Flugmálaáætlun 1992--1995

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 18:35:00 (3948)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem er til umræðu er ákaflega mikilvægt, málefni flugvalla og flugmálanna í landinu. Þannig er mál með vexti að flugmál hafa fengið sívaxandi mikilvægi í okkar lífi. Flugsamgöngur hafa orðið æ nauðsynlegri, bæði innan héraðs og á milli héraða og ég hygg að þær breytingar og þær umbætur sem hafa orðið á síðustu árum hafi undirstrikað einmitt þá vaxandi kröfu sem hefur komið frá notendum flugvallanna um það að þessi þáttur samgangnanna sé bættur á þann veg að þær geti gengið sem greiðast fyrir sig. Til þess að undirstrika mikilvægi flugsamgangna innan lands mætti nefna það sem fram kemur í greinargerðinni að á árinu 1980 fóru um 600 þús. farþegar um flugvellina innan lands en voru orðnir tæplega 700 þús. á árinu 1990. Aukningin á þessum 10 árum er þess vegna 16% en hún er enn þá meiri ef litið er til ársins 1983, þegar farþegum hafði reyndar fækkað nokkuð frá árinu á undan, en aukningin frá árinu 1983 er um 30%. Þetta sýnir okkur auðvitað hversu flugsamgöngur eru orðnar mikilvægur þáttur og þess vegna nauðsynlegt að taka hérna vel á málum, standa vel að því að byggja upp flugvellina í landinu.
    Ég vil í þessu sambandi sérstaklega nefna að það var ánægjulegt að á árinu 1990 tókst að ljúka þeim áfanga að leggja bundið slitlag á Ísafjarðarflugvöll. Það verkefni hafði beðið mjög lengi og hafði raunar valdið miklum erfiðleikum. Með því að leggja bundið slitlag á Ísafjarðarflugvöll var örugglega hægt að koma í veg fyrir að fella þyrfti niður flugsamgöngur við þann kaupstað og það svæði af þeim ástæðum að aurbleyta hamlaði flugsamgöngum en þannig hafði einmitt háttað vorið 1990 að aurbleyta hafði komið í veg fyrir flugsamgöngur til Ísafjarðar.
    Flugsamgöngurnar eru líka lykillinn að samgöngum sumra afskekktra héraða við aðra hluta landsins. Ég vil í þessu sambandi sérstaklega nefna Árneshrepp á Ströndum, flugvöllinn á Gjögri, sem er mjög þýðingarmikill fyrir þetta afskekkta byggðarlag þarna norður í Strandasýslu.
    Ástæða er til þess að nefna sérstaklega í þessari umræðu að flest bendir til þess að flugsamgöngur beint til útlanda frá landsbyggðinni muni aukast á næstu árum. Sú þróun er þegar hafin á Akureyri þar sem örlað hefur á því að flugsamgöngur beint frá Akureyri til meginlands Evrópu séu hafnar og ég er ekki í nokkrum vafa um það að þegar fram líða stundir verður þessi þáttur æ mikilvægari í flugsamgöngum. Betri flugvélar til innanlandsflugs sem gera þetta kleift eru að koma í reksturinn og einnig hitt að breyttir atvinnuhættir, vonandi með nýjum samningi um hið Evrópska efnahagssvæði, munu kalla eftir því að flugsamgöngur við útlönd frá landsbyggðinni muni batna. Það er eftirtektarverð þróun að einn af vaxtarbroddunum t.d. í íslenskum sjávarútvegi er útflutningur á ferskum fiskflökum og forsenda fyrir því að þetta megi takast af landsbyggðinni er auðvitað sú að flugsamgöngur þaðan beint til Evrópu geti eflst og batnað. Ég nefni þetta m.a. vegna þess að núna er gert ráð fyrir því í þessari flugmálaáætlun að farið sé að skoða möguleikana á því að koma upp millilandaflugvelli við Þingeyri, Sveinseyri við Dýrafjörð og mjög fróðlegt verður að sjá hver niðurstaðan af þessum rannsóknum verður. Þetta er sérstakt fagnaðarefni vegna þess að með tilkomu jarðganganna á svæðið á norðanverðum Vestfjörðum mun áætlunarflug milli landa beint frá norðanverðum Vestfjörðum verða raunverulegur möguleiki og geta þannig opnað dyr okkar að nýjum mörkuðum fyrir sjávarútveginn á þessu svæði sem vissulega er í þörf fyrir að geta aukið fjölbreytni sína á öllum sviðum.
    Flugmálaáætlun mun fara til meðferðar að ég hygg í samgn. þar sem auðvitað er nauðsynlegt að fara ofan í þá tillögu til skiptingar á framkvæmdafé sem hér er lögð til og byggir að mestu, eins og fram hefur komið, á tillögum flugráðs. Ég legg mikla áherslu á að þessi yfirferð og endurskoðun nefndarinnar verði gerð að sem mestu leyti í samráði við heimaaðila því að ég hygg að oft hafi nokkuð skort á þetta. Hins vegar er auðvitað þannig að þingmenn viðkomandi kjördæma munu fara yfir tillögurnar hvað snertir þeirra eigin kjördæmi. Í því sambandi vil ég árétta að það er mjög mikilvægt að sú yfirferð ásamt yfirferð samgn. sé gerð í sem nánustu samráði við heimamenn sem vita best hvar á brennur. Í þessu sambandi langar mig að vekja athygli á hlut Bíldudalsflugvallar sem mér þykir nokkuð rýr í þessari flugmálaáætlun. Bíldudalsflugvöllur hefur verið að fá þá sérstöðu á síðustu árum að þar hefur umferð aukist mjög mikið. Flugvöllurinn er mjög vel í sveit settur landfræðilega, veðurfarsaðstæður eru þarna mjög hagstæðar fyrir flug og þrátt fyrir að stundum geysi hríðarbyljir á Vestfjörðum þá er það svo að flug til Bíldudals fellur sárasjaldan niður. Þetta hefur orðið til þess að þessi flugvöllur hefur orðið vaxandi þýðingu á svæðinu í Vestur-Barðastrandarsýslu, allt frá Patreksfirði, Barðaströnd, Tálknafirði, Bíldudal og sveitunum þar í kring. Þetta sést m.a. í fylgiskjölum flugmálaáætlunarinnar þar sem fram kemur að bara á milli áranna 1989 og 1990 jukust farþegaflutningar til og frá Bíldudal um 8% sem er ekki lítið á einu ári. Af þessum ástæðum er auðvitað löngu orðið ljóst að aðstæður allar til þess að taka á móti þessum mikla farþegafjölda á Bíldudal eru orðnar til ævarandi skammar og í raun og veru stendur flugstöðin alls ekki undir nafni þarna á Bíldudal. Sannleikurinn er sá að þegar mikið er um farþega eins og tíðast er frá Bíldudal er flugstöðin allt of lítil. Hún annar engan veginn þeirri umferð sem nauðsynleg er um flugvöllinn. Ég held þess vegna að það sé nauðsynlegt ásamt fjölmörgu öðru að fara mjög náið yfir það í þeirri yfirferð sem mun eiga sér stað í samgn. og í vestfirska þingmannahópnum að málefni Bíldudalsflugvallar séu sérstaklega skoðuð í þessu sambandi. Nú er ég ekki að gera lítið úr hlutverki eða mikilvægi annarra flugvalla í landinu eða kjördæminu en ég vil árétta það sérstaklega með þennan flugvöll að hann hefur nokkra sérstöðu að þessu leytinu. Hann hefur þá sérstöðu að hann er veðurfarslega vel í sveit settur og auðvelt að stunda þangað flug og flest sem bendir til þess að flugsamgöngur við Bíldudal muni batna á næstunni og umferðin um þennan flugvöll þar af leiðandi vaxa. Ég er ekki sérstaklega að nefna þá vaxandi umferð sem varð um þann flugvöll á liðnu sumri í tilefni af merku sjötugsafmæli en þá reyndar jókst mjög flugumferð um þennan flugvöll og mun örugglega koma fram þeim tölum sem við sjáum kannski að ári liðnu þegar farið verður að gera upp árið 1991. Engu að síður er það liður í nokkurri þróun sem við getum alls ekki horft fram hjá.
    Ég ítreka að ég tel að sú meðferð sem flugmálaáætlunin fær í þinginu þurfi að verða í mjög nánu samstarfi við heimaaðila. Ég hef oft og tíðum heyrt að heimaaðilar telja að þrátt fyrir allt sé ekki nægjanlegt samráð haft við þá og stundum sé verið að leggja áherslu á hluti sem séu kannski ekki endilega þeir skynsamlegustu frá þeirra sjónarhóli séð. Þess vegna hygg ég að það sé hlutur sem þingmenn kjördæma ættu að leggja verulega mikla áherslu á að endurskoða þessa tillögu í sem nánustu samráði við þá til þess að tryggja það eins og mögulegt er að innan þess ramma, sem við höfum í fjárlögum, sé komið til móts við sjónarmið heimamanna og óskir þeirra til þess að vinna þetta mál sem best og greiðast.