Vegáætlun 1991--1994

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 15:55:00 (3929)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Nokkur atriði hafa komið fram í umræðunum sem valda því að ég kveð mér aftur hljóðs. Í fyrsta lagi ræða sem hv. 3. þm. Vestf. flutti fyrir nokkrum dögum. Athyglisverð ræða um margt. Hv. þm. fór með miklar talnarunur sem ég nam nú ekki allar. En þær voru þó kunnuglegar og liggja velflestar fyrir í ýmsum skjölum. Þannig má t.d. vitna í síðustu skýrslu samgrh. um framkvæmd vegáætlunar sem jafnan er hið gagnlegasta plagg og birtir ýmiss konar yfirlit um framlög til vegamála, framkvæmdir í vegamálum á hverju ári o.s.frv. Þessir hlutir voru teknir saman í eitt skjal á vegum samgrn. vorið 1991. Bendi ég hv. alþm. á þá bók sem ágætis handbók til að átta sig á samhengi í þessum hlutum. Þar eru upplýsingar um vegáætlun, síðustu langtímaáætlun og endurskoðun hennar. Sömuleiðis er útdráttur úr skýrslu samgrh. um framkvæmd vegáætlunar á árinu 1991, birtar snjómokstursreglur og fleira gagnlegt.
    Hv. þm. vék svo að þeim orðum sem ég lét falla fyrr í umræðunni varðandi það að ég átaldi framsetningarmáta í vegáætluninni sjálfri. Ef fylgiskjölin eru skoðuð má ráða af textanum að hlutfall fjárveitinga til framkvæmda í vegamálum hafi farið lækkandi á árinu 1991 frá fyrra ári miðað við landsframleiðslu, eins og það er nú gjarnan mælt og borið saman. Enn sem komið er er þetta eingöngu á grundvelli þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að skera niður framkvæmdafé til vegamála. Mér finnst eðlilegt að þegar um slík frávik frá hinni samþykktu vegáætlun er að ræða, sem enn hefur ekki verið samþykkt af Alþingi með neinum formlegum hætti að breyta, þá sé þess getið með mjög skýrum hætti í fylgiskjalinu að þar sé ekki verið að tala um upphæðir hinnar samþykktu vegáætlunar frá sl. vori, heldur sé verið að tala um upphæðir eftir niðurskurðinn sem ríkisstjórnin ákvað. Að vísu má ráða það af fylgiskjalinu að þar sé sú upphæð á ferðinni. En ekki verður sagt að gerður sé skýr greinarmunur á þessum hlutum. Þannig er t.d. í töflu aftast á bls. 4 í fylgiskjalinu birt framreiknuð heildarútgjöld til vegamála, niðurskorin og án þess að getið sé að um frávik frá hinni samþykktu vegáætlun sé að ræða.
    Á sama veg voru allar talnaæfingar hv. 3. þm. Vestf. Þegar hann fór yfir það hvernig hlutfall útgjalda til vegamála hefði þróast miðað við þjóðarframleiðslu gekk hann út frá hinni niðurskornu tölu fyrir árið 1991. Þess vegna er rétt að fara yfir það hvernig málin stæðu í dag ef vegaféð hefði orðið samkvæmt hinni samþykktu vegáætlun, þ.e. 5.540 millj. kr. varið til framkvæmda eða útgjalda í vegamálum árið 1991. Þá hefði þetta hlutfall ekki orðið 1,44% miðað við þjóðarframleiðslu heldur 1,54% og þar með það hæsta um allmargra ára bil. Ég hygg að fara þyrfti aftur til ársins 1984 til að finna jafnhátt eða hærra hlutfall. Sömuleiðis hefði að raungildi orðið tæplega 400 millj. kr. hækkun á ráðstöfunarfé til vegamála á árinu 1991 borið saman við árið 1990.
    Vonandi er þá alveg skýrt, herra forseti, að tölur um lækkandi fjármagn til vegamála og lækkandi hundraðshlutfall miðað við þjóðarframleiðslu eru fengnar út með því að bera þetta saman milli ára við hinn niðurskorna veruleika ríkisstjórnarinnar en ekki vegáætlunina sem Alþingi afgreiddi vorið 1991. Hefði hún gengið eftir hefði þetta hlutfall orðið 1,54%, miðað við þær upplýsingar sem ég hef um þjóðarframleiðslu 1991 og held að séu sæmilega traustar því þær eru frá því um áramót. Og þar með hefði hlutfallið orðið hið hæsta síðan árið 1984. Jafnframt hefðu hinar 5.540 millj. kr. til útgjalda í vegamálum á árinu 1991 orðið næsthæsta tala að raungildi til ráðstöfunar í vegamálum síðan árið 1974. Aðeins eitt ár, árið 1981, er um að ræða sambærilega tölu. Ef þetta er borið saman á verðlagi ársins 1990, en það er það verðlag sem er að finna í skýrslu samgrh. um framkvæmdir í vegamálum á því ári, þá er vegaféð á árinu 1981 5.230 millj. kr. en á sama verðlagi væru 5.540 millj. vegáætlunarinnar fyrir árið 1990 að jafngildi 5.178 millj. sem er þá lítið eitt lægri tala en var á árinu 1981. Og þessar tvær tölur hinar hæstu síðan 1974, í lok stjórnartíma vinstri stjórnarinnar sem þá sat. En þá var 5.625 millj. kr. ráðstafað til vegamála á sama verðlagi, þ.e. verðlagi ársins 1990, Á þessu fjögurra ára tímabili vinstri stjórnarinnar frá 1971--1974 var langmestum fjárhæðum ráðstafað til framkvæmda í vegamálum fyrr og síðar á Íslandi, frá 5.248 millj. á árinu 1971 upp í 6.262 millj. kr. á árinu 1973, á verðlagi ársins 1990 sem er líklega orðið nokkuð yfir 6,5 milljarð kr. á núgildandi verðlagi --- reiknað hér í huganum standandi í stólnum.
    Þannig sjáum við að ef menn vilja fara út í samanburð og nokkra sagnfræði í þessum efnum þá er hægt að lesa margt athyglisvert út úr því. Ég veit að hv. 3. þm. Vestf. hlýtur að sárna það mjög, vegna þess hvar hann hefur skipað sér í flokk í íslenskum stjórnmálum, að horfa á þann tröppugang sem er í framkvæmdum til vegamála og merkja t.d. inn á yfirlit síðustu 20 ára hin einstöku kjörtímabil og samsetningu hinna einstöku ríkisstjórna. Það hlýtur að valda hv. 3. þm. Vestf. nokkurri hryggð að sjá hvernig hlutfallið lækkar jafnan þegar ríkisstjórnir með aðild flokks hans setjast að völdum, bæði að raungildi og ekki síður sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.
    Hvað sem þetta segir í sjálfu sér og hvaða lærdóm sem menn vilja draga af því, pólitískan eða efnislegan, er annað mál. En staðreyndirnar tala sínu máli og ár eftir ár hefur þessi skýrsla samgrh. sýnt okkur þennan veruleika. Þannig er þetta hlutfall langhæst og myndarlegast á árunum 1971--1974, lækkar síðan með hverju ári 1975, 1976, 1977, 1978 og fram á árið 1979. Það hækkar síðan aftur 1981, 1982 og byrjar að lækka, eins og við manninn mælt, og lækkar mjög harkalega á árunum 1985, 1986 og 1987.
    Þetta segir manni vissa sögu. Það er eitt hvað um raungildi má segja og hversu miklum fjárhæðum menn treysta sér til að ráðstafa í þennan málaflokk, hitt er svo hvort pólitískur vilji er fyrir hendi til að verja hlutfall vegamála í ráðstöfun þjóðartekna eins og þær eru á hverjum tíma.
    Þess vegna er líka spurning hvort hv. 3. þm. Vestf. er nógu víðsýnn og nógu mikill maður til að

gleðjast yfir því að eftir að það tókst að koma Sjálfstfl. frá völdum á árinu 1988 þá hækkaði þetta hlutfall á hverju ári. Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika sem gengu á á þessum árum, eins og menn muna, þá tókst að gera betur en verja óbreytta hlutdeild vegamálanna í ráðstöfun þjóðartekna. Þessar tölur fór reyndar hv. þm. með sjálfur. Þetta hlutfall er langlægst þegar kemur undir lok valdaferils ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. Auðvitað geta fleiri verið daprir yfir því. Ég sé að það er hálfgerð skeifa á hv. 2. þm. Vestf. líka. Það fór ofan í 1,16% ( ÓÞÞ: Ég hef nú ekki reitt af mér allt hárið.) af þjóðarframleiðslu árið 1987. Mig minnir að Framsfl. hafi slysast til að sitja í báðum ríkisstjórnunum á því ári, hv. þm. Síðan lyftist þetta að vísu aftur á árinu 1988 í 1,25%, í 1,35% árið 1989, 1,46% 1990 og hefði orðið, ef ekki hefði tekist svo illa til að Sjálfstfl. komst aftur til valda á árinu 1991, 1,54%. Þetta eru nú staðreyndir málsins.
    Þessum sögulegu upplýsingum vildi ég bæta við ræðu hv. 3. þm. Vestf. til að öllu sé nú til haga haldið og ætla ekki að fara meira út í þessi talnamál. Menn geta byggt mál sitt upp eins og hann, reyndar hafa fleiri gert það, með því að segja af því að menn hafi breytt vegáætlun aftur og aftur á undanförnum árum og af því að . . .   en það sýnir bara að allir eru eins og allir jafnsekir í þessu. Það er náttúrlega sjónarmið út af fyrir sig að vera slíkur bókstafstúlkunarmaður að þar með sé glæpurinn framinn og skipti ekki máli hvort það er meira eða minna sem menn aðhafast. En ég tel líka ástæðu til að skoða hvernig menn standa sig almennt hvað varðar framlög til þessa málaflokks og framkvæmdir á þessu sviði. Þar tala tölurnar alveg óhrekjandi skýru máli um það við hvaða aðstæður í íslenskum stjórnmálum menn hafa veitt þessum málaflokki, vegaframkvæmdunum, brautargengi og hlutirnir hafa þróast í rétta átt.
    Sú staðreynd er rétt að á árinu 1989 var nokkurt fé tekið úr vegasjóði ríkissjóðs. Það var ein af ráðstöfununum sem menn gripu til í því öngþveitisástandi sem uppi var á haustdögum 1988 þegar verið var að taka við stjórnartaumunum eftir að Sjálfstfl. hafði gefist upp og formaður hans beðist lausnar fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar. Reynt var að afla ríkissjóði tekna m.a. með því að nota tekjustofna Vegagerðarinnar.
    Til að halda öllu til haga er rétt að menn viðurkenni líka hvernig það var gert. Það var gert með því að þessir tekjustofnar voru stórhækkaðir þannig að gerði betur en að afla viðbótartekna fyrir öllu því sem Vegasjóður fékk. Með öðrum orðum var þessi aðferð ekki notuð til að skerða vegatekjurnar frá því sem orðið hefði t.d. ef óbreyttri álagningu bensíngjalds og þungaskatts hefði verið haldið. Um áramótin 1988--1989 voru hinir mörkuðu tekjustofnar hækkaðir verulega og þær viðbótartekjur að hluta til teknar í ríkissjóð í eitt ár með sérstakri bókun og samþykkt í ríkisstjórn að ráðstöfunin væri bundin við þetta eina ár og hluti af henni væri samkomulag stjórnarflokkanna um að á næstu árum þar á eftir yrði fullnýttum tekjustofnum Vegagerðarinnar ráðstafað alfarið til framkvæmda í vegamálum. Þetta gekk í grófum dráttum eftir. Að vísu með því fráviki að hluti af samkomulagi um svonefnda þjóðarsáttarsamninga var ákveðin meðferð gjaldskrármála í vegamálum, rétt eins og hjá flestöllum opinberum aðilum sem voru hluti af því samkomulagi og þeirri aðgerð að ná niður verðbólgu og skapa stöðugleika, sem tókst og við búum enn að. En þarna var sá slaki sem myndast hafði í hinum mörkuðu tekjustofnum á valdatíma ríkisstjórna Framsfl. og Sjálfstfl. og síðan í eitt ár með krötunum, sem aldrei skyldi verið hafa. Hann var sem sagt tekinn inn með þessum aðgerðum. Þannig varð þetta ekki til að skerða framkvæmdafé í vegamálum, enda fór það vaxandi milli ára 1988 og 1989 sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og var nokkurn veginn óbreytt að raungildi milli áranna 1988 og 1989. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að upplýsa líka ef menn vilja á annað borð umgangast staðreyndirnar í þessum efnum með tilhlýðilegri virðingu. Þá er þetta allt saman skýrt orðið, herra forseti, og þarf ekki frekari ræðuhöld um það.
    Kem ég þá að því sem hv. 3. þm. Vestf. ræddi einnig og var það samningagerð fjmrn. og Reykjavíkurborgar til lúkningar miklum skuldum og skuldahala sem hafði safnast upp á nokkru árabili í lögbundnum samskiptum ríkisvaldsins og Vegagerðarinnar yfir þetta tímabil. Þarna var auðvitað óráðsía á ferðinni. Skuldahalinn var í vanskilum hjá ríkinu gagnvart borginni. Eins og þeir hlutir höfðu þróast almennt í samskiptum ríkisvalds og sveitarfélaga var alveg ljóst að óhjákvæmilegt var orðið að verðbæta skuldina og jafnvel vaxtareikna hana ef út í það hefði verið farið. Ríkinu var ekki stætt á að láta þá hluti liggja eins og þeir höfðu legið óklárir, enda höfðu yfirvöld í Reykjavíkurborg og þingmenn Reykjavíkurkjördæmis þrýst mjög á um það á undanförnum árum að þessum málum yrði komið í lag. Hæstv. núv. fjmrh., Friðrik Sophusson, var mikill talsmaður þess að þessu yrði kippt í liðinn. Það var t.d. hluti af afgreiðslu fjárlaga í desembermánuði, einum eða tveimur sólarhringum fyrir jólaleyfi þingmanna, að því var lofað að ganga í það mál að gera upp skuldina. Fyrsta skrefið í þeim efnum var að koma á fundi milli samgrn., fjmrn. og Reykjavíkurborgar um þessi mál og það loforð efndi ég og boðaði til slíks fundar og í framhaldi af því fóru af stað frekari viðræður um meðferð málsins. Ég held að nauðsynlegt sé fyrir hv. 3. þm. Vestf. og alla aðra sem eru að tala um þetta mál að átta sig á að greiðsluskylda ríkisins er ótvíræð í þessum efnum gagnvart borginni því að menn gátu ekki eftir á breytt reglum um samskipti þessara aðila eftir að búið var að framkvæma. Það var ekki hægt. Hafi menn áhuga á að breyta þeim verða þeir að gera það fyrst, byrja á því að breyta reglunum og svo geta menn tekið upp aðra kostnaðarþátttöku ríkisins eða hvað það nú er sem þar ætti í hlut.
    Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég átta mig ekki almennilega á hver var afstaða hv. 3. þm. Vestf. í málinu. Það er viss galli að það skyldi ekki koma fram í ræðu hans. Var hv. 3. þm. Vestf. að segja okkur að hann sé á móti því að þessi skuld sé greidd? Var hann að segja að það hafi verið mistök að ganga frá þessum óráðsíuhala frá valdatíma Sjálfstfl. á báðum vígstöðvum, í ríkisstjórn og

í borgarstjórn? Vildi hv. 3. þm. Vestf. hafa þetta svona áfram? Ég óska eftir því ef hv. þm. á enn rétt á að taka til máls í umræðunni að hann skýri mál sitt aðeins betur fyrir okkur úr því hann er að tala um þetta á annað borð. Ég sé þá ekki tilganginn með því ef hann talar svo í véfréttastíl. En eitthvað kom honum til þess að fara í ræðustólinn og ræða þetta með þeim sérstaka hætti sem hann gerði.
    Svo geta menn rætt alveg sérstaklega og sjálfstætt hvor aðilinn hafi haft betur í samningunum. T.d. hvort ríkið hafi verið óþarflega liðlegt við borgina með því að ákveða að greiða þetta upp á nokkrum árum eins og raun ber vitni. Það er rétt að hv. þm. Vestf. átti sig á því, og það er vonum seinna að það verði honum ljóst, að þegar vegáætlunin var samþykkt á sínum tíma vissu menn af þeirri stöðu, að þessu máli var ólokið og það var ósköp einfaldlega reiknað með því að niðurstaða í þessum samskiptum ríkisins og borgarinnar hlyti síðan að koma inn í áætlanagerð og útgjöld til vegamála á næstu árum. Öðruvísi var að sjálfsögðu ekki hægt að leysa þetta því að menn gátu ekki sent ríkið til samningaviðræðna við borgina um uppgjör þessara skulda fyrir fram bundið af einhverju slíku efni. Þá væru það engir samningar. Þá væri annar aðilinn ósköp einfaldlega að segja hvernig hann ætlaði að hafa þetta. Nei, menn gengu ósköp einfaldlega til þessara samninga með því hugarfari að ná sanngjarnri niðurstöðu á báða bóga og ég tel eftir atvikum að það hafi gerst. Ég segi alveg eins og er, það var ekkert um annað að ræða en að snúa sér að því að greiða upp þessa skuld og binda enda á þann hala sem þarna hafði myndast og nógu mikið og nógu víða var búið að velta vandanum á undan sér með þeim hætti.
    Annað frægt dæmi um ráðstjórn Sjálfstfl. í fjármálum eru þær skuldir sem mynduðust gagnvart jarðræktarstyrkjum til bænda á valdatíma Sjálfstfl. í fjmrn. og síðan Alþfl. Þá var málum stjórnað með þeim endemum að lög tryggðu bændum rétt til ákveðinna styrkja út á jarðræktarframkvæmdir og húsbyggingar. En fjmrh. Sjálfstfl. lokuðu ár eftir ár fjárlögum þannig að ekki voru nógir peningar til þess að greiða út þá styrki til bændanna þótt jarðræktarlögum væri ekki breytt og þar með myndaðist skuldahali hjá ríkinu gagnvart bændunum. Einnig á þessu sviði varð það hlutskipti þeirra sem tóku við að binda enda á þessa óráðsíu, þessa ósiði í fjármálastjórn á vegum ríkisins og ganga frá samkomulagi við bændur um að gera þessar skuldir upp á fjórum árum sem auðvitað gerði það síðan að verkum að svigrúm til þess að styrkja nýframkvæmdir í byggingum og jarðrækt í sveitum landsins stórminnkaði vegna þess að það kostar peninga að gera upp skuldir. Það er nú það, hv. 3. þm. Vestf., þetta þarf allt að vera ljóst.
    Ég minni sem sagt á það að svona var aðstaðan í þessu efni. Alveg ótvíræð greiðsluskylda ríkisvaldsins var fyrir hendi og ég held að vandinn hefði orðið verri viðureignar ár frá ári ef því hefði verið frestað að taka á þessu. Auðvitað er mönnum fyrir bestu að þessir hlutir komist á hreint og svona skuldir séu greiddar upp á einhverjum viðráðanlegum tíma þannig að menn geti síðan í framtíðinni haft til ráðstöfunar það fé, þær tekjur, sem Vegasjóður hefur hverju sinni. Menn þurfi ekki að binda verulegan hluta þeirra yfir ákveðið tímabil í uppgjör gamalla skulda af þessu tagi. Það er ekki til eftirbreytni og ég vona að hv. 3. þm. Vestf. hafi ekki verið að mæla því bót að menn velti svona vanda bara á undan sér ár eftir ár eins og fjmrh. Sjálfstfl. hafa tilhneigingu til að gera á þessu sviði og mörgum fleirum. Satt best að segja á ég von á því að hv. 3. þm. Vestf. komi í ræðustólinn og lýsi yfir sérstökum stuðningi og hrifningu yfir því hvernig við tókum til í fjármálastjórn ríkisins eftir upplausnar- og óráðsíutíma ráðherra Sjálfstfl. á þessu sviði eins og fleirum.
    Ekki þarf að taka það fram ef hv. 3. þm. Vestf. er enn eitthvað ósáttur við þetta að þá er hægt að benda honum á að ræða þetta í þingflokki Sjálfstfl., ræða þetta við hæstv. forsrh. sem var aldrei nema borgarstjórinn í Reykjavík þegar þessir samningar voru gerðir. Hann lagði á það mikla áherslu að þessu máli yrði lokið til þess að samskipti borgar og ríkis gætu verið með eðlilegum, farsælum og vinsamlegum hætti. Það var skiljanlegt. Á sama tíma var ríkið einmitt að gera upp skuldir við sveitarfélögin hringinn í kringum landið, m.a. í tengslum við breytta verkaskiptingu. Þá voru stjórnarhættirnir þannig í landinu að menn gerðu samkomulag um hlutina. Menn héldu fundi, menn töluðu saman og menn reyndu að ná samkomulagi og menn virtu ákvæði 116. gr. sveitarstjórnarlaga um samráð ríkisvalds og sveitarfélaga. Nú eru að vísu aðrir tímar eins og við þekkjum, nú er ekki talað við sveitarfélögin, nú eru ekki haldnir fundir. Nú er með einhliða valdboði á Alþingi velt nýjum álögum yfir á sveitarfélögin þannig að sennilega vefðist ekki mikið fyrir valdsmönnum sem þannig hegða sér að þráast við að borga skuldir. Sanna dæmin það að fjármálaráðherrar Sjálfstfl. eru náttúrlega með allra skuldseigustu mönnum í landinu og bætist það við annað sem þeir afreka gjarnan ef þeir komast að í fjmrn.
    Nei, auðvitað er ekki hægt að mæla bót að þessir hlutir skyldu vera látnir dankast svona gagnvart Reykjavíkurborg. Það er svo allt annað mál að Reykjavíkurborg er ágætlega statt sveitarfélag og menn geta haft þá skoðun að taka eigi til endurskoðunar ákvæði vegalaga og flokkun þjóðvega og vegakerfisins á höfuðborgarsvæðinu. Það er bara allt annar handleggur, hv. 3. þm. Vestf., það er eitthvað sem menn setjast niður við og gera og breyta og fara svo að framkvæma nýja kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga ef það yrði niðurstaðan.
    Af því að endurskoðun vegalaga var nefnd og talað um að þessa hluti þyrfti að taka til skoðunar, m.a. af hv. 1. þm. Vesturl., þá vil ég áður en ég skil við þetta atriði, benda hv. alþm. á eitt. Ég hef oft áður heyrt þær ræður einstakra þingmanna, sérstaklega þegar þeir eru komnir út á land í kjördæmi sín, að það sé til skammar að ríkið sé að leggja fjármuni í vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu, þeir eigi nóga peninga hér fyrir sunnan til þess að leggja vegi sína sjálfir. Þetta sé bara algjört hneyksli að svona mikið fé

skuli fara í að greiða hlutdeild ríkisins í uppbyggingu stofnbrautanna eða þjóðvegakerfisins sem liggur um höfuðborgarsvæðið, sem eru eins og kunnugt er ákveðnar aðalumferðaræðar sem liggja um, utan um og í gegnum þetta svæði. Ég held að menn þurfi aðeins að staldra við áður en þeir fella stóra dóma. Hvaðan halda menn að uppistaðan af því fé sem er til ráðstöfunar í vegamálum á Íslandi komi annar staðar en af sköttum á umferðina á höfuðborgarsvæðinu þar sem stór hluti landsmanna býr, sem á stóran hluta bílanna í landinu og greiðir auðvitað þyngstan hluta af tekjunum í Vegasjóð? Auðvitað er það svo. Við þingmenn landsbyggðarinnar skulum vera menn til að viðurkenna að stórkostleg tekjujöfnun á sér stað í gegnum gjaldtöku Vegasjóðs og miklir fjármunir renna af sköttum á umferðina á höfuðborgarsvæðinu í uppbyggingu vegakerfisins úti um landið. Það er þannig og það á að segja hlutina eins og þeir eru. Hv. 3. þm. Vestf. ætti líka að vera maður til þess. En þetta er vegakerfi allra Íslendinga, alveg sama hvort það er á Vestfjörðum eða hvort það er ofanbyggðarvegurinn utan um Reykjavíkursvæðið. Allir landsmenn, hvar sem er í landinu, eiga þetta vegakerfi, stofnvegakerfið, og við eiga að reyna að halda því þannig og hv. 3. þm. Vestf. á að styðja það eins og við allir hinir. Sem betur fer hefur verið hin þokkalegasta samstaða um þá tilhögun að menn skattleggi umferðina í landinu hvar sem er og séu ekki mikið að velta því fyrir sér hvort það sé einn bíll hér eða tíu þar, síðan renni þeir fjármunir til þess að byggja upp samgöngukerfi landsmanna allra um allt land. Þetta er auðvitað nákvæmlega eins og það á að vera, en með tilliti til þeirra staðreynda sem blasa við í málinu um það hvar þessar tekjur myndast ættu menn að gæta sín á því að vera ekki með stórkarlalegar yfirlýsingar um að það sé óeðlilegt að vegasjóður landsmanna allra taki á sinn hátt líka þátt í ákveðinni uppbyggingu meginumferðaræðanna hér á þessu landshorni, rétt eins og aðalleiða annars staðar í landinu.
    Að lokum, herra forseti, langar mig til að spyrja hæstv. samgrh. um nokkuð sem mér finnst ástæða til að fá upp hér við 1. umr. þesssa máls og það varðar snjómokstursreglur í landinu. Ég vil inna hæstv. samgrh. eftir því hvort ekki standi til eða sé á dagskrá að fylgja eftir áformum sem mótuð voru og kynnt á Alþingi bæði veturinn 1989 og eins veturinn 1991 um að ljúka þeirri heildarendurskoðun snjómokstursreglna með þriðja og síðasta áfanga í slíkri endurskoðun og það sem fyrst. Þegar snjómokstursreglum var breytt í marsmánuði 1989, ef minni mitt svíkur mig ekki, þá var þegar lögð sú áætlun til grundvallar því að snjómokstursreglurnar yrðu endurskoðaðar og þeim breytt í þremur áföngum. Þeim fyrsta veturinn 1989, öðrum veturinn 1991 og þeim þriðja á þessum vetri, 1992, og yrðu þá sérstaklega teknir til skoðunar þeir angar málsins sem ekki hefði áður verið tekið á eða breytt við fyrri endurskoðun. Eins og menn þekkja var þjónustan að þessu leyti verulega aukin, t.d. veturinn 1989, með því að bæta við dögum á aðalleiðum norður í land og víðar. Veturinn 1991 bættust við heilir dagar á leiðinni austur um frá Vík í Mýrdal til Egilsstaða og sömuleiðis á leiðinni norður í land og áfram austur um og á fleiri leiðum bæði austan lands, norðan og vestan.
    Þriðji og síðasti áfanginn í þessari endurskoðun var sá að ákveðið var hafa ákvarðanatöku um það hvort nýjar leiðir skyldu bætast við inn á snjómokstursáætlun, en fjölmargar óskir hafa að sjálfsögðu borist um tiltekinn mokstur, tiltekna þjónustu á nokkrum nýjum leiðum sem ekki njóta slíkrar þjónustu í dag. Jafnframt var það yfirlýst af minni hálfu að þá yrðu teknar til endurskoðunar reglur sem lúta að samskiptum ríkisvaldsins og sveitarfélaga í sambandi við svonefndan helmingamokstur. Þetta eru þau sveitarfélög sem liggja út frá alfaraleiðum í þeim skilningi að þau fá annaðhvort lítinn eða jafnvel engan mokstur að fullu greiddan af ríkinu á því vegakerfi sem er innan þeirra vébanda. Því miður er aðstaða sveitarfélaganna í þessu tilliti er mjög mismunandi. Mín skoðun er sú að ákveðnir hreppar búi að þessu leyti við óþolandi misrétti sem við verðum að breyta. Það skapast ósköp einfaldlega af því að sum sveitarfélög eru þannig sett að vegakerfi þeirra liggur alfarið utan stofnbrauta eða þjóðbrauta eða annarra leiða sem njóta þjónustu af hálfu ríkisins þannig að allan mokstur sem þar fer fram verður að greiða af hálfu leyti af viðkomandi sveitarfélagi á móti ríkinu. Að vísu eru reglur um það að eftir að kostnaðurinn fer yfir tiltekið mark endurgreiðir ríkið meira en helming en þó aldrei meira en 75% kostnaðarins. Sjálfsagt þekkja einhverjir hv. þm. það að sum fámenn og jafnvel frekar veikburða sveitarfélög lenda af þessum sökum í geysilegum útgjöldum, t.d. borið saman við íbúafjölda. Þannig að kostnaður fátækra sveitarhreppa getur af þessum sökum, til þess að halda uppi óhjákvæmilegri þjónustu varðandi skólahald eða mjólkurakstur eða annað því um líkt, verið gríðarlega þungur á hvern íbúa eða miðað við tekjur viðkomandi sveitarfélaga. Þetta hefur ágerst mjög á síðustu árum eftir því sem kröfur fólks hafa aukist um bættar samgöngur, möguleika t.d. að sækja vinnu daglega úr sínu sveitarfélagi í nágrannaþéttbýli eða koma börnum sínum til og frá skóla. Ég held að í þessum efnum verulega séu breyttir tímar og þá sé ekkert um annað að ræða en að endurskoða þessar reglur og endurskoða samskipti ríkisvaldsins og fámennra sveitarfélaga í þessum efnum. Ef það hjálpar mönnum eitthvað að nefna dæmi um svona tilvik þá get ég tekið t.d. Bárðdælahrepp og Svarfaðardalshrepp sem eru löng og mjó sveitarfélög ef svo má að orði komast, og liggur vegakerfi þeirra út frá alfaraleið og endar uppi á hálendi. Þar af leiðandi er enginn gegnummokstur hjá þessum sveitarfélögum og þau þurfa að greiða helming af öllum þeim mokstri sem þar fer fram fyrst í stað og síðan a.m.k. fjórðung. Síðan geta nágrannasveitarfélög, ef við tökum Hálshrepp í nágrenni við Bárðardal eða Árskógshrepp í nágrenni við Svarfaðardal, verið svo heppin að hafa þjóðveg í gegnum allt sveitarfélagið sem ríkið mokar ókeypis, jafnvel fimm daga vikunnar, þannig að nágrannasveitarfélag þarf e.t.v. ekki að leggja eina einustu krónu af mörkum og hefur þó mun betri þjónustu að þessu leyti. Allir hljóta að sjá í hendi sér að

þessar aðstæður eru farnar að skapa sveitarfélögum óþolandi aðstöðumun sem að öðru leyti geta verið jafnsett með tekjur og fólksfjölda.
    Ég læt þetta duga hér en ég vil gjarnan inna hæstv. samgrh. eftir því, hafandi útskýrt hvað fyrir mér vakir í þessum efnum, hvort ekki sé á döfinni að ljúka endanlega yfirferð yfir þessar snjómokstursreglur einnig í þessu tilliti og þá með það að markmiði að gefa út nýjar reglur, helst nú í marsmánuði. Viss hefð hefur skapast um að reglum er gjarnan breytt á útmánuðum þegar sá tími fer að styttast sem menn búast við að þurfi moka og koma þar til ýmsar ástæður, fjármálalegar ekki síður en aðrar.
    Óþarfi er að taka það fram að hæstv. samgrh. mun slá sér stórlega upp ef hann stendur myndarlega að þessari endurskoðun og greiðir nokkuð úr því ranglæti sem ég held að óumdeilanlega sé farið að viðgangast í þessum efnum og dregur úr aðstöðumun sveitarfélaganna að þessu leyti. Má jafnvel mikið vera ef einstöku maður gætu ekki átt það til að kjósa hann ef hann stæði myndarlega að verki í þessum efnum.