Flugmálaáætlun 1992--1995

94. fundur
Miðvikudaginn 04. mars 1992, kl. 13:37:00 (3956)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það eru aðeins fáein atriði sem mig langar til að ræða í þessari seinni ræðu minni um þáltill. um flugmálaáætlun. Það er aðeins að gera grein fyrir mun á 2.400 m brautarlengd og 2.700 m. Niðurstaða flugráðs sl. haust varð sú að miða við 2.400 m brautarlengd, það er fullkomlega nægjanlegt miðað við þann flugflota sem hugsanlega þyrfti á varaflugvelli að halda, bæði flugflota innlendra flugfélaga og síðan þeirra flugvéla sem fljúga um íslenska loftstjórnarsvæðið.
    Það er líka mjög mikill kostnaðarmunur á því að fara með brautina alla leið upp í 2.700 m og ekki réttlætanlegt að leggja í þann kostnað fyrst ávinningurinn er ekki auðsjáanlegur en samkvæmt áætlunum sem lagðar voru fram á sínum tíma, að vísu orðin nokkuð gömul frumáætlun, mun það kosta um 40% meira að útbúa 2.700 m flugbraut heldur en 2.400 m.
    Hér var Bíldudalsflugvöllur aðeins gerður að umræðuefni eða öllu heldur flugstöðin þar. Ég get ekki tekið undir það sem fram kom að flugstöðin þar væri ekki boðleg mönnum. Þetta er út af fyrir sig ágætis flugstöð og tiltölulega nýleg til þess að gera. Hitt er rétt að hún er fulllítil miðað við þá breytingu sem

orðið hefur, að farþegum hefur fjölgað töluvert á þessum flugvelli. Það er gert ráð fyrir því að stækka flugstöðina og er gert ráð fyrir fjárveitingum til þess á næsta ári, mig minnir um 15,7 millj. kr. Ég hygg því að það sé sæmilega fyrir þessu séð en ég tek alveg undir það að mjög mikið samspil er á milli Bíldudalsflugvallar og Patreksfjarðar þar sem unnt er að fljúga oft og tíðum til Bíldudals þegar ófært er til Patreksfjarðar. Til þess að þetta samspil nýtist sem best þurfa hins vegar að vera nokkuð öruggar samgöngur á landi á milli þessara flugvalla og það rekur enn frekar á eftir endurbótum á Hálfdán, en þær breytingar sem orðið hafa með því að leggja niður Skipaútgerð ríkisins kalla einnig á skjótari endurbætur á þessum fjallvegi.
    Ég vil að lokum segja að ég skildi afstöðu hæstv. samgrh. þannig að hann er að falla frá þeirri samþykkt flugráðs að stækka Egilsstaðaflugbraut upp í 2.400 m. Sú ákvörðun sem mörkuð hefur verið er að slíkt skuli gert þegar að loknum núverandi áfanga og gera það á árunum 1994--1995. Það var skoðun flugráðs á þeim tíma og er væntanlega enn að óheppilegt sé að taka þetta verkefni í tveimur áföngum. Reynslan sýni okkur að þegar menn einu sinni leggja til hliðar verkefni og fresta þeim þá vill oft ganga erfiðlega að koma þeim af stað aftur.
    Ég vildi láta koma fram að ég skildi afstöðu hæstv. samgrh. þannig að hann hefði tekið þá stefnumörkun að ýta þessari samþykkt til hliðar, um sinn a.m.k., án þess þó í sjálfu sér að hann hafi tekið neina afstöðu um hvað síðar verður. En mér þótti á máli hans koma nokkuð sterklega fram að ráðherrann hygði jafnvel á það að líta til Húsavíkurflugvallar sem varaflugvallar og vildi ég gjarnan heyra í hæstv. ráðherra um það hvort ég hafi misskilið ræðu hans að einhverju leyti.
    Ég vil svo að endingu undirstrika afstöðu mína til þessarar tillögu eins og ég gerði grein fyrir í fyrri ræðu minni að ég styð þessa tillögu í öllum meginatriðum að frátöldu því að ég er andvígur þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að setja framkvæmdakostnað, hlut íslenska ríkisins við byggingu nýrrar flugstjórnarmiðstöðvar á flugmálaáætlun og greiða það af því fé. Enn fremur er ég ekki sammála þeim breytingum sem ráðherra gerir á tillögu flugráðs að flugmálaáætlun eins og hún var lögð fram fyrir ráðherra. Það eru tvær breytingar, annars vegar að taka út fjármagn áranna 1994 og 1995 til þess að fara í lengingu á flugbraut á Egilsstöðum í 2.400 m. Hin breytingin er endurbætur á flugbrautum í Reykjavík árið 1995.