Vegáætlun 1991--1994

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 17:08:00 (3933)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Andsvar hv. 4. þm. Norðurl. e. kallar raunverulega ekki á mikið mál. Hann vék aðeins að þessu samanburði um þjóðarframleiðsluna. Ég er út af fyrir sig sammála honum um það að þetta getur verið tilefni til nokkurra talnalegra leikfimisæfinga og auðvitað ræðst þessi samanburður, þetta hlutfall ekki síst af þróun þjóðarframleiðslunnar sjálfrar. Það er auðvitað ein skýringin á því að hækkunin varð frá árinu 1987, 1988, 1989 o.s.frv. að þjóðarframleiðslan þessi ár var að dragast saman. Út af fyrir sig er það auðvitað rétt ábending.
    Ég var hins vegar að draga þetta fram vegna þess að menn hafa í umræðunum um vegamálin verið að nota þennan samanburð til þess að sýna hvaða hlutfall af því sem við höfum til ráðstöfunar eftir atvikum menn kjósa að nota til vegamálanna. Ég vakti athygli á því að miðað við þær forsendur sem ég þekkti þá um þjóðarframleiðsluna væri þetta 1,57% af þjóðarframleiðslunni. Ef svo vel fer að þjóðarframleiðslan verður eilítið meiri en menn töldu um áramótin þá breytast þær forsendur. En ég hygg hins vegar að þrátt fyrir allt verði reynslan sú og dómur sögunnar sá að hlutfall okkar til vegamála verður á þessu ári ekki mikið frábrugðið því sem verið hefur undanfarin síðustu ár og það er kjarni málsins.