Vegáætlun 1991--1994

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 17:03:00 (3932)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Ég verð að biðja hv. 3. þm. Vestf. að vera ekki allt of viðkvæman fyrir því þó að menn taki upp málflutning hans og leggi eitthvað út af honum, ræði hann, lýsi andstöðu eða ólíkum sjónarmiðum, spyrji hann spurninga. Hv. þm. virðist leggja þá merkingu í slíkt að menn séu þá ævinlega að reyna að gera málflutning hans tortryggilegan. Menn geta verið ósammála eða flutt mál sitt með mismunandi hætti án þess að tjá sig endilega í þeim tilgangi.
    Hv. þm. talaði nokkuð valdsmannslega og var að reyna að kenna okkur öðrum hv. þm. hinn eina rétta skilning á hlutunum, m.a. meðferð talna, og verður þá að þola það í samræmi við málflutning sinn að menn séu ekki endilega alltaf sammála honum, leyfi sér að lýsa ólíkum sjónarmiðum, bæta einhverju við þar sem þeir telja að hann hafi kannski ekki fyllt nægilega vel út í myndina o.s.frv. En þetta kemur sennilega með tímanum.
    Það er rétt sem hv. 3. þm. Vestf. sagði að það hefur komið fram, bæði í þessum umræðum og áður, að reyndin hefur sjaldan fylgt væntingum manna við afgreiðslu vegáætlana hverju sinni. Fyrir því er ein mjög veigamikil ástæða. Hún er sú að allt frá árunum 1982--1983 og fram til ársins 1989 byggðu allar vegáætlanir á þeirri óskhyggju, sem reyndin skar úr um að var óskhyggja, að til viðbótar hinum mörkuðu tekjustofnum kæmu umtalsverðar fjárhæðir úr ríkissjóði sem bættust við framkvæmdafé í vegamálum. Ár eftir ár voru vegáætlanir afgreiddar með þessum hætti á níunda áratugnum. Það var alveg sérstaklega á valdatíma Sjálfstfl. sem þetta var svona. Menn lokuðu hverri vegáætluninni á fætur annarri þannig að hún var niðurskorin fyrir það ár sem var að líða af því að staðreyndin var sú að á því ári höfðu menn ekki meiri peninga en svo byggðu menn upp stórfelldar væntingar með því að setja inn pappírsfærslur um 1.000, 1.500, 2.000 millj. úr ríkissjóði strax á næstu árum í beinum framlögum til viðbótar hinum mörkuðu tekjustofnum. Ár eftir ár eftir ár eftir ár var reynslan sú að þetta skilaði sér ekki. Út frá þessum veruleika markaði ég þá stefnu á árinu 1989 að þetta gengi ekki svona. Menn yrðu ef eitthvert mark væri takandi á þessari áætlanagerð að reisa hana á traustari grunni en þessari óskhyggju. Samkomulagið gekk út á það að í framtíðinni yrði vegáætlunin grundvölluð á hinum mörkuðu tekjustofnum nýttum að fullu og öðru ekki. Út af fyrir sig er framlagning þessarar vegáætlunar arftaka míns staðfesting á því að menn sjá að þetta er auðvitað það eina sem raunsætt er í þessum efnum. Hún byggir líka á hinum mörkuðu tekjustofnum og gefur ekki í skyn einhverjar væntingar um framlög úr ríkissjóði á komandi árum. Ég vænti þess að menn séu orðnir almennt sammála um það að svona hljóti þetta að verða.
    Varðandi þetta með hundraðshlutföllin er það kannski svona fræðileg deila sem mönnum finnst ekki mjög ,,interessant`` eins og sagt er. En ég hlýt þó að stríða hv. 3. þm. Vestf. með því að benda honum á það að hann byggði sitt mál og hlutfallið 1,57% af þjóðarframleiðslu á árinu 1992 ekki á nýjustu upplýsingum heldur á þjóðhagsáætlun frá því um mánaðamótin nóvember/desember. Það kom fram og ef hann tekur nýjustu þjóðhagsáætlun, sem gerir ráð fyrir að samdráttur þjóðartekna verði um 1 / 3 minni en nóvember/desember áætlunin gerir ráð fyrir, lækkar þetta hlutfall vegna þess að þjóðartekjurnar verða trúlega og vonandi eitthvað aðeins meiri og þar með verður hlutfallið lægra. Hvort það verður 1,52--1,54% sem ég gæti skotið á skal ég nú ekki segja, það skiptir ekki öllu máli. En til að hafa þetta á hreinu er það svo að nýjustu þjóðhagsspár gera ráð fyrir aðeins meiri þjóðartekjum og þar með að þetta hlutfall verði lægra.
    Varðandi niðurskurðinn og samanburð milli áranna 1991 og 1992 má hv. 3. þm. Vestf. ekki gleyma því að eitt af því sem ríkisstjórnin ákvað var að taka ekki lán fyrir flýtingarkostnaðinum við Vestfjarðagöngin vegna flýtingarframkvæmda þar og þar með verður framkvæmdaþunginn gjaldfærður að fullu hjá Vegasjóði og dregur úr öðrum framkvæmdum sem því nemur. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þeir gera þennan samanburð til þess að hann sé sanngjarn.
    Að lokum, herra forseti, er það svo auðvitað dómur reynslunnar sem er og verður alltaf bestur í þessum efnum. Mér finnst athyglisvert að hv. þm. Pálmi Jónsson skuli ekki hafa látið sjá sig í þessum umræðum um vegamál og það segir allt sem segja þarf um málflutning hans hér á Alþingi t.d. árið 1989 og á vordögum 1991.