Vegáætlun 1991--1994

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 16:33:00 (3930)


     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Við fjárlagagerð nú um áramótin lögðum við þann fjárhagslega ramma um vegamálin sem gilda skal á næsta ári. Sú staðreynd sem við stöndum frammi fyrir þar er að nýframkvæmdir í vegum hafa verið skornar niður um 20%. Verk okkar er að raða niður verkefnum og endurskoða vegáætlunina með tilliti til þeirra staðreynda sem við stöndum frammi fyrir.
    Ég ætla að leggja örfá orð inn í umræðuna um vegamálin. Að öðru leyti fer málið til nefndar og verður unnið þar betur. En nokkur atriði vildi ég láta koma fram áður en málið fer til nefndar.
    Í rauninni er það ekkert nýtt að settar séu fram bjartsýnar áætlanir í vegamálum. Mikill áhugi er á þessum málum í þjóðfélaginu og þörf á bættum vegasamgöngum. Oft hefur það verið þannig að áætlanir hafa verið gerðar en orðið að fresta ýmsu sem hv. þm. hafa haft fullan vilja til að gera. Mér finnst nú samt að við verðum að skoða vegamálin með tilliti til þeirrar staðreyndar að nýframkvæmdir minnka um um það bil 20%.
    Hæstv. ríkisstjórn sem nú situr er þar engin undantekning. Gefin var út hin svokallaða hvíta bók sem heitir Velferð á varanlegum grunni. Rætt er um vegamál í þessari bók á bls. 41. Þar er segir m.a. eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Unnið verður áfram að stórverkefnum, þ.e. jarðgöngum, endurbyggingu stórbrúa og framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem bættar verða og breikkaðar aðfærsluæðar inn á höfuðborgarsvæðið. Hraðað verður lagningu bundins slitlags á hringveginn og unnið að tengingu milli landshluta, m.a. milli Norðurlands og Austurlands.``
    Þetta eru ágæt markmið og ég er náttúrlega sammála að þau eru mjög þörf og það mundi breyta miklu í samgöngumálum ef þau yrðu að veruleika. Ég öfundast ekkert yfir vegabótum á þessu svæði. Það kom fram hjá síðasta ræðumanni, hæstv. fyrrv. samgrh., að þessi svæði tilheyra vegakerfi landsins og ég er sammála honum.
    Að sjálfsögðu hef ég áhuga á að byggja upp hringveginn og ekki síst hef ég áhuga á að tengja Norðurland og Austurland. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir í þessari hvítu bók að þetta muni væntanlega verða gert á kjörtímabilinu. Þá er mér spurn: Með hvaða hætti tekur sú vegáætlun, sem við erum að ræða um, á þessu verkefni? Ég sé a.m.k. ekki að í rammanum sé reiknað með því að þessum stórverkefnum verði hraðað. Fjármagn til vegagerðar verður að aukast mjög á næstu árum ef það á að gerast. Þess vegna vil ég beina þeirri spurningu til samgrh., hvaða tillögur eða hvaða hugmyndir ríkisstjórnin, þ.e. hann sem samgrh. og samgrn., hafi til að flýta lagningu bundins slitlags á hringveginum og hvernig eigi að vinna að þessari tengingu milli Norðurlands og Austurlands. Hefur ríkisstjórnin hugsað sér að gera þetta með tillögum um sérstakt fjármagn? Eða er ætlunin að draga úr öðrum framkvæmdum og draga fé að þessum verkefnum frá öðrum vegaframkvæmdum? Þetta tel ég nauðsynlegt að vita áður en þingmenn kjördæmanna setjast niður til að skipta fé til hinna einstöku verkefna og ákveða hvar við ætlum að leggja áherslurnar næstu árin.
    Hvað varðar tengingu Norður- og Austurlands þá var áætlað, samkvæmt þeirri langtímaáætlun sem er í þessari ágætu bók, að fé yrði veitt á öðru tímabili langtímaáætlunar sem er eftir árið 1995. Það var sú stefnumörkun sem gerð var þegar áætlunin var til umræðu þó hún hafi ekki hlotið endanlega afgreiðslu. Að sjálfsögðu hafa þingmenn Austurl., ég tel mig vita það fyrir víst, áhuga á að vinna að þessari tengingu. En þeir verða að vita hvort ætlunin er að gera tillögur um einhverja sérstaka fjármögnun til hennar. Því staðreyndirnar blasa við og minna fjármagn er til þessara verkefna heldur en áður var áætlað.
    Áður en þessari umræðu lýkur vil ég koma inn á snjómokstursreglurnar og endurskoðun á þeim. Ég tel mikla þörf á því að vanda til þess verkefnis því aðstæður hafa breyst víða. Íbúar í dreifbýlissveitarfélögum eru háðari greiðum samgöngum en áður vegna ýmissa breyttra aðstæðna t.d. skólaaksturs og þörf á að sækja atvinnu lengra en áður var vegna samdráttar í hefðbundnum búgreinum í sveitum. Þannig er þörfin fyrir greiðar og hindrunarlausar samgöngur mjög mikil þó hinir mildu vetur undanfarin ár hafi orðið til þess að þetta hefur vikið svolítið til hliðar í umræðunni. En það er rétt sem kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að íbúar hinna einstöku sveitarfélaga búa við ákaflega mismunandi aðstæður í þessum efnum

og það er nauðsynlegt að skoða mjög vel hvort ekki sé hægt að jafna aðstæður manna í þessu tilliti.
    Svo ég víki nú aftur að tengingunni á milli Norður- og Austurlands, væri það náttúrlega góð byrjun að hún yrði tekin inn í snjómokstursreglur Vegagerðarinnar og mokað yrði reglulega í venjulegu árferði a.m.k. Þar sem samgöngur milli þessara landshluta sjóleiðina eru í nokkurri óvissu eftir að Skipaútgerð ríkisins var lögð niður er ekki síst ástæða til að taka þessa leið inn í reglulegan snjómokstur. Það mundi auka umferðina á þessari leið, sem nú er náttúrlega mjög lítil eða engin yfir veturinn. Umferðarþunginn þar vegur því lítið þegar rætt er um skiptinu fjármagns milli kjördæma. En það er náttúrlega fyrir það að leiðin er lokuð stóran hluta ársins. En úr því mætti bæta strax með því að taka hana inn í reglulegan snjómokstur með endurskoðun snjómokstursreglna.
    Á þessu stigi ætla ég ekki að fjölyrða um einstök verkefni. Við á Austurlandi höfum gengið út frá því sem vísu að vera næstir á eftir Vestfjörðunum þegar kemur að jarðgangagerð. Við erum með rannsóknaáætlun í gangi varðandi jarðgangagerð á Austurlandi, erum að undirbúa það að röðin komi að okkur. Ég trúi því og treysti að staðið verði við þau áform. Og við undirbúum okkur að sjálfsögðu á heimaslóðum með tilliti til þess að vera tilbúnir í því efni hvar jarðgöngin eigi að liggja. Að öðru leyti munum við auðvitað, eins og aðrir þingmenn, ganga í það að skipta krónunum til vegamála niður á einstök verkefni. Við höfum reynt að ná um það sem bestri samstöðu í Austurlandskjördæmi eins og ég veit að aðrir kjördæmisþingmenn hafa reynt. Við höfum ekki unnið eftir flokkspólitískum línum þar heldur reynt að ná niðurstöðum og það hefur tekist. Við munum að sjálfsögðu gera það að þessu sinni.
    En ég vil undirstrika að sú staðreynd sem við stöndum frammi fyrir í þessum efnum er að minna fé er til skiptanna en verið hefur. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. samgrh., hvernig ríkisstjórnin ætlar að standa við þær bjartsýnu yfirlýsingar í samgöngu- og ferðamálum og vegamálum sem eru á bls. 41 í hinni hvítu bók, sem gefin var út í október sl.