Flugmálaáætlun 1992--1995

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 18:45:00 (3949)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Mig langar að nefna fáein atriði í 1. umr. um till. að flugmálaáætlun. Það fyrsta er að taka undir það sem hér kom fram í máli hv. 5. þm. Vestf. og lýsa vonbrigðum mínum yfir því að framkvæmdafé flugmálaáætlunar skuli skert með því að hinn íslenski hluti af framkvæmdakostnaði við nýja flugstjórnarmiðstöð er tekinn af mörkuðum tekjum flugmálaáætlunar. Óhjákvæmilegt er að lýsa vonbrigðum yfir því að það skuli vera tillaga ríkisstjórnarinnar. Ég held að um það verði ekki deilt að þegar flugmálaáætlun var grundvölluð á sínum tíma, sem vel að merkja var mikið gæfuspor fyrir þann málaflokk í tíð þáv. samgrh., hv. núv. 1. þm. Vestf., þá var þetta verkefni að sjálfsögðu alls ekki inni á þeim lista yfir verkefni sem flugmálaáætlunin sjálf tók við. Reyndar var það svo að í þeirri áætlun var gert ráð fyrir að ýmis sérverkefni yrðu fjármögnuð aukalega eða fram hjá flugmálaáætluninni. Svo var t.d. í upphaflegum hugmyndum manna um Egilsstaðaflugvöll, um malbikunarframkvæmdir í Reykjavík, um flugstöð fyrir innanlandsflug á Reykjavíkurflugvelli ef til kæmi og jafnvel einhver fleiri verkefni ef ég man rétt.
    Með öðrum orðum voru tekjustofnar flugmálaáætlunar fyrst og fremst hugsaðir til þess að standa undir almennum flugvallarframkvæmdum í landinu á grundvelli 10 ára áætlunar um uppbyggingu þessarar aðstöðu sem var unnin og lögð til grundvallarafgreiðslu hinni fyrstu flugmálaáætlunar og lögum um tekjuöflun til flugmála sem fylgdu með. En menn hafa auðvitað orðið að sníða sér stakk eftir vexti og ljóst er að inn á flugmálaáætlun eru komnar framkvæmdir sem menn höfðu hugsað sér í upphafi að hafa utan þessarar áætlunar eða fjármagna með sérstökum hætti svo sem framkvæmdirnar á Egilsstaðaflugvelli. Hér er haldið út á enn nýja braut í þessum efnum þar sem tæplega er hægt að halda því fram að flugstjórnarmiðstöðin, sem fyrst og fremst þjónar hagsmunum alþjóðlegs flugs á flugstjórnarsvæði okkar, geti fallið undir þá skilgreiningu almennra framkvæmda í flugmálum innan lands sem flugmálaáætlunin byggir á. Þess vegna er það á sínum stað að beinlínis verði litið til þess hvort það samræmist þeim reglum sem menn settu sér á sínum tíma að fara svona í hlutina. Hvað sem því nú líður þá verður því í öllu falli ekki mótmælt að það er sem þessu nemur minna til almennra framkvæmda í flugmálum í landinu, þessum 50--60 millj. kr. sem verja á á þessu ári og tveimur næstu í þessa uppbyggingu.
    Ég tek einnig undir það að þar sem hér er á ferðinni einhver arðvænlegasta og álitlegasta fjárfesting sem við Íslendingar höfum lengi átt kost á að ráðast í, að mestu leyti greidd í formi gjaldeyristekna inn í þjóðarbú okkar af notendum þjónustunnar, þá hefði ekki verið slæmur kostur fyrir ríkissjóð að leggja fram þennan hluta, þessi innan við 20% sem þarna er á ferðinni, ef ég man rétt í ljósi þeirra miklu tekna, sem við höfum af því að annast þessa þjónustu á alþjóðlega flugumsjónarsvæðinu sem Íslandi tilheyrir og er gríðarstórt og um það mikil umferð og vaxandi ár frá ári. Það sem kemur í formi beinharðra gjaldeyristekna inn í þjóðarbúið fyrir þessa starfsemi mælist í hundruðum milljóna. En hvort þessu verður eitthvað þokað til eða ekki skal ósagt látið, en alla vega vil ég að mótmæli mín við þessari málsmeðferð og vonbrigði liggi hér fyrir.
    Í öðru lagi vil ég nefna að ábendingum hefur verið komið á framfæri við mig frá heimamönnum varðandi nafngift í einu tilviki þar sem er í flokkun flugvalla taldir upp áætlunarflugvellir í I. flokki. Þar stendur nú Húsavíkurflugvöllur en flugvöllur sá í Aðaldalshrauni sem um langt árabil hefur verið samgönguæð Húsvíkinga og Suður-Þingeyinga hefur jafnan heitið Aðaldalsflugvöllur og mun vera svo enn samkvæmt málvenjum og nafngiftum þar á því svæði. Hitt breytir svo engu þó að menn kysu að kalla t.d. sérleyfið milli Reykjavíkur og þessa flugvallar, sérleiðina á milli Reykjavíkur og Húsavíkur. Flugvöllurinn getur eftir sem haldið sínu sjálfstæða nafni og borið það samanber það sem gefur að líta á sömu blaðsíðu þar

sem er nefndur Alexandersflugvöllur við Sauðárkrók. Gjarnan er talað um sérleiðina Reykjavík-Sauðárkrókur en flugvöllurinn heitir Alexandersflugvöllur og var gefið það nafn fyrir nokkrum árum með viðhöfn. Ég kem þessu á framfæri og væri gjarnan æskilegt að hv. samgn. liti lítillega á þetta.
    Í þriðja lagi vil ég nefna málefni Egilsstaðaflugvallar. Það eru mér eins og fleirum nokkur vonbrigði að menn skuli ekki ætla með einhverjum hætti fyrir framhaldi framkvæmda þar og við hljótum að spyrja, ef ekki nú við þessa umræðu og fá svör við því þá þegar samgn. hefur lokið athugun sinni á málinu, hvað menn hyggjast þá fyrir í þessum efnum. Er það breytt niðurstaða flugráðs og þeirra sem um flugöryggismál fjalla að það sé fullnægjandi kostur að hafa Egilsstaðaflugvöll í þeirri lengd sem hann verður senn, 2.000 m, og það sé þá óbreytt viðhorf frá því sem áður var ákveðið að hann þyrfti að vera að lágmarki 2.400 m svo vel væri, æskilega 2.700 m til þess að unnt væri að fullnýta afkastagetu allra tveggja hreyfla flugvéla? Tæknilega munu þau mál liggja þannig að til flugtaks með fullhlaðnar vélar á hinum lengri flugleiðum þurfi 2.700 m brautarlengd. Ég tel að þar sem flugráð komst að þeirri niðurstöðu að fullnægjandi væri út frá öryggissjónarmiðum að brautin væri 2.400 m væri ekki réttlætanlegt eða ástæða til að leggja í viðbótarkostnað til að ná fram þessari lengingu og þar með hugsanlega í einhverjum tilvikum, örsjaldan á ári, sleppa við millilendingar í framhaldinu af því að menn höfðu notað varaflugvöll eins og væri í þessu tilviki. Ég tel að þessi niðurstaða um 2.400 m brautarlengd þegar Egilsstaðaflugvöllur verður uppbyggður sem fullkominn varaflugvöllur hafi verið skynsamleg og vel rökstudd. Menn þurfi þess vegna að hafa fyrir sér einhver ný rök áður en þeir hverfa frá þessari ákvörðun. E.t.v. er þetta uppsetningaratriði í flugmálaáætluninni og beri þá að skilja það sem svo að alls ekki sé um neina stefnubreytingu að ræða. Hins vegar sé það uppsetningaratriði að ætla ekki beinar fjárveitingar til Egilsstaðaflugvallar á árunum 1994 og 1995, geyma þá fjármuni frekar í óskiptum lið og þá það. En það er alveg nauðsynlegt að það sé skýrt fyrir mönnum hvað hér er á ferðinni, hvort um stefnubreytingu er að ræða eða ekki.
    Ég held ég hljóti að taka undir að viss ágalli er á framsetningu málsins að greinargerð flugráðs skuli birt með tillögunni án þess að útskýra þá sæmilega í byrjun í hverju breytingarnar felast sem gerðar eru frá tillögum flugráðs og til þess að lagt er fram hér í áætluninni. Það er ekki gert, heldur eru fjórar línur settar framan við af hálfu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að till. sé lögð fram í samræmi við samþykkt flugráðs með þeim breytingum að liður til leiðréttinga og brýnna verkefna er hækkaður um 66,2 millj. á árinu 1994 og um 139 millj. á árinu 1995, en aðrir liðir eru lækkaðir til samræmis. Þetta er eðlilegt þar sem lög mæla fyrir um að flugmálaáætlun skuli endurskoðuð á tveggja ára fresti. Síðan tekur við óbreytt greinargerð flugráðs. Þarna er alls ekki útskýrt í hverju breytingarnar felast, breytingar eins og þær að taka út þessar fjárveitingar til framkvæmda á Egilsstaðaflugvelli. Aðrir liðir eru ekki lækkaðir til samræmis í þeim skilningi að sú lækkun komi jafnt á þá alla. Þvert á móti eru ákveðnir liðir teknir út en aðrir ekki. Þetta hefði verið æskilegt að mínu mati að skýra a.m.k. betur áður en við tæki greinargerð flugráðs sem, eins og hér hefur verið bent á, gengur að sjálfsögðu út frá tillögum flugráðs, eins og þær voru. Það skal játað fúslega að ég ruglaðist nokkuð í ríminu þegar ég hafði annars vegar lesið fyrst í gegnum tillöguna og síðan fór að skoða greinargerðina og rakst þar allt í einu á það að á árinu 1994 væri gert ráð fyrir að hefjast handa við fyrsta áfanga að lengingu Egilsstaðaflugvallar í 2.400 m. Mig rak ekki minni til þess að hafa séð í sundurliðun neina fjárveitingu fyrir Egilsstaðaflugvöll og fletti því til baka og mikið rétt, svo var ekki. Misskilningurinn eða ruglingurinn skýrist á þessu að greinargerðin miðar við tillögur flugráðs en þær eru ekki í öllum atriðum teknar upp óbreyttar.
    Þetta er svo sem ekkert stórt mál, aðalatriðið er að enginn misskilningur sé á ferðinni og allir átti sig á því hvernig málið liggur.
    Að lokum er það svo, herra forseti, að ég vil undirstrika fyrir mitt leyti að gjörbreyting hefur orðið á allri stöðu þessa málaflokks síðan flugmálaáætlun með þessu sniði kom til sögunnar, síðan hinir mörkuðu tekjustofnar komu til sögunar til að standa undir framkvæmdum í flugmálum. Sem betur fer erum við þrátt fyrir allt ekki ýkja langt á eftir þeirri tíu ára áætlun sem hin upphaflega flugmálaáætlun byggði á. Það er kannski ekki aðalatriðið hvort okkur hefur miðað hálfu árinu skemur en áformað var. Hitt er mjög mikilvægt að menn geti varið þennan málaflokk fyrir skerðingum og nái að halda þessum tekjum til framkvæmda í flugmálum að fullu út þetta tímabil, þau 6--8 ár sem eftir eru. Þá munu menn sjá hér geysimiklar breytingar á allri aðstöðu okkar. Flugöryggi mun auðvitað aukast með þessum framkvæmdum og aðstæður allar batna til að halda uppi þessum mikilvægu samgöngum. Ég gæti tekið undir ýmislegt af því sem hv. 3. þm. Vestf. sagði um flugmálastefnuna almennt og líklega þróun á því sviði og sannarlega væri ástæða til þess og gaman að því þegar málið kemur til 2. umr. eftir umfjöllun í samgn. að við tækjum okkur tíma í að ræða almennt áherslur í flugmálum, flugmálastefnuna eins og hún er eða á að þróast á næstu árum og möguleika okkar t.d. varðandi nýsköpun í atvinnulífi á grundvelli bættra samgangna, ekki síst á flugsviði.
    Til þess að þetta megi verða og farið verði sæmilega myndarlega í þessa hluti þá væri æskilegt að hv. samgn. leggði svolitla vinnu í að fara yfir þessa hluti. Ég hvet eindregið til þess að samgn., hverrar formaður hefur verið hér víðs fjarri í allan dag, hæstv. forseti, sem er auðvitað ekki til bóta þegar við ræðum þessar tvær mikilvægustu ályktanir sem tengjast samgöngumálum, en við því verður þá sjálfsagt ekki gert. En þeim skilaboðum mætti þá koma áleiðis til hv. formanns samgn. og annarra nefndarmanna að ég teldi mjög æskilegt að nefndin tæki samtímis því að skoða flugmálaáætlunina ákveðna yfirferð á því að ræða flugmálastefnuna og framkvæmd á því sviði og möguleika okkar sem þessum samgöngum eða bættum samgöngum tengjast. Síðan gæti hún skilað inn skýrslu við umræðu um þá úttekt á þessum málum sem gæti auðveldað og greitt fyrir vitrænni umræðu um þennan málaflokk. Það væri sannarlega ástæða til. Ég tel að auðvitað sé nauðsynlegt að afla gagna og fá til fundar flugráð og sérfræðinga Flugmálastofnunar og samgrn. sem hafa á undanförnum árum unnið talsvert að því að fara yfir þennan málaflokk í ljósi nýrra aðstæðna, breyttrar tækni o.s.frv.
    Margt fleira gæti þar komið til skoðunar, til að mynda samstarf við næstu nágranna okkar í austri og vestri, hugsanlega stóraukið hlutverk íslenskra flugvalla sem beinlínis hluta af uppbyggingu flugmála á Grænlandi. Þannig vill nú til að eftir óopinberum leiðum er í mínum höndum nýleg skýrsla grænlensku heimastjórnarinnar um endurskoðun á flugsamgöngum í Grænlandi. Þar er m.a. fjallað um það í allítarlegu máli hvaða hlutverki flugvellir á Íslandi gætu hugsanlega gegnt í grænlenskum samgöngum í staðinn fyrir til að mynda rekstur flugvallarins í Syðri-Straumsfirði. En eins og e.t.v. einhverjir þekkja munu Bandaríkjamenn hætta rekstri hans 1. okt. nk. og munu öll útgjöld af þeim sökum, eitthvað á annan milljarð kr., lenda á grænlensku heimstjórninni og þarf ekki fróða menn til um fjárhag hennar til þess að átta sig á því að það er þungur baggi á þann litla landssjóð. Þess vegna eru Grænlendingar mjög að skoða það hvaða möguleikar séu þeim færir til þess að breyta flugsamgöngum sínum þannig að þær verði hagstæðari og inn í þá skoðun koma m.a. möguleg not íslenskra flugvalla. Það væri svo sannarlega vel ef við gætum með þessum hætti orðið til að aðstoða þessa næstu granna okkar og spillti ekki fyrir að auðvitað gætu fylgt því ákveðin umsvif og ákveðnar tekjur fyrir okkur ef svo tækist til.
    Ég vildi því gjarnan leyfa mér að lokum að óska eftir því að hv. samgn. liti til þessara hluta og skal verða nefndinni innan handar um tilteknar upplýsingar þó svo að þær séu með óformlegum hætti í mínum höndum.