri í lok áætlunartímans, en þau eru nú, þrátt fyrir aukningu í umferð, sem búist er við.
    6. Vegfarendum séu veittar upplýsingar og önnur þjónusta, sem miði að greiðum og öruggari samgöngum.``
    Með þessum tilvitnunum um markmið í langtímaáætlun, sem vegáætlun er hluti af, hlýtur okkur að vera ljóst að mjög langt er í land með að framangreindum markmiðum sé náð. Þess vegna hljótum við að harma að ekki skuli takast að halda þeim áætlunum sem við höfum sett okkur um vegaframkvæmdir. En eins og ég nefndi fyrr verðum við að sjálfsögðu að semja okkur að þeim staðreyndum sem efnahagslífið setur okkur. Þess vegna fjöllum við um endurskoðun á þeirri vegáætlun sem nú er til umfjöllunar.
    Samt sem áður hljótum við að leita allra leiða til að hraða þessum vegaframkvæmdum þannig að ekki dragist langt fram á næstu öld að ná þeim mikilvægu markmiðum sem vitnað er til úr langtímaáætluninni.
    Við afgreiðslu fjárlaga var gert ráð fyrir að vegáætlun yrði endurskoðuð. Við fáum það viðfangsefni í þinginu núna að taka hana upp og semja hana að þeim forsendum sem við settum okkur við afgreiðslu fjárlaganna. Engu að síður tel ég nauðsynlegt miðað við núverandi aðstæður að leita allra leiða til þess að nálgast sem mest að halda vegáætluninni og skoða, ekki síst með tilliti til ástands í atvinnumálum þjóðarinnar, hvort nokkur leið sé til þess að auka fjármagn til vegagerðar þó það verði líklega ekki hægt eins og hlutirnir standa núna.
    Fyrr við umræðuna var samningur við Reykjavíkurborg, sem gerður var af fyrri ríkisstjórn rétt fyrir kosningar sl. vor, gerður að umræðuefni. Ekki er óeðlilegt að sá samningur hafi komið til umræðu en ég vil leggja áherslu á að samninga sem ríkið gerir við sveitarfélög á að halda. Og að sjálfsögðu hljótum við að leggja áherslu á að staðið verði við þann samning þó hann hafi komið mörgum á óvart, ekki síst vegna þess að hann var gerður á þeim tíma þegar unnið var að gerð vegáætlunarinnar. Í þessu sambandi vil ég nefna að nú þegar vegalög verða endurskoðuð, en nú mun vera starfandi nefnd við það verkefni, tel ég nauðsynlegt að taka lögin um þjóðvegi í þéttbýli til athugunar og skoða með hvaða hætti ríkisvaldið kemur inn og tekur þátt í kostnaði við gerð þjóðvega í þéttbýli og að endurmetið og endurskoðað verði hvaða samgönguæðar innan mesta þéttbýlisins sé eðlilegt að Vegasjóður greiði hluta í. Gagnrýnt hefur verið og fer ekkert á milli mála að hinir ólíklegustu vegir, jafnvel húsagötur, á höfuðborgarsvæðinu séu skilgreindir sem þjóðvegir í þéttbýli sem ríkissjóður greiðir kostnað við. Þetta þarf auðvitað að skoða og ég legg á það áherslu að þegar vegalög verða endurskoðuð verði þetta sérstaklega tekið upp.
    Að undanförnu hefur mjög mikið verið rætt um stórframkvæmdir í vegamálum. Þar má nefna göng undir Hvalfjörð. Á vegum hlutafélags sem stofnað var og nefnist Spölur hefur verið unnið mjög merkilegt starf að undirbúningi þess að koma á göngum undir Hvalfjörð. Það yrði auðvitað mjög mikilvæg samgöngubót og kæmi öllum landsmönnum að notum. Í því sambandi vil ég nefna að bættar samgöngur, þar á meðal samgöngur út frá mesta þéttbýlinu í landinu, skipta þjóðina mjög miklu máli. Auðvitað er deginum ljósara að allir flutningar til og frá mesta þéttbýlinu, stærsta markaðssvæðinu, hljóta að vera mjög mikilvægir. Á næstunni hlýtur því að verða litið til þess hvaða möguleikar séu á að hrinda framkvæmdinni við göng undir Hvalfjörð af stað. En þetta er risaverkefni sem er nauðsynlegt að skoða rækilega og leita allra leiða til að koma þeirri framkvæmd á, ekki síst eins og ástatt er hjá okkur í atvinnumálum um þessar mundir.
    Virðulegi forseti. Ég vil ekki lengja umræðurnar núna. Ég fæ tækifæri til þess í samgn. og væntanlega í fjárln. að fjalla um vegáætlun og mun þá síðar fjalla nánar um þá áætlun sem hér liggur fyrir og er til umræðu.