Vegáætlun 1991--1994

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 17:53:00 (3939)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er margt sem nauðsynlegt er að gera að umræðuefni í því sem kom fram hjá hæstv. ráðherra. Ég tek aðeins það brýnasta út úr í andsvari.
    Ég vil í fyrsta lagi segja að það sem menn gera er að fella út lánsfjáröflun til jarðganganna og taka fé í staðinn úr vegáætlun. Menn eru því að þrengja að öðrum framkvæmdum með því að fella niður lánsfjáröflun. Að okkar mati er óskynsamlegt að ætla sér að sauma að öðrum framkvæmdum eins og raun ber vitni og mun skynsamlegra að fjármagna stór verkefni eins og jarðgöng á 8--10 árum, eins og áður var lagt til.
    Ég vil líka láta það koma fram að miðað við þá þáltill. sem ráðherra hefur lagt fram verður verulegur niðurskurður í nýframkvæmdum á Vestfjörðum á þessu ári, öðrum en jarðgöngum. Og ég vil benda ráðherranum á að svo virðist sem hann njóti ekki stuðnings þingmanna Sjálfstfl. á Vestfjörðum við þessa tillögu þannig að það eru fleiri en ég sem gagnrýna hana.
    Ég vil líka benda ráðherra á að það fjármagn sem áður fór til reksturs Skipaútgerðar ríkisins og var vissulega notað til að styrkja flutninga, greiða þá niður, var lagt af samkvæmt ákvörðun Alþingis og tillögu ráðherra. Það fé sem þannig sparaðist, eins og ráðherra kveður á um, var ekki tekið til samgöngumála heldur beint í ríkissjóð. Ég bendi ráðherranum á, fyrst hann telur eðlilegra að beina flutningum meira af sjó yfir á land, að þá hefði verið eðlilegra að taka það fjármagn sem áður rann til Skipaútgerðar ríkisins inn í vegáætlun.