Vegáætlun 1991--1994

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 18:01:00 (3943)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég held við séum alveg sammála, ég og hv. 2. þm. Austurl., um að þegar ákvörðun var tekin um að verja stórfé til þess að bæta Hellisheiðina höfðu menn ekki í huga að láta það sitja fyrir að vegasamgöngur milli Norður- og Austurlands yrðu bættar í náinni framtíð. Ég held þetta liggi alveg ljóst fyrir og þurfi ekki að hafa um það mörg orð.
    Á bls. 41 í hinni hvítu bók stendur: ,,Hraðað verður lagningu bundins slitlags á hringveginn og unnið að tengingu milli landshluta, m.a. milli Norðurlands og Austurlands.``
    Ég skildi spurningu hv. þm. svo fyrr í dag og biðst afsökunar á því að það var misskilningur að hann hefði skilið orð mín svo að ég stefndi að því að ljúka þessari tengingu nú á þessu kjörtímabili. Ég hef ekki gert mér vonir um það, enda liggja tillögur Vegagerðar ríkisins um endanlegt vegastæði á milli þessara tveggja fjórðunga ekki fyrir eins og sakir standa. Af þeirri ástæðu er þannig óhjákvæmilegt að taka sér nokkurn tíma til undirbúnings enda er þetta svæði auðvitað fyrir margra hluta sakir sérstakt. Þarna verða mikil fárviðri og menn hljóta að velta því fyrir sér hvort hægt sé eða skynsamlegt að nýta þann veg sem þar liggur nú þó svo á hann verði settir einhverjir krókar fyrir vetrarvegi eða hvort rétt sé að fara, eins og ég sagði áðan, norður fyrir fjallgarðana.