Vegáætlun 1991--1994

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 17:14:00 (3935)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það fer náttúrlega ekki á milli mála að málflutningur minn hefur komið við mjög viðkvæma taug í hæstv. fráfarandi fjmrh. þegar ég vakti athygli á því að samningurinn við Reykjavíkurborg hafði verið gerður á grundvelli tiltekinnar heimildar í fjárlögum sem kvað á um það að þessi samningur ætti að berast undir fjárveitinganefnd. Ég vakti athygli á því og óskaði eftir því sérstaklega að samgn. þingsins sem fær vegáætlun til meðhöndlunar fari ofan í þetta mál.
    Ég fullyrti aldrei í mínum ræðum eða í mínum málflutningi að samningurinn væri ólöglegur. Það kaus hins vegar hv. 8. þm. Reykn. að segja að hefðu verið mín orð og það út af fyrir sig dæmir hans málflutning eins og vera ber þegar hann leggur mér þessi orð í munn. Ég sagði það aldrei í einni einustu ræðu að samningurinn væri ólöglegur. Ég var aðeins að vekja athygli á því að sá þáttur málsins, sem sneri sérstaklega að þáv. hæstv. fjmrh., núv. hv. 8. þm. Reykn., var að bera hefði átt þetta mál fyrir fjárveitinganefnd, og það hafi ekki verið gert. Út á það gekk málflutningur minn og annað ekki.